SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. janúar 2022

AÐ JAFNA SIG Á FEÐRAVELDINU. Meydómur

Hlín Agnarsdóttir. Meydómur. Sannsaga. Reykjavík: Ormstunga, 181 bls.
 
Í „forspili“ að Meydómi segir Hlín Agnarsdóttir frá andláti föður síns sem dó einn á sjúkrastofnun. Það eru mikil tímamót þegar foreldri deyr og þetta verður Hlín tilefni til að rifja upp uppvaxtarár sín, sambandið við foreldrana og ráðgátuna sem bernskan og mótunarár hennar voru. Aðferð hennar er blanda saman minningum og skáldskap: „Til að skilja þá ráðgátu leyfi ég mér að skálda. Án skáldskapar væri ekki hægt að tjá það sem varla er hægt að skilja“ (11).
 
Hlín kýs að skilgreina söguna sem „sannsögu“ en hugtakið „skáldævisaga“ ætti þó betur við því þar er fyrirfram gefið að blandað er saman skáldskap við ævisögulega frásögn en svo þarf ekki að vera í sannsögum. Þótt skilgreiningar á bókmenntum skipti litlu máli fyrir lesandann vil ég bæta einni i við:
 
Meydómur er í bland harmljóð um erfiða fortíð, glataða möguleika; tregaljóð dóttur til föður og móður sem harmar það sem var um leið og leitað er skilnings. Texti Hlínar sækir enda mikið til aðferða ljóðlistar, hann sveiflast á milli ljóðs og prósa í hárfínu jafnvægi.
 
 
 
Einleikur á bréfsefni
Frásögnin er sett fram sem bréf sem stílað er á föðurinn:
 
Hún ætlaði alltaf að skrifa þér bréf, segja að hún elskaði þig, segja að hún hataði þig, segja hver hún væri, að hún væri skyggn, að hún væri önnur, að hún væri falleg og fyndi til, segja þér til syndanna, segja þér að þú værir ljótur, að þú værir vondur, segja að hún vildi eignast pabba, að föðurgervið væri lélegt og trúðsgervið sömuleiðis, já, hún ætlað alltaf að skrifa þér bréf eins og Kafka, spyrja hvort þú héldir virkilega að þú værir tvíburabróðir guðs. (11)
 
Þetta er þó ekkert venjulegt bréf enda viðtakandinn látinn og vissi „aldrei hver þú varst og þú vissir aldrei hver hún var“ (11). Markmið bréfritarans er að minnsta kosti tvíþætt; að auka skilning sinn á því hver hún sjálf var og er og ekki síður að reyna að skilja föður sinn og hans kynslóð. Og þá um leið að leita skilnings á því hvað það var sem rak svo afgerandi fleyg á milli foreldra og barna á uppvaxtarárum Hlínar.
 
Hamingjudraumur sem splundrast
Þriðji kafli bókarinnar er helgaður foreldrunum, persónuleika þeirra, ástarsögu þeirra og hvernig raunveruleikinn heldur þeim innan skamms í heljargreipum með öllu barna(ó)láninu, fátæktinni og stritinu; hvernig „hamingjudraumur þeirra splundrast“ (21). Sú lýsing öll er mögnuð og afbragðs vel skrifuð. Ég efast um að þessari kynslóð og hlutskipi hennar hafi verið gerð betur skil í íslenskum bókmenntum, að minnsta kosti út frá sjónarhorni barna þeirra: „Ó, mínir ungu saklausu …nei, ó, mínir ungu vitlausu foreldrar, hvað ástin tekur ykkur með miklu trompi, hin illviðráðanlega ást sem engu eirir og heimtar alltaf sitt“ (18).
 
Mögnuð móðurlýsing
Þótt það sé faðirinn sem er hinn innbyggði móttakandi bréfsins er kastljósi höfundar ekki síður beint á móðurina og einkar áhrifaríkt er hvernig dregin er upp mynd af ungri, ástfanginni konu sem horfir vongóð til framtíðar en bugast smám saman af sífelldum barneignum og álagi; fjögurra barna móðir 24 ára gömul. Líkami móðurinnar er að sjálfsögðu í brennidepli, bæði á tímum unaðar og síðar þegar meðgöngur og fæðingar hafa tekið sinn sára toll. Lýsingarnar eru bæði fjörlegar og óvægnar:
 
Ó, mamma kroppur, mamma líkami, mamma brjóst og mjaðmir, svo æsandi fögur og aðlaðandi. Sæði þitt syndir á ógnarhraða í átt að aðvífandi eggi sem glóir eins og sólin sjálf og sendir ómótstæðilega logandi strauma sem soga og lokka milljónir af sæðisfrumum til sín. (15)
 
Á meðgöngu tvíburanna blæs maginn út og flæðir yfir allan skrokkinn og minnir helst á loftbelg. Þegar drengirnir eru fæddir sér mamma hvernig ofþanin húðin hefur slitnað svo maginn líkist helst sprunginni blöðru, hann liggur í krumpuðum fellingum utan á henni. Þennan maga fá börnin stundum að sjá síðarmeir þegar hún afklæðist stóru þykku magabeltinu sem heldur henni saman á daginn. Þá fellur maginn fram í mörgum fellingum og liðum, margslitinn og hrukkóttur og minnir helst á hvelju. (20)
 
Magnaðar eru allar lýsingarnar á því hvers konar toll, líkamlegan og andlegan, síendurteknar meðgöngur og fæðingar hafa á konur. Fæðingarþunglyndi kemur við sögu - án skilnings umhverfisins enda hugtakið ekki til á því tímabili sem um ræðir.
 
