SÍÐBÚNA ÁSTIN OG UNAÐURINN. Af ljóði ertu komin
Steinunn Sigurðardóttir. Af ljóði ertu komin. Reykjavík: Bjartur 2016, 66 bls.
Ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur, Af ljóði ertu komin (2016), er sú níunda í röð ljóðabóka hennar frá því hún kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1969. Tæp 10 ár eru síðan Steinunn sendi síðast frá sér ljóðabók svo aðdáendur hennar voru orðnir ansi langeygir eftir molum frá drottningunni. Þeir verða ekki sviknir af þessari. Nú er örstutt í að að það verði hálf öld síðan Sífellur, fyrsta ljóðabók Steinunnar, kom út og því er tilvalið að rifja upp eitt ljóðanna úr henni.
Nú skal aðgát höfð
og fólk einungis sært af lipurri einurð og umhyggju,
því nægar eru þær fyrir
þjáningar mannssálarinnar
já sízt á þær bætandi
svo hjálpi mér guð
Þarna eru þau þegar mætt kunnugleg stefin; íronía, orðaleikir og vísanir sem síðar urðu meðal helstu höfundareinkenna Steinunnar. Gagnrýnendur tóku bókinni sæmilega en fæstir áttu von á glæstum ferli þessarar nítján ára gömlu skáldkonu.
Óendanleikinn allt um kring
Ljóðabókin er tileinkuð einu flottasta og mest kvótaða skáldi módernismans á Íslandi, Sigfúsi Daðasyni, sem er sjálfsagt mjög sáttur við þann heiður. Bókin skiptist í nokkra hluta eða ljóðaflokka sem tengjast hafi og ást, dauða og sorg. Fyrst eru Siglingaljóð, sem þó eru engir sjómannavalsar. Endilöng manneskja í áralausum bát kemst að því að ástin sem hún þáði var stærri en sú sem hún gaf og að það er ekki alltaf land fyrir stafni, stundum er bara óendanleikinn allt um kring.
Ljóðið „Siglandi“ hittir beint í mark með taktföstum hljómi og hrynjandi og hnyttnum myndhverfingum, heilsteyptri nýgervingu, um tilfinningarnar sem koma til manns á viðeigandi fleytum:
Allt kemur það siglandi til mín:
Síðbúna Ástin á manndrápsfleyi.
Kæruleysispramminn.
Óstöðvandi gufuskipið Sorg.
Dauðinn á tundurspillinum.
Kemur Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu.
Og Unaðurinn á flotholtinu samsíða. (15)
Írónían aldrei langt undan
Í næsta hluta bókarinnar kemur nóvember við sögu í öllum ljóðunum. Og allt er þar forgengilegt, meira að segja „The Girl from Ipanema“, sem bregður fyrir, sú sem er hávaxin og sólbrún, ung og elskuleg í samnefndu dægurlagi, það sér á henni eins öllu öðru, allt hverfur, allt fer… Í þeim hluta sem ber nafnið „Um allt og ekkert þvert“, hefjast ljóðin á einmitt orðunum Allt, Ekkertog Þvert. Þetta eru heimspekileg ljóð um kunnugleg stef, um tímann og fleira, og íronían sem Steinunn er þekkt fyrir að beita svo listilega er ekki langt undan:
Allt er fyrirhöfn
að klína marmelaði á brothætt tekex, tjónka við rugludalla,
búa sig á ballið, skreppa á klóið enn eina ferðina,
mála vegginn ófaglærður.
Af því að allt er fyrirhöfn
er maðurinn alltaf þreyttur;eilíflega á leiðinni að leggja sig.
Þó vill hann allt annað en það þegar tími er kominn til að
leggja sig alveg.Sitjandi upp við dogg heldur hann dauðahaldi í líftóruna.
Neitar að leggjast út af.Það er mesta fyrirhöfnin þegar verst stendur á.
Því þá er maðurinn alverst í stakk búinn til að standa
í stórræðum
þegar deyja skal.Loksins
Eftir lífsins óbilandi fyrirhöfn og málningarbras.“(43)
Ísmeygileg kaldhæðnin kemur í veg fyrir væmni án þess að breiða yfir boðskapinn. Í ljóðaflokknum eru líka þessar íhugulu hendingar sem sitja í manni:„Af því að ekkert gerist um leið og það gerist, er lífið samsett úr andartökum sem við missum af“ (50)
Staðir eru Steinunni hugleiknir í skáldskap, og hér má finna staði fyrirheita, óskastaði, nafnlausa staði og eyðistaði. Kaflinn „Staðbundin ljóð“ sýnir kunnuglega hjartastaði sem eru myndrænir og eiga sér sögu, eins og Vatnsmýrin, Akureyri og Mokka. Í samnefndu ljóði er Ísjakaskipstjóri við Labrador að pæla í þessum fallegu ljóðlínum: „Enn er hjartað bundið í hafi, eyðimörkinni bundið, náttstað og eldi, sandrifi meðfram stjörnum“ (31). Sigfús hefði verið ánægður með þetta.
Dauðinn fer í Sundhöllina
Í þeim hluta sem kallast „Hinstu rök“ stígur dauðinn fram sem elskhugi, prakkari, flagari og fyllibytta. Þetta er hefðbundin myndhverfing sem á sér djúpar og alþjóðlegar rætur í bókmenntasögunni. Mynd Steinunnar af kauða er máluð íslenskum sauðalitum, hann fer í Sundhöllina með rakdótið og svo í Alþýðuhúsið með pela í buxnastrengnum. Þótt við reynum að forðast hann, verður hann á vegi okkar um síðir og býður upp í hinsta dans. Þetta hljómar eins og gömul tugga, en það er eitthvað við þetta.„Dánir vinir“ er ísmeygilega kaldhæðinn ljóðaflokkur eins og sést af eftirfarandi broti sem er mjög Steinunnarlegt: „Dánir vinir vita ekkert í sinn haus, ekki um eftirleikinn, og það er eitt af því sem er svo þreytandi við þá“ (58).
Síðasti hlutinn er svo „Öldutrall“, gullfalleg ljóð þar sem hverflyndar öldur tralla og fjarræn golan sönglar um sorg og söknuð. Ljóð Steinunnar Sigurðardóttur eru útpæld, full af einhverju fallegu og ljúfu, bæði lífsreynslu og lífsgleði. Sígild þemu eins og ástin, dauðinn og tíminn sem gætu virkað þreytt og máð, verða alltaf eins og ný í hennar meðförum. Ljóðin eru hlý, gefandi, heimspekileg og mannbætandi. Hún hefur frábært vald á tungumálinu, gjörþekkir mátt orðsins, kraft þess og kynngi. Þótt kímnin sé að vanda með í för liggur sorgin líka „í loftinu allar götur“ – og tengist við æskustaði, Blágresisbrekku og Hrauntjarnir (66).
Af ljóði ertu komin, (athugið að í titlinum er talað til kvenkynsins) er sérlega heilsteypt ljóðabók, hér er ekkert grunnsævi eða gutl, það er lagt á djúpið. Eini gallinn er kannski sá að hún er of stutt, hvert orð og hvert ljóð svo vandlega valið – við viljum alltaf meira.
Ritdómurinn birtist fyrst á vef rúv, 6. jan. 2017