SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. febrúar 2019

EFTIR HÖFÐI KARÓLÍNU. Líf og list Karólínu Lárusdóttur

Jónína Michaelsdóttir: Karólína. Líf og list Karólínu Lárusdóttur. Reykjavík: Forlagið 1993

 

Bókin um Karólínu Lárusdóttur er í senn ævisaga og listaverkabók. Það er Jónína Michaelsdóttir sem hefur skráð sögu Karólínu en leggur frásögnina alla í munn hennar sjálfrar. Þessi aðferð heppnast vel, frásögnin verður lifandi og einlægari fyrir vikið og lesanda finnst hann í nánum tengslum við listakonuna og hennar frásögn. En auðvitað er það listræn blekking – það er Jónína Michaelsdóttir sem vinnur textann og á hrós skilið. Auk þess að vera einlægur og trúverðugur er textinn vel skrifaður og bygging bókarinnar markviss. Ekkert í textanum er til óþurftar; Karólína segir okkur af fjölskyldu sinni og vinum - en hún slúðrar aldrei; hún segir frá sínum listrænu draumum, sigrum og vonbrigðum – en hún er aldrei hrokafull eða kvartsár; hún segir frá skeytingarleysi og lítilsvirðingu í sinn garð frá áhrifamönnum í íslenskum listaheimi – en hún er hvorki ásakandi né í hefndarhug. Þetta er vitnisburður konu sem veit hver hún er og hvað hún er og þarf ekki að mæla sig við geðþóttamælistikur þeirra sem vilja ráða yfir listinni. Þetta er saga listakonu sem er löngu búin að sanna hæfileika sína og erindi sitt við listina.

Það er ekki á mínu færi að meta listaverk Karólínu Lárusdóttur faglega. Ég get bara sagt að þau heilla mig og ég veit að margir eru sama sinnis. Reyndar eru verk Karólínu metin faglega af tveimur færum listrýnum í eftirmála bókarinnar. Það eru listgagnrýnandinn Sister Wendy Beckett og listmálarinn Harry Eccleston (sem var einn af kennurum Karólínu) sem skrifa hvort um sig stutta grein um verk Karólínu. Þau benda bæði á sjálfstæði Karólínu sem listamanns; að hún skapi „sinn eigin heim, dularfullan og hljóðlátan“ (Sister Wendy, 202) og að verk hennar séu auðþekkt þar sem hennar persónulegi stíll sé svo sterkur. Karólína „líkir ekki eftir neinum öðrum, en ég spái því að aðrir munu nota hana sem fyrirmynd og tel mig raunar þegar hafa séð þess merki“, segir Harry Eccleston og bætir síðan við: „En það er ekki nema ein Karólína.“

En þó að það sé bara ein Karólína þá er sagan sem Jónína Michaelsdóttir skráir mikið meira en saga hennar einnar. Karólína segir okkur meðal annars frá litskrúðugu lífi móðurafa síns og ömmu, þeirra Karólínu Guðlaugsdóttur og Jóhannesar Jósefssonar, sem byggðu og ráku Hótel Borg um árabil. Sagt er frá lífi þeirra erlendis, en þau voru með sýningarflokk sem sýndi íslenska glímu beggja vegna Atlantshafsins um langt árabil. Í Ameríku efnuðust þau svo vel að þau gátu byggt Hótel Borg á innan við einu ári. Karólína segir okkur líka frá móður sinni, Daisy Sögu Jóhannesdóttur. Hún sleit barns- og unglingsskónum erlendis og náði aldrei að festa djúpar rætur á Íslandi þrátt fyrir að hún giftist íslenskum manni og eignaðist með honum þrjú börn. Karólína segir frá móður sinni á næman hátt, hún kemur til skila sögu konu sem alltaf var hálf utanveltu við hið íslenska hversdagsamstur og naut sín aldrei til fulls á sínum fullorðinsárum. Lýsingin á lífi foreldra Karólínu og móðurforeldra hennar á þeim árum sem þau ráku Hótel Borg er athyglisverð fyrir margar sakir. Þetta er lýsing sem kemur íslenskum almúgamanni (eins og mér sjálfri) spánskt fyrir sjónir. Þetta var fólk í afburða góðum efnum sem lifði samkvæmt því; gerði vel við sig og sína í efnislegum þægindum og hafði þjóna á hverjum fingri. Móðir Karólínu eldaði ekki mat handa fjölskyldu sinni heldur fékk hann sendan í heitum pottum frá Hótel Borg á hverjum degi og þvottur var sendur í þvottahús. Eftir að hjónaband Karólínu eldri og Jóhannesar Jósefssonar liðaðist í sundur, bjó hún uppi í turni á hótelinu en hann á fyrstu hæðinni og hélst það fyrirkomulag í mörg ár – eða þar til hann seldi hótelið (að henni forspurðri). Þetta er saga síðustu íslensku „aristókratanna“ en um leið saga einstaklinga sem lifðu tvenna tíma og þurftu að þola glettni örlaganna, sem oft reyndist þeim þung í skauti.

Saga Karólínu Lárusdóttur er einnig saga ákveðinnar kynslóðar kvenna. Kynslóð Karólínu er líklega síðasta kynslóðin sem taldi það sjálfsagt að konur fórnuðu eiginmanni og börnum krafta sína, en um leið er hún fyrsta kynslóðin sem ekki telur það sjálfsagt. Þetta hljómar mótsagnakennt – en þannig er það, þetta er kynslóðin sem hefur að líkindum upplifað einna mestar breytingar á kjörum og högum kvenna í samfélaginu. Þessi deigla endurspeglast í lífi Karólínu Lárusdóttur. Hún gerir sér snemma grein fyrir því hvar hæfileikar hennar liggja og hvert hugurinn stefnir, samt hikar hún ekki við að leggja listina á hilluna fyrir fyrri eiginmann sinn og börn. En Karólína dregur enga dul á það að hamingja hennar og velgengni, bæði í einkalífi og starfi, byggist ekki síst á því að seinni eiginmaður hennar hefur „gefið henni það sem sérhver kona sækist eftir, „her own way“ - að ráða sér sjálf - haga lífi sínu eftir eigin höfði“ (bls. 197). Í þessu segir Karólína að gæfa sín sé fólgin, en kannski vanmetur hún sinn eigin þátt í þeirri gæfusmíð. Það er greinilegt að Karólína hefur lagt hart að sér til að ná árangri í listinni, þar liggur mikil vinna að baki – ekki síður en ótvíræðir hæfileikar.

Það er fengur að þessari bók um líf og list Karólínu Lárusdóttur. Ekki síst eykur það gildi bókarinnar að í henni eru margar vandaðar prentanir af málverkum hennar og grafíkmyndum. Hinir tæru litir málverkanna njóta sín afbragðsvel á svörtum pappírnum. Helst saknar maður þess að ekki séu fleiri myndir með (þótt þær séu yfir fimmtíu!). Næsta skref hlýtur að vera að gefa út listaverkabók í stóru broti með vönduðum litprentunum af verkum Karólínu.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 23. desember 1993