SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 7. desember 2020

SJÁLFSHJÁLP Í ÆVINTÝRABÚNINGI. Dóttir hafsins

Kristín Björg Sigurvinsdóttir: Dulstafir – bók eitt: Dóttir hafsins. Björt 2020. 285 bls.

Kristín Björg Sigurvinsdóttir hlaut nýlega tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, í flokki barna- og ungmennabóka, fyrir frumraun sína, Dóttur hafsins. Það er býsna góð byrjun á rithöfundaferlinum. Dóttir hafsins er titluð sem „bók eitt“ í flokki Dulstafa og því má vænta framhalds, enda ber endir sögunnar það með sér.

Dóttir hafsins er fantasíuskáldsaga sem gerist að mestu neðansjávar. Sjávarbotninn geymir heillandi ævinýraborg og í þessari furðuveröld er leikið með ýmis kunnugleg minni, sótt í þjóðsögur og aðrar ævintýrasögur en þar koma helst upp í hugann þjóðsagan um marbendilinn og hugsanaflutningurinn milli Harry Potter og illmennisins Voldemort.

Aðalpersóna sögunnar er unglingsstúlkan Elísa sem býr í sjávarþorpi á Vestfjörðum. Elísa er frekar venjuleg stúlka sem lesendur á svipuðu reki eiga trúlega auðvelt með að samsama sig við. Hún glímir nokkuð við erfiðar tilfinningar, á borð við óöryggi, kvíða og reiði, og fjallar sagan öðrum þræði um hvernig hún tekst á við þessa kvilla. Segja má að sagan sé eins konar sjálfshjálparbók fyrir unglinga vandlega pökkuð inn í ævintýri. Það er býsna vel gert.

Dóttir hafsins er sannkallað ævintýri og að baki þess er annað ævintýri um unga stúlku sem ól með sér þann draum að skrifa ævintýrasögu allt frá því að hún lærði að lesa. 13 ára gömul skrifaði hún fyrsta uppkast að Dóttur hafsins og síðan lá það ofan í skúffu í 12 ár. Þá dustaði hún að því rykið, 26 ára gömul, og skrifaði söguna upp á nýtt en studdist við hugmyndirnar úr upprunalega handritinu. Báðar þessar sögur geyma ljúfan endi ævintýranna en ekki setur köttur upp á sér stýrið því það hillir undir næstu sögu og verður spennandi að fá að fylgjast áfram með Elísu og félögum hennar.

Myndin af Kristínu Björgu er fengin af höfundarsíðu hennar á Facebook.