SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir20. apríl 2020

SKÁLDSKAPARHEIMUR NÍNU BJARKAR. Blómið sem þú gafst mér

Nína Björk Árnadóttir. Blómið sem þú gafst mér. Úrval ljóða (Jón Proppé valdi og skrifar eftirmála) Reykjavík: JPV 2000, 195 bls.

Níu ljóðabækur, tvær skáldsögur og fjölda leikrita hafði Nína Björk Árnadóttir sent frá sér þegar hún lést í apríl árið 2000. Ljóðasafnið sem hér er til umfjöllunar hefur að geyma úrval úr ljóðabókum hennar, auk nokkurra áður óbirtra ljóða og tveggja stuttra texta í frásagnarformi. Jón Proppé hafði umsjón með útgáfunni, valdi ljóðin og skrifaði stuttan eftirmála.

Skáldskaparferill Nínu Bjarkar spannar 35 ár. Á þeim tíma festi hún sig í sessi sem eitt athyglisverðasta skáld sinnar kynslóðar. Í ljóðum hennar hljómar sterk, persónuleg rödd og yrkisefnin eru oft á tíðum afar tilfinningaleg og huglæg og endurtekin stef hljóma í ljóðunum og koma glögglega fram í því úrvali sem hér um ræðir. Jón Proppé hefur leitast við „að velja ljóðin með það í huga að sýna fjölbreytnina í skáldskap Nínu en leggja jafnframt áherslu á þau meginþemu sem skýtur upp aftur og aftur í verkum hennar“ (bls. 195). Mér virðist valið hafa tekist vel í flesta staði, safnið gefur góðar heildarmynd af ljóðlist Nínu Bjarkar og hlýtur að vera ljóðaunnendum kærkomið – ekki síst þeim sem ekki þekkja skáldskap hennar að ráði nú þegar.

Ef reyna ætti að gera grein fyrir þeim þemum eða endurteknu stefjum sem hljóma í ljóðum Nínu Bjarkar koma fyrst upp í hugann eilífðaryrkisefnin ástin, trúin og dauðinn. Ástaljóð Nínu eru mörg og tilfinningaþrungin og ófá þeirra hafa erótískara ívaf en sjá má í ljóðum flestra samtímaskálda hennar. Nína Björg var kaþólsk og trúin skipar veglegan sess í ljóðagerð hennar. Ein ljóðabóka hennar Fyrir börn og fullorðna (1975) er reyndar í formi trúarlegs ljóðabálks, en ritstjóri hefur valið að sleppa þeim bálki í þessu safni. Hér er þó að finna nokkur ljóð trúarlegs eðlis, til að mynda „Bæn“ sem ort er til Maríu guðsmóður. Trúarljóðin tengjast mörg hver dauðaþemanu og einnig því þema sem kannski er einna fyrirferðarmest í ljóðum Nínu Bjarkar þegar á heildina er litið, en það er óttinn sem oft tengist sálarlegri vanlíðan og örvæntingu. Nína Björk yrkir í fyrstu persónu og í orðastað annarra um óttann sem klýfur vitundina og herjar á líkamann í formi fugls sem

 

tekur manneskjuna í klærnar
og flýgur með hana langt
svo langt
frá gleðinni
en hann er líka lítill
þá flýgur hann inn í brjóstin
og veinar
og veinar þar
(bls. 95).

 

Í ljóðabókinni Svartur hestur í myrkrinu (1982) yrkir Nína Björk um konur sem dvelja á sjúkrahúsum og berjast við hina innri ógn og óttann í brjóstinu og Jón Proppé segir í eftirmála sínum: „Engu íslensku skáldi hefur tekist jafn vel og Nínu að túlka þennan veruleika, hispurslaust og án fordóma, en ljóðin eru erfið lesning, spegill sem flestir veigra sér við að líta í“ (bls. 195). Mikið er til í þessari fullyrðingu Jóns, en kannski má benda á Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson sem dæmi um skáldverk sem nær ekki síður að túlka þennan veruleika.

Af öðru tagi eru ljóð Nínu Bjarkar sem sækja efnivið til æskuslóða hennar í Húnavatnssýslu. Hér er ort af mikilli hlýju og söknuði um saklausa æsku og verndandi umhverfi sveitarinnar sem oft er stillt upp sem andstæðu við líf hinna fullorðnu og þá sérstaklega í borginni. Þótt hér sé um að ræða alþekkt minni úr íslenskum bókmenntum er það ferskt í meðförum Nínu Bjarkar og verður hvergi klisjukennt.

Nína Björk yrkir einnig mörg ljóð til nafngreindra vina sinna. Hér er oft um að ræða skemmtilegar persónulýsingar í knöppu formi, en stundum eru ljóðin háð því að lesandi þekki þann sem ort er um til þess að þau njóti sín til fulls.

Í síðasta hluta bókarinnar sem nefnist „Söngurinn í Núpnum“ er að finna áður óbirt ljóð og tvo texta í frásagnarformi. Í þessum ljóðum hljóma stef sem eru kunnugleg úr eldri bókum Nínu Bjarkar í bland við nýja reynslu, ný sár og nýjar sögur. Af frásagnartextunum tveimur ber sá síðari af. Þetta er stutt og kankvís frásögn sem ber titilinn „Ég og Kristín Bjarnadóttir“ og er lýsingin á skáldkonunum tveimur, sem eru utanvið sig og villugjarnar alveg kostuleg í einfaldleika sínum og húmor. Hin sagan, „Alda“ er frekar rýr í roðinu og hefði að mínu mati mátt sleppa henni.

Fyrri ljóðabækur Nínu Bjarkar eru illfáanlegar. Því er fengur að þessari bók sem gefur góða heildarmynd af skáldskaparheimi Nínu og er henni verðugur minnisvarði. Kápa bókarinnar er haganlega hönnuð með fallegri mynd Alfreðs Flóka af skáldkonunni á forsíðu og afar góðri ljósmynd af henni á baksíðu.

 

 

Tengt efni