SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. apríl 2019

GREINAR UM BÓKMENNTIR, LISTIR OG SAMFÉLAG. Frelsun heimsins

Kristín Marja Baldursdóttir. Frelsun heimsins. Reykjavík: JPV 2019, 156 bls.

 

Nýverið kom út greinasafn eftir Kristínu Marju Baldursdóttur undir titlinum Frelsun heimsins sem hefur að geyma sextán greinar og fyrirlestra um bókmenntir, listir og samfélagsmál, heima og erlendis. Greinarnar skrifar Kristín Marja á tímabilinu 1987-2018 og er þeim raðað upp í tímaröð, frá þeirri nýjustu til þeirra elstu.

Titilgrein safnsins segir frá því að þegar Kristín Marja hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu bað Matthías ritstjóri hana og aðra nýliða „í guðs bænum að reyna ekki að frelsa heiminn“ (53). Kristín Marja játar að það hafi reyndar verið ætlun hennar með því að gerast blaðamaður en: „Eitthvað gekk það nú samt treglega að reyna að frelsa þennan guðsvolaða heim“ (53).

Það væri fullmikið sagt að frelsun heimsins sé yfirlýst markmið með þeim greinum sem birtast í bókinni. Hins vegar er ljóst að Kristínu Marju liggur ýmislegt á hjarta og víða má finna beitta gagnrýni á galla íslensks samfélags, til að mynda þegar kemur að málefnum fjölskyldunnar, kvenna og aldraðra. Dæmi um það síðastnefnda er greinin „Tímavél íslensks samfélagsins“ þar sem íslenskt sjónvarp er borið saman við þýska ríkissjónvarpið og eðlilega spurt: „Hvar eru eldri borgarar Íslands? Eru þeir allir flúnir til Spánar? Eða eru þeir allir inni á stofnunum? Eru skilaboðin frá samfélaginu þau að eldra fólk eigi ekki að vera að þvælast fyrir í hinu skemmtilega, unga Íslandi?“ (116).

Fyrstu tvær greinar bókarinnar fjalla um bókmenntir með áherslu á kvenlýsingar viðkomandi bóka, Sölku Völku eftir Halldór Laxness og Egils sögu Skallagrímssonar. Í greininni um Sölku Völku veltir Kristín Marja meðal annars upp ólíkum viðhorfum ólíkra kynslóða til skáldsögunnar og segir þar sögu af sjálfri sér og ömmu sinni. Í þeirri síðari segir hún frá kvenpersónum Egils sögu, Þóru hlaðhönd Hróaldsdóttur, Ásgerði Björnsdóttur, Þorgerði Egilsdóttur og Þórdísi Þórólfsdóttur og rýnir meðal annars í sögu þeirra og tilfinningar sem þagað er yfir í texta sögunnar. Segja má að þar sé lesið á milli lína á næman hátt.

Áhugaverðustu greinarnar í safninu að mínu mati er hins vegar tvær greinar þar sem Kristín Marja segir frá tilurð bókanna tveggja um Karítas (Karitas án titils og Óreiða á striga), annars vegar, og skáldsögunnar Svartalogns hins vegar. Þar varpar hún ljósi á þá gríðarmiklu vinnu sem liggur að baki vandaðra skáldverka og ræðir samband veruleika og skáldskapar. Í fyrrnefndu greininni deilir Kristín Marja á stöðu kvenna á Íslandi sem hún telur síður en svo einkennast af framförum og spyr: „Hvaða öfl voru það sem stöðvuðu ætíð réttindabaráttu kvenna, einmitt þegar hún var komin á góðan skrið?“ (59).

Einlægur áhugi Kristínar Marju á myndlist kemur víða við sögu og greinin um kynni hennar af verkum frönsk-amerísku listakonunnar Louise Bourgeois er einnig með betri greinum bókarinnar. Þessi áhugi Kristínar Marju skilaði sér með eftirminnilegum hætti inn í skáldsögur hennar um Karitas, eins og lesendur þeirra vita.

Á einum stað skrifar Kristín Marja:

 

Ég hef fengist við það í skáldskap mínum að ljá konum raddir, og það hefur verið talað um að ég skrifi bækur mínar frá sjónarhorni konu. Sem ég þræti ekki fyrir. En þá má ekki gleyma því að karlkyns rithöfundar skrifa gjarnan bækur sínar frá sjónarhorni karla en um það er reyndar aldrei talað. (49)

 

Þetta er einkennileg athugasemd því kvennabókmenntafræði gekk í árdaga fræðanna einmitt út á að benda á að sjónarmið karla væri ráðandi í bókmenntum og bókmenntaumræðu og á því þyrfti að verða breyting. Ótal rannsóknir, sem fjölluðu um t.a.m. um kvenlýsingar í bókmenntum karla, litu dagsins ljós á þessu fyrsta stigi femínískra bókmenntarannsókna. Þar voru sjónarmið karla dregin fram - og gagnrýnd ef þess þótti þörf. Þessi orð Kristínar Marju hljóta að vera á misskilningi byggð, eða vanþekkingu.

Síðustu fjórar greinar bókarinnar eru úrval úr bréfum (fjögur bréf) sem Kristín Marja sendi Morgunblaðinu þegar hún var búsett í Noregi seint á níunda áratug síðustu aldar. Þetta er fjörleg bréf sem bregða upp skemmtilegum svipmyndum af frændum okkar Norðmönnum.

Það er ánægjulegt að út komi greinasöfn eftir starfandi rithöfunda og mætti vera meira um slíkar bækur. Ég man satt að segja ekki eftir mörgum slíkum bókum eftir íslenska kvenrithöfunda – en nokkur greinasöfn íslenskra karlrithöfunda koma upp í hugann. Getur verið að þarna sé um allmikla slagsíðu að ræða?

 

Myndin af Kristínu Marju er tekin af heimasíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.