Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙25. júlí 2021
LOLITA FYRIR #METOO KYNSLÓÐINA
Vanessa mín myrka vakti mikla athygli um leið og hún kom út á síðasta ári í Bandaríkjunum og rataði strax á metsölulista. Þetta er er fyrsta bók Kate Elizabeth Russel en hún hefur verið 18 ár í smíðum og er að mestu skáldskapur en eitthvað tekur þó mið af reynslu höfundar.
Sagan kom út í lipurri þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur fyrir skemmstu hjá Króníku og þrátt fyrir að hún telji rúmar 400 blaðsíður er hún fljótlesin. Textinn rennur vel, er auðmeltur en geymir engu að síður skemmtilegt líkingamál sem fer vel í þýðingu. Til dæmis segir á einum stað um vinsemdina að hún sé „eins og baðvatn sem gárar við axlirnar á mér, volgt og mjólkurkennt.“ (bls. 338) Það er einungis á stöku stað sem hnotið er um innsláttarvillur sem hefði þurft að uppræta í próförk.
Segja má að skáldsagan sé eins konar útfærsla af Lolitu fyrir #metoo kynslóðina. Fjallað er um svipað efni nema hér segir frá 42 ára gömlum kennara sem misnotar 15 ára gamlan nemanda sinn. Hún heitir Vanessa og er tiltölulega auðvelt fórnarlamb, einmana og óörugg í leit að athygli og viðurkenningu. Herra Strane lokkar hana til sín en telur henni engu að síður trú um að hún hafi átt frumkvæðið að sambandi þeirra.
Sagan gerist á tveimur tímaplönum sem síðan renna saman í eitt. Annars vegar er árið 2017 þegar fyrri, eða fyrsta, #metoo bylgjan ríður yfir. Fram koma ásakanir annarra nemenda um kynferðislega misnotkun herra Strane sem neyða Vanessu til að endurskoða samband sitt við kennarann. Hins vegar er rakin sagan af því hvernig samskiptum þeirra var háttað, allt frá því að það hófst árið 2000.
Vanessa er sögumaðurinn og því er öllum atburðum gerð skil frá sjónarhorni hennar. Með því móti veitist góð innsýn í allar þær blendnu tilfinningar sem hún ber í brjósti til kennarans og ekki síst skömmina sem er ævinlega dyggur fylgifiskur þolenda kynferðisofbeldis. Á einum tímapunkti sögunnar skoðar Vanessa mynd af fjórtán ára gömlu fórnarlambi herra Strane en þar undir stendur: „SVONA LEIT TAYLOR BIRCH ÚT ÞEGAR JACOB STRANE ÁREITTI HANA.“ Í kjölfarið leita á Vanessu hugsanir sem eru uppfullar af sjálfsásökunum:
Ég reyni að ímynda mér sömu línur settar við Polaroidmyndirnar sem Strane tók af mér þegar ég var fimmtán, þung augnlokin og þrútnar varirnar. Eða við myndirnar sem ég tók af sjálfri mér þegar ég var sautján, að lyfta pilsinu mínu með birkitré í bakgrunni, starandi í myndavélina eins og eldri Lolita og vissi upp á hár hvað ég vildi, hvað ég var. Hversu mikinn þolandastimipil skyldi fólk vera tilbúið að setja á stelpu eins og mig? (bls. 266)
Vanessa mín myrka er ein umdeildasta skáldsaga ársins 2020 og þá ekki hvað síst fyrir ásakanir rithöfundarins Wendy C. Ortiz. Ortiz sagði Russel notast við endurminningabók sína, Excavation, sem kom út árið 2014 og segir frá kynferðislegu sambandi Ortiz við kennara sinn á unglingsárum. Ortiz bendir á ósanngirnina í því að þarna sé á ferð skáldskapur hvítrar konu sem fær samning upp á sjöstafatölu fyrir að byggja á reynslu hennar sjálfrar en Ortiz, sem er af suður-amerískum uppruna, átti hins vegar í miklum erfiðleikum með að fá bók sína útgefna. Þá steig Elizabeth Kate Russel fram og segir nú að sagan sé byggð á reynslu hennar sjálfrar
Hvort sem Vanessa mín myrka er sönn saga eða hreinn skáldskapur þá er hún nógu raunveruleg til að vera gott innlegg í þá umræðu sem #metoo-byltingin vakti um nauðgunarmenningu og gerendameðvirkni. Í því efni er Vanessa mín myrka líkt og skólabókardæmi.
Myndin af Russel er fengin af heimasíðu hennar