SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. desember 2018

LÁTLAUST EN MAGNAÐ. Amma. Draumar í lit

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir. Amma. Draumar í lit. Reykjavík: Stundin 2018, 90 bls.

 

Látlaust en magnað - Saga kynslóðanna

Tilfinningin sem ég fékk þegar ég las bókina Amma– draumar í lit var að ég væri að einhverju leyti að lesa um mína eigin fjölskyldu. Þótt persónur væru aðrar, sem og hinir smáu drættir frásagnarþráðarins, þá eru stóru drættirnir þeir sömu og stundum var skörunin með ólíkindum. Þetta er saga ólíkra kynslóða á Íslandi, aðalpersónurnar eru tvær: Hólmfríður, sem fædd er 1930, og er amma hinnar yngri Hólmfríðar, sem er fædd 1979, og er höfundur bókarinnar. Sjálf er ég 20 árum eldri en höfundurinn en það breytir ekki því að tíðarandinn, atvikin og tilfinningarnar gjörþekki ég – og ég trúi því að það sama gildi um marga þá sem lesa þessa bók.

Raddir ólíkra kynslóða

Bókin hefst á því að Fríða yngri heldur á æskuslóðir ömmu sinnar, Raufarhöfn, þar sem húsið sem amma ólst upp í stendur enn; 'ættarhöllin' sem er „pínulítið hvítt steinhús með grænu bárujárnsþaki“ sem „liggur undir skemmdum og hrynur eftir fáein ár ef því verður ekki bjargað“ (13). Fríða eldri hefur dvalið í húsinu svo til öll sumur ævi sinnar en er þó ekki með í för í þetta sinn vegna veikinda. Á æskuslóðum ömmu veltir Fríða yngri fyrir sér lífinu í gamla daga, ævi ömmu sinnar og misjöfnum kjörum ólíkra kynslóða:

„Hugsandi um þessar tvær fjórtán ára stelpur, Fríðu og Fríðu, fjórtán ára gamlar á ólíkum tímum, velti ég fyrir mér hvaða kraftur hafi rekið hana áfram“ (25).

Það er þessi hugsun sem er drifkraftur frásagnarinnar. Í stuttum en hnitmiðuðum köflum er ævi ömmu Fríðu rakin og sögukonurnar eru tvær: Fríða yngri og Fríða eldri skiptast á að tala, raddir tveggja kynslóða hljóma. Sú yngri spyr spurninga sem hin eldri svarar, sú yngri bætir við eigin hugleiðingum og fyllir upp í myndina með nauðsynlegustu upplýsingum um fjölskylduna og líf hennar. Inn á milli koma tilvísanir í líf höfundar, hér er þó sparlega farið með því það er saga ömmu sem er í forgrunni. Engu að síður varpa örkotsmyndir úr samtímanum ljósi á hina ógnarhröðu framvindu tímans og þær breytingar sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum á liðinni öld.

 

Af landsbyggð á mölina

Saga ömmu Fríðu er saga flestra íslenskra kvenna sem fæddust á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hún er fædd 'úti á landi', í litlu sjávarþorpi, ólst upp í stórum barnahópi við kröpp kjör. En ólíkt öðrum stúlkum í þorpinu ákvað hún að fara burtu í menntaskóla og þar kemur óvenju sterkur persónuleiki hennar fyrst fram. Þegar hún yfirgefur þorpið eru umbrotatímar í heiminum, hún fer til náms í menntaskólanum á Akureyri í maí 1944 – rétt fyrir lok síðari heimstyrjaldarinnar og hlustar á stríðslokaræðu Churchills í útvarpinu þegar hún er nýkomin þangað. Slíkar viðamiklar tilvísanir fleyga frásögnina en jafnframt ágengar nærmyndir, eins og þessi frásögn Fríðu eldri sem hefur að geyma minningu frá því þegar hún var á leið í skipið sem sigldi með hana til Akureyrar:

 

Þar sem ég gekk eftir bryggjunni sá ég ábúðarfullan skipstjórann standa í brúnni. Hann bar bláa húfu á höfði og fylgdist með því er tvær líkkistur voru hífðar uppúr skipinu. Á bryggjunni stóðu hnuggin hjón. Hann klæddist svörtum jakkafötum, bar hvítan trefil sem lafði niður á tær og hafði tekið af sér svartan hattinn. Hún bar íslenskan búning, hafði svart sjal á herðum sér og síðar fléttur. Í kistunum hvíldu uppkomin börn þeirra sem höfðu látist með mánaðar millibili, annað í Reykjavík og hitt á Akureyri. (22-23)

 

Hið stóra og hið smáa kallast sífellt á í frásögninni og mynda saman áhrifamikla lýsingu á högum einstaklinga, þróun samfélags og einnig glittir í hinn stóra heim.

