Soffía Auður Birgisdóttir∙20. febrúar 2022
HÚN ER KOMIN STELPAN, OG SEGIR FRÁ. Efndir og Brot úr spegilflísum
Þórhildur Ólafsdóttir. Efndir (2021) og Brot úr spegilflísum (2020). Bókaútgáfan Skriða.
Þórhildur Ólafsdóttir hefur sent frá sér tvær bækur á undanförnum tveimur árum. Fyrsta bók hennar var ljóðabókin Brot úr spegilflísum (2020) og skáldsagan Efndir kom út á liðnu hausti. Á milli bókanna tveggja liggja gildir þræðir, samskonar hugsun, svipuð þemu og sömu yrkisefni er að finna í ljóðum Þórhildar og í skáldsögunni og því liggur beint við að tengja þær saman í umfjöllun um Efndir.
Í Brot úr spegilflísum er að finna ljóð sem ber titilinn „Sumstaðar“ þar sem sett er fram sú hugsun að staðir hafi áhrif á okkur, að umhverfið móti manneskjuna og byggi upp sjálfsmynd hennar:
sumstaðar er ég enn og verð alltafvarð eftir er ég fór, settist að, kom mér fyrirþótt ég kæmi aldrei afturaðrir staðir, miklu fleiri,slógust í för með mér,grófu sig inn í mighéngu í mér er ég gekk,hoppuðu upp í bíla, lestir,rútur, flugvélar,þrengdu sér óboðnir í sætiofan á mér eða undirslógu eign sinni á migdrógu dilk á eftir sérgluggar húsa urðu að glápandi augum,vegir að líflínum í lófunumrjóður í skógum að hreiðrum inní mérgutl sjávar við landsteinablandaðist blóðinu í æðunumlækir seytluðu inn um húðinaásýnd herbergja breyttu smekk mínumorð annarra runnu saman við mál mittekkert hverfur,hvorki stundir né staðir hvorki óþægindi né yndi daganaég verð að öllu sem ég hef séð eða skynjað
Fremst í Efndum er tilvitnun í Victor Hugo sem bendir á að enginn á líf sitt einn og sjálfur og miðlar því aftur svipaðri hugsun og í ofangreindu ljóði.
Í ljóðinu „Vornótt á Leitinu“ er lýst sama sögusviði og í Efndum. Fyrsta erindið hljómar svona:
Á Leitinu sér hún allt í einni hendinguyfir fjörðinn, túnin, norður flóannhjallin breiðir úr sér undir fjallihlíðarnar grænar, votar í húmi næturneðar er fjaran, klettar ásamt klöppumkulið gárar sjóinn, fuglar sofa.
Þriðja erindi lýkur síðan á þessari hendingu:
„hún er komin stelpan sem hérna hljóp,hvar varstu, litla skjáta? Segðu frá!“
Segja má að skáldsagan Efndir sé nokkurs konar framhald á lokahendingunni; hér er hún komin, stelpan, og segir frá.
Þroskasaga
Í Efndum er sögð þroskasaga konu sem heldur aftur til bernskuslóðanna í íslenskri sveit eftir að hafa búið lengi erlendis. Konan er komin yfir sextugt og hefur átt við sálræna erfiðleika að stríða í langan tíma, meðal annars glímt við þunglyndi og reynt að fyrirfara sér. Ýmislegt fleira veldur vanlíðan konunnar, meðal annars hefur tengdasonur hennar látist nýverið og einkadóttirin situr eftir í sárum með lítið barn.
Sögukonan er „uppfull af alls konar spurningum“ og telur að hún geti aðeins komið til botns í vandamálum sínum með því að snúa aftur til heimalandsins, á vit bernskunnar og fortíðarinnar:
Fannst ég þurfa að ganga frá einhverju, ljúka sumum köflum í lífi mínu, endanlega. Það var þó ekki fyrr en sorgin heilsaði í eitt skiptið enn sem ég ákvað að taka á mig rögg og ganga frá mínum málum. Slíkt var aðeins hægt að gera í heimalandinu. (13)
„Er hægt að vera maður sjálfur þar sem maður á ekki heima?“ (16) spyr hún skömmu seinna og það er ljóst að hér er kona sem þarf – þrátt fyrir að vera komin yfir miðjan aldur, vel menntuð og á farsæla starfsævi að baki – að finna sjálfa sig, safna sér saman í þeim tilgangi að sættast við sjálfa sig og líf sitt. Hún trúir því að til þess að geta hjálpað öðrum, til að mynda dóttur sinni, verði hún fyrst að hjálpa sjálfri sér.
