SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir26. apríl 2019

HITT KYNIÐ SJÖTÍU ÁRA

SIMONE DE BEAUVOIR. Heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Ritstjórar: Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Rannsóknastofa í kvennafræðum, Háskólaútgáfan 1999.

 

Þakkir til þeirra sem þær eiga skildar

Fimmtugsafmæli bókar Simone de Beauvoir Hins kynsins var víða vel fagnað í fyrra enda um að ræða eitt af grundvallarritum femínískra fræða og eitt merkasta heimspekirit 20. aldarinnar. Rannsóknastofa í kvennafræðum við Háskóla íslands stóð fyrir málþingi um verkið, höfundinn og önnur skrif hennar síðastliðið vor og rétt fyrir jólin sendi Rannsóknastofan frá sér bókina: Simone de Beauvoir. Heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Í bókinni er að finna þau fimm erindi sem flutt voru á ráðstefnunni og allítarlegan inngang um Beauvoir eftir ritstjórana Irmu Erlingsdóttur og Sigríði Þorgeirsdóttur.

En það sem einna mestum tíðindum sætir er að í bókinni er einnig frumbirt íslensk þýðing Torfa H. Tulinius á Inngangi Simone de Beauvoir að Hinu kyninu. Þessi tuttugu blaðsíðna inngangur höfundar gefur góða innsýn í hugmyndafræði verksins og efnistök Beauvoir. Auk þess er hann afbragðsgott dæmi um hinn skemmtilega, meinhæðna stíl sem Beauvoir beitir víða í verkinu. Þessi inngangur er víða notaður sem kennsluefni og því frábært að fá hann í íslenskri þýðingu.

Í inngangi ritstjóranna fjalla þær Irma og Sigríður um stöðu og mikilvægi Hins kynsins í femínískri umræðu frá útgáfuárinu 1949 og til okkar daga. Þá rekja þær ævisögu Simone de Beauvoir í grófum dráttum með áherslu á feril hennar sem heimspekings, rithöfundar og femínista. Báðar eiga þær síðan greinar í bókinni og nefnist grein Irmu Erlingsdóttur bókmenntafræðings: „Hitt kynið í fimmtíu ár. Viðtökur og viðhorf í Frakklandi“. Enginn er spámaður í sínu föðurlandi, segir máltækið og er mjóg fróðlegt að lesa um þá fordóma, kvenfyrirlitningu og heift sem fram koma í viðtökum ýmsra mætra manna á verkinu þegar það kom fyrst út. Einn þeirra sem varði verkið var Maurice Nadeau, þekktur gagnrýnandi, og orð hans lýsa vel tíðarandanum: „Gagnrýnendur þola ekki að kona, sem auk þess er heimspekingur, tali opinskátt um kynlíf og reynsluheim kvenna" (bls. 48). Irma greinir vel viðtökurnar og ástæður fordæmingarinnar og tengir þær við franskt samfélag á greinargóðan hátt. Hún fjallar ekki aðeins um viðtökur verksins um miðja öldina heldur rekur hún umræðuna fram til 1999 og segir frá því hvernig „Simone de Beauvoir varð skyndilega eitt helsta viðmiðið í deilunum um nýtt frumvarp til jafnréttislaga í Frakklandi veturinn 1998-99“ (bls. 57).

Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur nefnir grein sína: „Konur og líkaminn: Frá Beauvoir til Butler“. Hún veltir fyrir sér hvaða erindi Hitt kynið eigi við samtíma okkar og skoðar verkið „í ljósi femínískra fræða samtímans, einkum hins svokallaða „póstfemínisma“ (bls. 101). Sigríður tengir hugmyndir Beauvoir við hugmyndir Judith Butler, sem er ein þeirra fræðikvenna sem hvað mest eru í umræðunni um póstmódernisma og póstfemínisma í dag. Hin fleyga setning Beauvoir: „Maður fæðist ekki kona, heldur verður kona“ er grundvöllur þess sem í dag er nefnt mótunarhyggja (andstæða eðlishyggju). Butler gengur í grundvallaratriðum út frá mótunarhyggju í sínum kenningum en hún gengur skrefinu lengra en Beauvoir og fullyrðir að líkaminn sé jafnmikill tilbúningur og sjálfsmyndin eða þær kynjaskilgreiningar sem menning okkar grundvallast á og streitist við að viðhalda. Samanburðurinn á hugmyndum Beauvoir og Butler um líkamann er fróðlegur og Sigríður sýnir fram á að meintir fordómar þeirrar fyrrnefndu gagnvart kvenlíkamanum (og meðgöngunni sérstaklega) eiga sér skýringar í samfélagslegri stöðu kvenna á ritunartíma verksins.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mannfræðingur skrifar greinina: „Konan með kyndilinn. Áhrif Simone de Beauvoir á íslenska kvennabaráttu.“ Eins og titill greinarinnar ber með sér er það mat Sigríðar Dúnu að Beauvoir hafi haft áhrif á kvennabaráttu á Íslandi ekki síður en annars staðar. Sigríður tengir hugmyndir Beauvoir við þætti úr stefnuskrá mismunandi kvennahreyfinga á íslandi, svo sem Rauðsokka, Kvennalistakvenna og Sjálfstæðra kvenna: „...í íslenskri kvennabaráttu er Simone de Beauvoir konan með kyndilinn, konan sem gaf þeim þremur ólíku kvennahreyfingum sem ég hef fjallað hér um nothæfar hugmyndir til að endurskapa konur sem félagslegar persónur í íslensku samfélagi og menningu“ (bls. 79).

Í greininni „Úr ástinni í eldinn“ fjallar Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur um skáldsöguna Mandarínarnir (1954) og reynir að sýna fram á að í henni setji Beauvoir fram kenningar um heimspeki ástarinnar og alvarlega gagnrýni á kenningar tilvistarstefnunnar. Dagný segir þessa skáldsögu vera eina róttækustu og erfiðustu bók Simone de Beauvoir og ástæða þess er umræða verksins um kynið og ástina. Mandarínarnir var bókin sem Beauvoir skrifaði næst á eftir Hinu kyninu og í því tengir hún saman „teoríuna og lífið,“ að mati Dagnýjar. Greining Dagnýjar er athyglisverð og sérstaklega samanburður hennar á hugmyndum Beauvoir og Sartre um ástina.

Samanburður á kenningum Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre er einnig viðfangsefni Vilhjálms Árnasonar heimspekings í síðustu grein bókarinnar sem nefnist „Tvíræð frelsunarsiðfræði“. Vilhjálmur dregur í stuttri grein skýra mynd af megininntaki tilvistarstefnunnar og þeim mismun sem er á kenningum Sartre annars vegar og Beauvoir hins vegar. Hann telur að Sartre hafi vanmetið þátt aðstæðna í lífi hvers einstaklings, aðstæðna sem óhjákvæmilega skerða það „frelsi sem tilvistarstefnan boðar að við séum öll dæmd til“. Beauvoir hafi, hins vegar, gert sér glögga grein fyrir því að aðstæður, t.d. kvenna og ýmissa minnihlutahópa, skerða frelsi þeirra og getu til Simone de ábyrgðar til muna. Það er mat Vilhjálms að Sartre hafi þegar leið á höfundarferil hans gert „sér betur grein fyrir álagi aðstæðnanna í lífi einstaklinga“ (bls. 132), þar hafi hann vafalaust lært nokkuð af félaga sínum Simone de Beauvoir. Hann gleymir þó að þakka henni en þakkar öðrum félaga sínum, Merleau-Ponty fyrir að hafa kennt sér.

Þótt Simone de Beauvoir fengi engar þakkir frá Sartre var það von hennar að hennar yrði minnst sem fjölhæfs heimspekings og rithöfundar því hún skrifaði fjölda bóka, innan margra bókmenntagreina. Eftir hana liggur á þriðja tug bóka: Hún skrifaði rit á sviði heimspeki og félagsvísinda, sjálfsævisöguleg rit, sex skáldsögur og eitt smásagnasafn og ferðabækur. En þrátt fyrir ótvíræða fjölhæfni hennar og fjölbreytni sem rithöfundar, er það fyrst og fremst vegna Hins kynsins sem nafn hennar lifir enn í dag og mun vafalaust gera um ókomna tíð. Það er ótvíræður fengur að greinasafni því sem hér hefur verið um fjallað, það er skyldulesning fyrir allar þær konur og alla þá karla sem láta sig umræðuna um jafnrétti og samskipti kynjanna nokkru varða.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2000