Draumar í lit

Fríða eldri á sér drauma um að halda áfram námi, hún hefur í hug að verða tannlæknir, en hún kynnist góðum manni, giftist honum og áður en við er litið eru börnin orðin sjö og hlutskipti hinnar heimavinnandi húsmóður óumflýjanlegt. En það er engin nauð eða óhamingja í því hlutskipti þótt draumarnir hafi verið aðrir; fjölskyldulífinu fylgir hamingja og fullnægja þótt verkin sé mörg sem þarf að vinna og efnin aldrei mikil. Síðar, þegar börnin eru komin á legg gefast ný tækifæri og Fríða fer í Kennaraskólann og á fyrir höndum langan feril sem farsæll kennari.

En líkt og í öllum fjölskyldum ríða yfir sorgir og erfiðleikar og stundum fer tilveran á hvolf. Veikindum og dauða eiginmanns Fríðu - afa Gríms - er lýst af látleysi og næmi sem bregður skýru ljósi á þessa kynslóð karlmanna sem bar harm sinn í hljóði, leitaði helst ekki til lækna og gat ekki tjáð með orðum það sem mestu máli skipti:

 

Ég gat ekki fengið hann til að tala um það sem okkur lá eflaust báðum á hjarta. Sumir ræða margt við sína nánustu áður en þeir fara og það hefði ég viljað gera. Hann hafði að vísu sagt við lækni, sem talaði við mig eftir að hann dó, að hann væri ekki ósáttur við að deyja en hann hefði áhyggjur af mér. En ég hefði viljað geta talað einlæglega við hann og finna það sjálf að hann hefði áhyggjur af því að fara frá mér. Ég hef kannski stundum verið svolítið reið út í hann fyrir það, að hann skyldi ekki segja mér það sjálfur. (76)

 

Þarna lýsir hún sárri reynslu sem margir þekkja af eigin raun; fylgifiskum 'karlmennsku' af þeim toga sem vonandi er á undanhaldi.

Konur eru konum bestar

Skemmtilegar eru lýsingarnar á góðu sambandi kvenna í bókinni, ekki bara yndislegu sambandi ömmu og sonardóttur, heldur einnig samband heimavinnandi húsmæðra sem styðja hver aðra og skemmta sér konunglega saman, lýsingar á leikfimihópi kvenna, sem og lýsingar á kvenréttindakonum sem efndu í kvennafrídaginn 1975. Þegar Fríða yngri spyr hvað ömmu finnist um þá fullyrðingu „að kvennasamstaðan sé ekki svo sterk eftir allt saman. Að konur séu í raun konum verstar“, svarar hún: „Ég held að það sé ekki rétt. Konur eru konum bestar“ (69).

Frásögnin er fleyguð með ljóðum Hólmfríðar eldri, en 2015 kom út bókin Dagar sóleyjanna koma þar sem úrval ljóða sem hún hafði ort á langri ævi var safnað saman og gefið út á bók, að frumkvæði afkomenda hennar. Þetta eru meitluð og falleg náttúruljóð og gaman er að hafa nokkur þeirra með í bókinni.

Bókmenntaperla

Amma - draumar í lit er bók sem lætur lítið yfir sér. Bókin er ekki löng og hún gefin út í kilju. En hér er á ferðinni bókmenntaperla. Frásagnarstíllinn er lágstemmdur og látlaus en engu að síður magnaður. Bókin skipar sér strax, í mínum huga, sess hjá æviminningaperlum á borð við Eitt er það land eftir Halldóru B. Björnsson og Minningum Guðrúnar Borgfjörð, svo dæmi séu tekin. Einhverjum finnst fortíðarþrá (nostalgía) einkenna frásögn Hólmfríðar Helgu, en ég er því ekki sammála. Bókina einkennir fyrst og fremst virðing og væntumþykja og kannski söknuður eftir nánari samskiptum kynslóðanna. Það eru gildi sem vert er að halda á lofti og óska að væri fyrirferðarmeiri í nútímanum. Þetta er bók sem ég trúi að flestar ömmur, mömmur og dætur muni njóta að lesa. Það er ljóst að höfundur bókarinnar er mjög ritfær og vonandi á hún eftir að halda áfram að skrifa og gefa út fleiri bækur.