Ár í lífi…
Efndir skiptist í fjóra meginhluta sem bera yfirskriftirnar Vor, Sumar, Haust og Vetur. Í upphafi hvers hluta er að finna ljóð sem tengjast frásögninni þematískt, líkt og ljóðabók Þórhildar gerir. Árstíðirnar fjórar vísa til ársins sem sögukona dvelur á æskuslóðum sínum í íslenskri sveit en hún hefur búið erlendis mestanpart fullorðinsævi sinnar. Hún þarf að finna aftur sveitastelpuna sem hún var og tengjast formæðrum sínum og feðrum:
Ég vissi snemma að ég var sveitastelpa. En það var ekki fyrr en löngu seinna að ég gerði mér það fyllilega ljóst að fyrir mörgum var það eins konar skammaryrði, eins og sveitafólk væri óæðri verur, hlægilegar, jafnvel andstyggilegar. (50)
Þessi uppgötvun, að það að vera sveitastelpa væri nokkurs konar skammaryrði fylgir í kjölfar þess að óaldarflokkur þorpskrakka veitist að sveitastelpunum þegar þær eru í heimsókn inni í þorpi og í kjölfarið fylgir hugleiðing um hvernig við „mannfólkið viljum alltaf vera að flokka hvert annað, setja í möppur og merkja þær“ (49). Sögukona segir minninguna hafa vaknað aftur hjá sér löngu síðar:
Það var þegar heill hópur af Reykjavíkurstrákum voru að skrifa bækur um reynslu sína af því að vera sendir í sveit, endalausar karlasögur fóðraðar með sjálfsánægjunni af því að vera strákar úr sveitaborginni Reykjavík, mættir galvaskir á ritvöllinn til að byggja sér frægðarturna úr minningum sínum af skrýtnu sveitafólki og hvernig þeir hefðu nú orðið að státnum, stæltum og vel gefnum karlmönnum af þrældómnum í sveitinni hjá hyskinu sem þar bjó. Það var þá sem mér datt í hug að gaman væri að skrifa bók um hvernig það var að vera sveitastelpa, lét þó aldrei verða af því. (50)
Þessi hugsun, að skrifa bók um reynslu sveitastelpunnar, er líka gefin upp sem ein af ástæðum þess að sögukona kýs að dvelja heilt ár á æskuslóðunum, einangruð og fjarri öllum, því langt er síðan búið hefur verið á staðnum.
Minningar og eðli þeirra
Í frásögn þar sem aðalpersóna rifjar upp líf sitt, spila minningar vitaskuld stórt hlutverk og eðlilegt að sá sem það gerir spái í eðli þeirra: „Minningarnar hafa skotist fram, ein eftir aðra. Ég veit auðvitað að kannski er ég að búa þær til, vil bara minningar sem henta sjálfri mér, en það er allt í lagi (114)“. Í Efndum er ekki bara vísað til minninga heldur eru þær bókstaflega raungerðar, þ.e.a.s. persónur og atvik úr fortíðinni stíga beinlínis inn á sögusviðið og láta í sér heyra:
[…] En mér fannst að allt fólkið sem hafði búið á þessum stað öld eftir öld hefði safnast saman og sæti í kringum mig á rúminu, á snörpu Álafossteppinu. Það var augljóst að þau vildu mér eitthvað svo ég lækkaði í útvarpinu. […]„Ég skal hlusta á ykkur“ sagði ég stillilega, reyndi að vera róleg. Ekki var ég fyrr búin að láta þessa setningu út úr mér en þau byrjuðu að rausa, öll í kór, svo það var mjög erfitt að greina hvað hver og einn vildi segja. Mér tókst samt að heyra að þau voru ergileg, fannst þau eiga hönk upp í bakið á mér og vera óánægð með frammistöðu mína í lífinu, vildu koma því skýrt til skila. (28)
Til að byrja með veltir sögukona því fyrir sér hvort hana sé að dreyma þegar persónur úr fortíð stíga fram en síðar er líkast því að um raunverulega atburði sé að ræða. Gott dæmi um er nokkuð löng frásögn þar sem sögukona mætir langömmu sinni sem er á leið til þvotta. Hún hefst á þessa leið:
Ég var komin langleiðina heim að bænum og var rétt við bæjarlækinn sem ekki er til lengur, nánar tiltekið á rananum sem liggur suður af læknum þegar ég mætti langömmu. Hún kom kjagandi með þvott í bala, það rauk af heitum þvottinum og ég sá að hún var svolítið þreytt og ergelsisleg á svipinn, balinn var áreiðanlega of þungur fyrir hana. „Langamma, það er ekkert vatn í læknum , hann er ekki lengur til, það er skurður kominn í staðinn“, flýtti ég mér að kalla til hennar, alltaf jafn framhleypin. „Það er nóg vatn fyrir mig til að skola úr þessum tuskum, þær eru ekki svo margar“, svaraði langamma um hæl og hélt áfram. Ég elti hana til baka og sá að gamli lækurinn var kominn aftur á sinn stað, líka litli hylurinn sem í honum var. Langamma fór strax að skola sápuna úr heita þvottinum, degndi þvottinum út í hylinn og velti honum þar fram og aftur svo sápan rann niður lækinn. Ég settist og horfði á hana skola æfðum höndum [...]
