SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir14. apríl 2019

UM KELLINGAR OG HANDRIT

Guðný Hallgrímsdóttir. Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2013, 150 bls.

Ein áhugaverðasta bókin sem út kom 2013 en fór hljótt er Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur, einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Ný­lega var bók­in gef­in út hjá Rout­led­ge í Bretlandi á ensku und­ir titl­in­um A Tale of a Fool? en sú bók er miklu ít­ar­legri og lengri en sú ís­lenska (sjá frétt í Mbl.).

Höfundur bókarinnar, Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, lýsir því að handrit kvenna hafa verið næsta ósýnileg í gegnum árin, m.a. vegna þess hvernig þau voru skráð í handritaforða Landsbókasafns. Stundum týndust þau í handritapökkum sem merkt voru körlum og stundum voru þau beinlínis ranglega flokkuð og ekki tekin alvarlega.

Þannig fór fyrir stuttri sjálfsævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur (1759-1842), sem var vinnukona á yfir 30 bæjum í Eyjafjarðarsveit. Til eru nokkur áþekk handrit af sjálfsævisögu Guðrúnar, sem skrifuð var eftir henni þegar hún var um áttrætt, auk uppskriftar Geirs Vigfússonar, sem var skáld og fræðimaður á Akureyri. Geir tekur sér aldeilis bessaleyfi við uppskriftina, bætir í, sleppir og skreytir að vild og uppnefnir Guðrúnu “suðu” til að gera söguna hlægilega, en algengt var og sjálfsagt þótti að kellingar, fátæklingar og niðursetningar væru hædd og spottuð (20).

Þegar sjálfsævisaga Guðrúnar var svo prentuð 1929 í Grímu, safni þjóðlegra fræða, var henni skipað í flokk með gamansögum af heimsku fólki. Jónas Rafnar (d. 1972, sonur Jónasar sem skrifaði Íslenska þjóðhætti), ritaði formála að Grímu og gengur enn lengra en Geir, hann uppdiktar skýringu á uppnefninu á Guðrúnu og segir að hún hafi verið kölluð “Gunna suða” vegna þess hversu málglöð hún var og mikill rugludallur en það finnst hvergi í öðrum plöggum þar sem Guðrúnar er getið.

Í bók sinni varpar Guðný Hallgrímsdóttir ljósi á líf og kjör vinnukvenna á Íslandi á seinni hluta átjándu aldar og fram á miðja nítjándu öld út frá sjálfsævisögu Guðrúnar og öðrum heimildum. Vinnufólk átti ekki margra kosta völ í lífinu, það var lagaleg skylda að vera í vist, fólk var hreinlega ánauðugt og húsbændur voru afar misjafnir. Guðrún var sjálfstæð, hörkudugleg og eftirsótt til vinnu framan af ævi og á tímabili ágætlega sett á þeirra tíma mælikvarða. Hún átti eins bjarta framtíð fyrir sér og hægt var í hennar aðstæðum uns ástin brá fyrir hana fæti, hún féll fyrir ungum sjómanni og veður skipaðist skjótt í lofti. Guðrún lýsir honum svo eftir að hún skildi við hann:

 

“Þegar ég var þangað komin þá voru þar sjómenn, meðal hverra einn var frá Hrafnagili, sá bölvaður refur og hét Illugi, álitlegur maður en margur hylur úlfinn undir sauðargærunni, svo var um hann. Bauð hann mér alla þjónustu en ókunnugur varningur firrir margan fé. Hann var með bjart hár, í blárri peysu, grænum bol, hatt og góða skó. Þá kom tilhugalífið með okkur Illuga. Ég átti fimm kistur, þar var meira en myrkrið tómt. Í einni voru rúsínur og laumaði ég í hann af þeim því ég hugsaði að þetta væri maður en ekki djöfull. Svo tældi hann mig í búskap að Kristnesi og átti ég þó súrtunnu um haustið og margt þar niðrí… Þá fór hann í sitt hórurí og fór stelpu af stelpu en ég mátti sluma og þegja og ergist hvur með aldrinum…” (35-6)

 

Guðrún lætur engan eiga hjá sér, hún er ómyrk í máli í sögunni og hlífir hvorki manni sínum, húsbændum né samferðamönnum í sjálfsævisögunni. Og hún er ekkert að orðlengja neitt, frásögnin æðir áfram og ekkert dvalið við smámuni. En glöggt má sjá að henni sárnaði oft óréttlætið sem hún varð fyrir. Eftir skilnaðinn missti hún eigur sínar, var á hrakhólum og endaði sem niðursetningur. Það voru grimm örlög en því miður hlutskipti margra sem ekki áttu í nein hús að venda.

Í bókinni er sjálfsævisagan birt með nútímastafsetningu og stafrétt auk útgáfu Jónasar í Grímu svo hægt er að bera saman hvernig farið var með sögu Guðrúnar. Guðný fjallar mjög ítarlega um ævi Guðrúnar út frá sjálfsævisögunni og brotakenndum heimildum frá þessum tíma og tekst að draga upp heilsteypta mynd af lífshlaupi hennar. Það er t.d. magnað að lesa um það þegar dánarbú foreldra hennar er gert upp, taldar eru upp fáæklegar reytur þeirra, fatnaður, búsáhöld og bækur, sem lýsa vel aðstæðum fólks á þessum tíma.

Bók Guðnýjar er einstaklega aðgengilegt fræðirit og hún gerir sér mikinn mat úr þessu örstutta handriti sem líklega er elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar konu, handrit sem með naumindum lifði af þöggun og yfirgang karlveldisins. Það voru menntaðir karlar úr yfirstétt sem skrásettu og röðuðu handritunum á síðustu öld og af afdrifum sjálfsævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur má glöggt sjá hvaða álit þeir höfðu á handritum alþýðukellinga.

 

Áður birt í Kvennablaðinu, 13. janúar 2014