SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir26. mars 2019

„HVAÐA SIRKUS ER ÞETTA MANNLÍF, ÞETTA KVENLÍF, ÞETTA KYNLÍF…“ Gæðakonur

Steinunn Sigurðardóttir. Gæðakonur. Reykjavík: Bjartur 2014, 229 bls.

Steinunn Sigurðardóttir er einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar og hefur skrifað fjölmargt á 50 ára ferli sínum. Ástin er áberandi þema í verkum hennar, óendurgoldin, hættuleg og harmþrungin. Steinunn fjallar einnig um dauðann og það mark sem hann setur á tilveru okkar; tíminn er henni hugleikið yrkisefni sem frægt er orðið, ásamt fegurð náttúrunnar og stöðu kynjanna. Galsi og snilldarlegt tungutak, ferskt myndmál og ljóðræna einkenna jafnan verk Steinunnar og írónía er hennar aðalsmerki.

Róttækar hugmyndir

Pælingar Steinunnar um ástina og (ó)hamingjuna eru oft spaugilegar enda er manneskjan „ólukkudýr og getur ekki annað gert en bera sína ólukku með reisn“ (14) eins og segir í bók hennar, Gæðakonum (2014). Bókin sú á alltaf erindi í umræðuna, m.a. vegna róttækra hugmynda sem þar birtast um kvenfrelsi og kynferði og um verndun íslenskrar náttúru gegn umhverfisspjöllum og rányrkju. Þar er hörð gagnrýni á íslenska þjóð, fjölmiðla og stjórnarfar, gagnrýni sem leitar skýringa í sögulegum forsendum. Sjaldan hefur Steinunn verið svo ómyrk í máli:

 

„Íslandssagan er hryllingssaga, ekki bara af náttúruhamförum, heldur líka af kúgun, innlendri og útlendri, vesaldómi fólksins. Við fórum fyrst að rétta úr kútnum upp úr seinna stríði – það var stríðsgróðinn sem gerði okkur eina af ríkustu þjóðum heims. Við höfum gleymt því hvernig áður var, þótt það sé svona stutt síðan. Landar mínir horfast ekki í augu við ömurlega fortíðina. Þeir láta eins og þeir séu hver önnur þjóð sem hefur verið í borgaralegu samfélagi í mörghundruð ár. Þeir láta eins og allt sé best á Íslandi og hafi alltaf verið það. Þess vegna erum við veik þjóð“ (163).

 

Vísindakona í vanda

Aðalpersónan í Gæðakonum, María Hólm Magnadóttir, er eldfjallafræðingur sem er kennd við landið, hólmann, og elskar það af öllu hjarta. Hún er á miðjum aldri, þreytuleg og sliguð af eftirsjá og vinnuálagi, en eftir að hafa lifað af tvö hundruð metra fall á Vatnajökli fær hún nýtt tækifæri, öðlast annað líf. Í formála sögunnar er hún lítil pabbastelpa á Brunasandi sem missti föður sinn og undirliggjandi er djúpur söknuður eftir honum. Hún er nægjusamur nautnabelgur og sér spaugilegar hliðar á lífinu þótt hún sé spéhrædd. Hún er venjuleg kona og vísindamaður á heimsmælikvarða en kvenleg hógværð er að drepa hana. Hún ein veit að eldgos er yfirvofandi en þykist vita að henni verði ekki trúað og nennir ekki að láta þagga niður í sér. Hún glímir við margs konar vanda í einkalífinu, bæði fornar og nýjar ástir skjóta upp kolli í sögunni og hún þarf að taka á málum og að auki hvílir á herðum hennar ábyrgð á eldgosavörnum, heimsfriði og kvennabyltingu.

En hvað er að vera gæðakona? Fræg er „gæðakonan góða“ úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar, sú sem rjúpan flúði til undan fálkanum en konan sneri óðara úr hálsliðnum og setti pott á hlóðir enda hagsýn húsmóðir. Gæðakona nútímans er þokkafull og „gentil“, hún kemur fram við fólk af virðingu, kann að njóta lífsins og sjá fegurðina í því smáa eins og öldugjálfri, kaffibrúsa og hálfum lambahrygg, hún leitar ástarinnar og reynir að skilgreina líf sitt, frá Miklahvelli að Stórasnökti (157). Ragna vinkona, ráðagóð og einhleyp með allt á hreinu sem vinnur á Hagstofunni er sannarlega gæðakona og það er María líka þar sem hún þeysist í rússíbana ástarinnar og kemst að því fullkeyptu.

 

Nóg komið af karlveldi?