Samskiptum þeirra tveggja er síðan lýst og samtali. Sögukona spyr spurninga sem fær ekki svör og síðan gerist þetta:
En langamma svaraði ekki, hún var upptekin af verki sínu, nú var hún farin að vinda þvottinn og setja hann aftur í balann. Útlínur hennar og balans urðu sífellt óskýrari, svo stóð hún upp með erfiðismunum og hélt með balann heim að gamla bænum. Ég sá hvernig bæði hún og bærinn runnu saman við hjúp næturinnar og allt í einu var nýrra húsið komið í stað gamla bæjarins og þarna stóð tjaldið fyrir sunnan garðinn og beið eftir mér, dyr þess göptu tómlega við húminu. (59)
Þessi aðferð er ekki óþekkt og fellur vel inn að minningaforminu. En hins vegar má velta fyrir sér hvort þessar upplifanir sögukonu séu vísbending um að hún rambi á mörkum geðveikinnar, að um ofsjónir sé að ræða. Það er nefnilega ýmislegt í framhaldinu sem bendir til að ekki sé allt með felldu varðandi sálarástand persónunnar – og verður vikið nánar að því síðar.
Prósaljóðið „Kynlegur“ úr Broti úr spegilflísum tengist ofan ræddum kafla beint. Það hefst svona:
Kynlegur var ævaforn bæjarlækur. Í mörg hundruð ár höfðu konur skolað í honum þvott og börn fleytt á honum spýtum sem úr urðu bátar. Í leysingunum flaut hann stundum yfir bakka sína, leyfði sér aðeins að stríða heimafólki, fann síðan farveg sinn aftur.Dag nokkurn þegar stelpan kom heim í Heimalandið, var Kynlegur horfinn í skurð […]
Óður til forfeðra- og mæðra
Í Brotum úr spegilflísum er líka að finna langt ljóð sem ber yfirskriftina „Ætterni“ og hefst á þessum línum:
Fjórar langömmur eins og veraber. Allarfæddar árið eftir dönskustjórnarskrána, nema ein,sú tíu árum eldri en skráin.Sveitastelpur
Ljóðið, sem nær yfir tvær og hálfa síðu, lýsir síðan uppruna og lífi langammanna fjögurra, sorgum þeirra og gleði. Þetta er mjög skemmtilegt ljóð og í hugann koma fleiri nýleg ljóð þar sem íslenskar skáldkonur yrkja um formæður sínar [til dæmis Linda Vilhjálmsdóttir í smáa letrinu (2018)]. Ljóðið er óður til formæðra og -feðra og tengist því gildum þráðum í skáldsögunni sem hverfist að miklu leyti um líf fyrri kynslóða – lífshætti þeirra, basl og búskap, sorgir og gleði – og þau miklu áhrif sem þau höfðu á sögukonuna.