Nýja sjálfið verður til
Öðrum þræði er Meydómur að sjálfsögðu þroskasaga Hlínar sjálfrar enda er annar innbyggður lesandi bókarinnar/bréfsins „hún litla mín“, hið unga sjálf höfundar. Við fylgjumst með henni allt frá upphafi getnaðar sem höfundur veit að var í kringum afmælisdag móður sinnar og ímyndar sér að sjálfur ástarleikurinn hafi verið nokkurs konar afmælisglaðningur. Mjög falleg og skemmtileg er lýsing Hlínar á þeim leik:
 
Ef það reynist rétt að þú hafir gefið henni þetta í afmælisgjöf, þetta sem er best af öllu í taugakerfinu, mesta rafmagnið, mesta stuðið og slátturinn, getur nýja sjálfið verið nokkuð sátt. Það getur talið sér trú um síðar meir að hafa orðið til í ást […] nema ástin sé ekki til, sé bara orð yfir ósjálfráð og stjórnlaus taugaboð í heilanum sem senda skipun niður i limina, alla fingur og anga, allar frumur og skynfæri svo sjáöldrin þenjist út af æsingi og tilhlökkun. Blóðið streymir, húðin hitnar, varir þrútna og vessar streyma úr öllum kirtlum. Og látlausar skipanir úr stjórnstöð heilans: gjöra svo vel að snerta, strjúka, kyssa, sleikja, sjúga og bíta smá, bara smá. Narta. Gogga þar til alsælan hellist yfir. (19)
 
(Þessi lýsing hlýtur að hljóta tilnefningu til Rauðu hrafnsfjaðrarinnar...)
 
Hér hefur verið dvalið við upphafskafla bókarinnar því þeir gefa góða mynd af því hversu firnagóð tök Hlín hefur á frásagnarhætti sínum og stíl. Það sem fylgir í kjölfarið eru lýsingar á áföngum í áðurnefndri þroskasögu stúlku sem fædd er á sjötta áratugnum, á tímum sem eru svo ólíkir okkar tímum hér og nú að það er með ólíkindum.
 
Einnig er frásögnin uppgjör við foreldra sem voru svo óheppnir að þurfa að glíma við fátækt og lifa á mörkum hugmyndaskila sem sneru börnum þeirra upp á móti þeim og þeirra lífsgildum. Þetta er saga af eyðileggingarafli feðraveldisins og langtímaáhrifum valdbeitingar karla gegn sínum eigin börnum, ekki síst dætrum. Frásögnina mætti því líka skilgreina sem vitnisburð um það hvernig „hún litla mín“ jafnaði sig á feðraveldinu.
 
Tíðarandalýsing
Jafnframt er bókin frábær tíðarandalýsing, fjölskyldumynd sem margir ættu að geta speglað sig í, ef ekki að fullu þá að hluta. Höfundar vísar fimlega í sögulega atburði, menningu og tónlist til að fylla upp í myndina. Þar má nefna allt frá Hagkaupssloppum heimavinnandi húsmæðra til rokktónlistar unglingapartýja. Þá er einnig, sérstaklega í upphafi, vísað í bókmenntir sem dýpka skilning á frásögninni, eins og þegar föðurnum er líkt við Willy Loman í Sölumaður deyr og sögukona speglar sjálfa sig í bjöllunni í Hamskiptum Kafka.
 
Sjálfsþerapía
Síðast en ekki síst er Meydómur frásögn af sársauka og lækningu, af einhvers konar sátt sem höfundur hefur náð, kannski einmitt með því að skrifa þessa sögu, beita sjálfa sig skriftarþerapíu sem ef til vill er ekki síður árangursrík meðferð en tímanir hjá sálfræðingunum og geðlæknunum sem vísað er til í frásögninni.
 
Bók fyrir alla, konur og kalla
Meydómur Hlínar Agnarsdóttur er með áhugaverðustu skáldverkum síðasta árs. Hún er frábærlega skrifuð, fagmannlega upp byggð og á vonandi eftir að ná til sem flestra. Konur af kynslóð höfundar munu gleypa hana í sig, yngri og eldri konur vafalaust líka og fyrir karlmenn ætti bókin einfaldlega að vera skyldulesning.