Mörg sjálf, mörg líf
Á einum stað í Efndum segir:
[…] þá detta mér í hug hin ýmsu líf sem ég hef átt, sum hafa verið stutt, önnur löng. Líf jakkafatakonunnar var töluvert langt og fullt af alls kyns viðburðum, ferðalögum, stressi, framapoti og svoleiðis veseni. Það var einmitt meðan ég var þessi kona sem ég áttaði mig svo skýrt á hversu sárt ég saknaði barnsins sem ég var einu sinni og reyni nú að finna. Það er einmitt það, ég vil ekki lengur vera útlæg úr bernsku minni. Vil þó alls ekki sjá bernskuna og gamla tíma í einhvers konar hillingum og klisjum. (143)
Hugmyndina um að hver manneskja búi yfir fjölbreyttum (mörgum) sjálfum – eða mörgum lífum – má rekja langt aftur, hún er til að mynda mjög áberandi í sjálfsævisagnafræðum tuttugustu og tuttugustu og fyrstu aldar. [Eina skemmtilegustu útfærslu á þessari hugmynd er að finna í skáldsögu Virginiu Woolf Orlandó. Ævisaga frá 1928.] Í Efndum er sögukonan ýmist nefnd stelpan, ég, Lísa, Lísitla eða Elísabet Kalan, en eftirnafnið fékk hún þegar hún giftist tyrkneskum eiginmanni sínum, Memed. Mismunandi nöfn sömu persónu í skáldskap vísa yfirleitt til mismunandi sjálfsmynda enda segir sögukona okkar á einum stað: „Stundum finnst mér ég vera margar persónur í einu“ (233). Mér varð hugsað til skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttir, Hringsól (1987), þar sem sögukonan, aðalpersóna bókarinnar, er ýmis kölluð Elínborg, Bogga, Ella, stúlkan eða ég. Reyndar er margt í bæði efni og frásagnaraðferð Þórhildar Ólafsdóttur sem minnir á bækur Álfrúnar, þeir sem þær þekkja vita að endurminningar, upprifjun á lífsferli og einhvers konar lífsuppgjör eru í forgrunni í þeim öllum.
Hvíld og gleði?
Í Brotum úr spegilflísum er ljóðið „Hvíld“, hér er það birt í heild:
Fengi ég aftur fetað upp á brúnirfundið mér stað í lautu undir barðihvílt mig frá amstri augun lokuð, þögulekkert heyrt nema vindinn þjóta í stráumbak við augnlokin eygt mig eins og ég varörlítil mjóna skokkandi um tún og hagahlustandi á brim í fjöru og hríð á gluggahjartað svo opið og viðkvæmt: það værieins og ég hefði himin höndum tekið,höndlað land mitt að fullu, þess móa og holthaldið í fangi lambi eða lóu í lófumleyft mér að finna þá dásemd að vera glöð.
Ljóst er að sama ósk liggur að baki þessu ljóði og að baki skáldsögunnar. Þá liggur beint við að spyrja: Finnur sögupersóna Efnda hvíldina sem hún þráir í dvöl sinni á bernskuslóðum? Nær hún „að finna þá dásemd að vera glöð“? Þegar líður á frásögnina fer lesandinn að fyllast efasemdum um að svo sé. Vissulega á hún góðar stundir, ekki síst í faðmi náttúrunnar sem hún sækir mikið til, liggur úti í tjaldi og dásamar náttúruna. En smám saman virðist þó fremur halla undan fæti en færast upp á við. Efasemdir vinkonunnar Önnu og þriggja frækna sögupersónunnar sem mikið koma við sögu, um að einveran fjarri mannfólki geri henni gott, virðast á rökum reistar. Og hún virðist gera sér grein fyrir þessu sjálf og segir á einum stað:
Sú ákvörðun að vera eftir þegar frænkurnar fóru síðastliðið vor fannst mér þó benda til að ég væri loksins farin að geta stjórnað lífi mínu örlítið. Nú, eftir bráðum heilt ár hér sé ég að svo er alls ekki. Margt er á reiki í höfði mínu, meira en ég kæri mig um, ekkert er lengur öruggt né augljóst. Ég er ekki frá því að ég sé virkilega að verða eitthvað skrýtin. (234)
Lesandi fær sömu tilfinningu. Þegar líður á söguna verður háttalag sögukonu að mörgu leyti skrýtið. Hún hættir að hugsa um líkamlegt útlit sitt og heilsu; hættir að þrífa sig, greiða sér, borðar einfaldan og fábrotin mat: pylsur, sláturkeppi „ásamt kaffi og brauði, hráum gulrótum, harðfiski og smjöri“ (223). Hún nennir ekki að elda…, hefur grennst mikið og hárið hefur „þynnst ískyggilega“ (223). Við þetta bætist að hún fer að drekka áfengi og fram kemur að það hefur verið vandamál hjá henni áður:
Já, það kemur fyrir að ég leyfi mér að drekka frá mér ráð og rænu, sérstaklega þegar ég er ein með sjálfri mér. Hvers vegna það byrjaði allt veit ég ekki, held mjög snemma. Til að deyfa sársaukann þegar ég lenti í fáránlegri ástarsorg á unga aldri og þannig koll af kolli. Fyrst var það kannski fyllirí einusinni eða tvisvar á ári, síðar nokkuð oftar. Skiptir það einhverju máli? Nei, það finnst mér ekki, enginn vissi um það, það fór allt frá í leynum, ég var oftast ein þegar ég drakk mig út úr heiminum, annars hefði ég skammast mín of mikið. Enginn mátti sjá mig. Ég hef ef til vill gert nánustu fjölskyldu minni illt með því, en varla nokkrum öðrum. Sjálf hef ég orðið heimskari og ekki eins sterk og ég var, ef ég var það þá nokkurn tímann. Það munaði reyndar mjóu að ég yrði alger alki þarna á árunum þegar mér leið svo illa. Það voru veikindin sem fóru verst með mig. Það er ekki auðvelt að láta greina sig með djúpt þunglyndi, þó maður geti falið það fyrir flestur, svo er lyfjunum að þakka. Öll þessi ár, sálgreinandatíminn, það var svo erfitt að lifa þá, ég var annaðhvort í lægð eða uppi á öldutoppi, vonlaus manneskja […] (216-217)
„Ég veit stundum ekki hvort ég er vakandi eða sofandi“ (223) segir hún líka á einum stað og svo virðist sem raunveruleikakennd hennar minnki stöðugt. Þrá hennar eftir að renna saman við náttúruna mætti líka túlka sem dauðaþrá.
Mér finnst ég vera að færast stöðugt nær náttúrunni með því að búa hér, stundum er eins og veggirnir á húsinu séu varla lengur til; það er ekkert skrýtið, húsið og ég erum að sjálfsögðu hluti af landinu og landið hluti af okkur. Það er eitthvað svo róandi að vita af því, að kona og hús séu í raun ekki neitt neitt mitt í allri þessari náttúru, geti þyrlast upp í vindinn eða runnið saman við rigningun þegar minnst varir. (211)
Áðurnefnd vinkona hennar, Anna, kemur í heimsókn þegar langt er liðið á árið og spyr: „Hvað hélstu að þú fengir út úr þessari dvöl? Að þú yrðir ný manneskja, gætir náð að skilja sjálfa þig, losa þig við sektarkenndina og þunglyndið? Var það svoleiðis? (238) Og sögukona svarar. „Ég held að mig hafi mest langað til að verða aftur að barni, finna hvernig það var að vera hér í þessu landslagi, vera hluti af landinu án þess að spá í af hverju ég væri það, bara vera hér og vera til, eins og það var þegar ég var pínulítil, áður en það yrði of seint“ (238). „Ertu ekki bara að flækja hlutina fyrir þér, Lísa mín“ (238), spyr Anna þá og síðar segir hún beint út; „þú lítur út eins og ræfill, eða ætti ég heldur að segja róni?“ (242).
Að anda eða andast?
Undir lok frásagnarinnar kemur kafli þar sem sögukona sest niður í stiga gamla hússins og lætur hugann reika. Þá ryðjast myndirnar fram, „hver á eftir annarri með feiknahraða“ (244). Það sem eftir fylgir er lýsing á lífi sögupersónunnar, samþjöppuð í hraðar myndir sem renna henni fyrir hugskotssjónum, og nær yfir fjórar blaðsíður. Við lesturinn á þessum síðum verður lesanda hugsað til þeirrar trúar að á dánarstundu renni allt líf manneskjur um huga hennar á örskotsstundu. Það vaknar því sú spurning hvort sögukona sé að nálgast dauðastundina þegar þarna er komið í frásögninni? Hefur ferðalag hennar verið leið til dauðans en ekki leið til lífsins og betri þroska – eins og hefðbundnar þroskasögur enda oftast? Það verður hver lesandi að gera upp við sig en lok bókarinnar eru mjög óræð og opin fyrir túlkun.
Í ljóðinu „Í vetrarborg“ í Brotum úr spegilflísum hljómar síðasta erindið svona:
straumurinn heiðbláiræður ferðeitthvað langt norðurget sofið á meðanþarf ekkert að geraaðeins anda eðaandast.
Þær tvær bækur Þórhildar Ólafsdóttur sem hér hefur verið rætt um verða að teljast mjög áhugavert upphaf á skáldaferli höfundar enda hafa þær (eða a.m.k. skáldsagan) vakið verðuga eftirtekt hjá lesendum. Þórhildur á vonandi eftir að láta meira af sér kveða á vettvangi íslenskra bókmennta. Ég má þó til með að minnast á að kannski færi betur á að búa bækur hennar í annan búning en þann einfalda gráa sem þessi tvö verk eru bundin inn í. Þótt umbrotið og hönnunin sé „smart“ er ljóst að útlitið vinnur ekki með bókunum, er „ósöluvænt“. Væntanlegir kaupendur bókanna hafa stundum átt erfitt með að finna þær í bókabúðum, þar sem þær týnast meðal litríkari bóka eða eru ranglega flokkaðar (Efndir sett á meðal ljóðabóka).