En undarlegasta persóna sem sést hefur lengi í íslenskum bókmenntum er engin gæðakona, eða hvað? Gemma er „konan í vélinni“ og karlpúngur í senn, absúrd, ægifögur og ýkt glæsidonna, „fyrirbæri og höfuðskepna“ (220) sem er efni í flóknar freudískar og femínískar rannsóknir um blygðun, kynferði, kynskipti og geldingu. Hún boðar nýtt þjóðskiplag sem er kvennaríki samkvæmt reiknilíkani, þar sem kynbundnum hlutverkum er snúið á öfgafullan hátt. Hún lýsir heiminum þar sem karlar hafa völdin á þessa leið:

 

Karlmenn eru eyðileggjendur. Nauðga konum og börnum, láta myrða milljónir manna í gasklefum og gúlögum. Þeir gjöreyða náttúrunni, regnskógum jafnt sem íslensku hálendi, þeir baneitra heiminn og stútfylla lönd og höf af rusli, geislavirku ef ekki vill betur. Þeir láta eins og við hefðum marga hnetti til umráða sem við gætum flutt á þegar við erum búin að eyðileggja jörðina okkar endanlega. Og sá tími er að koma. (57)

 

Konur hafa alltof lengi verið „undnar tuskur, barðar, svívirtar og smáðar“ segir Gemma. Hugmyndir hennar ganga út á að ryðja karlmönnum úr vegi og hún hefur vægast sagt barnalegar hugmyndir um samkynhneigð. En við heimsyfirráð kvenna er meiningin að nota gamalreyndar aðferðir karla eins og ógnarstjórn, ofbeldi, njósnir og mútur, og þessi hugmyndafræði hugnast Maríu ekki. Hún forðast Gemmu sem heldur samt áfram að leita á hana og íþyngja henni. Sagan bæði hefst og endar um borð í flugvél þar sem Gemma fer með boðskap sinn yfir Maríu og það er ekki auðvelt að átta sig á því hvort hún stendur fyrir dólgafemínisma, hryðjuverk eða er rödd sannleikans. En mennsk er hún ekki enda stórlega ýkt, hún birtist alltaf óvænt þegar María á sér einskis ills von, stundum er hún með digran karlaróm, stundum rennur hún saman við landið en alltaf er hún til bölvunar því hún raskar lífi Maríu sem fram að því undi sæmilega sátt við sitt.

 

Rislitlir karlar

Karlar koma lítillega við sögu í Gæðakonum og ekki er mikil reisn yfir þeim. Diddi, fyrrverandi eiginmaður Maríu, stendur í skugga og birtist aðeins í skondinni upprifjun hennar. Sú karlpersónan sem mest kveður að er Bárður Stephensen, uppvakningur úr skáldsögu Steinunnar frá 2002, Hundrað dyr í golunni. Hann er samstarfsmaður Maríu, býr við ástleysi í hjónabandi sínu en er besta skinn. Hann er bjargvættur, Bangsi, Vatni og Bárðarbungan sjálf, staðfestan í lífi Maríu þótt hann sé sjálfur við það að drekka sig í hel. Honum verður að orði þegar María trúir honum fyrir kynuslanum í lífi sínu: „Ég skil ekki þennan nútíma, eru allir orðnir vitlausir? Snaröfugir?“ (201). Hann hefur mikla trú á hæfieikum Maríu sem eldfjallafræðings en hún er kaldhömruð og bregst við hrósi og hvatningu hans með hálfgerðum skætingi um það sem jafnan háir kvenfólki á vinnumarkaði: „Og hvað stoðar það kvenmann að vera meintur snillingur ef hann verður svo óléttur þegar síst skyldi?“ (203). Hinn heittelskaði Anton er kannski líka uppvakningur úr bók, hann er allavega tímaþjófur því María hefur eytt tuttugu árum í að elska hann sem reynist svo vera eigingjörn rola.

 

Erótísk saga

Gæðakonur er erótísk saga þar sem María kemur sjálfri sér á óvart með fjölskrúðugu samlífi með bæði körlum og konum. Ástarleikur hennar og Gemmu er verkfræðilegur unaður, engin smithætta eða getnaðarvarnaverkfræði, engir subbusmokkar, blæðilykkjur eða krabbapillur! (79) Samfarir Maríu og Bárðar eru eins og eftir nótum, í þeim er huggun eftir áralangar hremmingar, áföll og einmanaleika. Kynlíf hennar með lesbíunni Mörtu er ágengt af Maríu hálfu, hún „tekur hana á staðnum álíka formálalaust og ótíndir karlar eiga til“ (116). Og kynlíf Maríu og Antons við endurfundina er kunnuglegt og æft og ekki farið út í nein smáatriði. Lýsingarnar eru ljóðrænar og fallegar, kvenlegar og blíðar, hvorki berorðar né klúrar.

Stíll í Gæðakonum einkennist af myndvísi, launfyndni og hrynjandi sem birtist t.d. með stuðlasetningu. Orðaforðinn er fjölbreyttur og leikið með tungumálið af mikilli list. Hraunmoli í úlpuvasa verður t.d. ásteytingarsteinn því fyrrverandi eiginmaður þoldi ekki grjótið sem María var sífellt að tína upp og geyma (34) og svarta hárið á Gemmu heitir ótal nöfnum, eins og strangi, tagl, hali, makki og minnir mest á „ham af ferlegum fugli“. Allir kannast við fyrirbærið „ólæknandi Akureyringur“ og fallegt og lýsandi er nýyrðið „rjómakaffiglöð“. Þá er margs konar lífsspeki í verkinu sem á erindi við alla, um íslenska náttúru, þjóðarsáiina og ekki síst ástina: „En er ekki aðalatriðið að gera ástirnar í meinunum óskaðlegar, að lifa við þær eins og gamalt ævintýri, sem var fagurt og sem var grimmt, eins og ævintýrið er – og raunveruleikinn getur bara átt sig“ (226).

 

Óræð sögulok

Gæðakonur er kvennasaga, saga eftir konu um konur, konuástir og kvenleika; mannlíf, kvenlíf og kynlíf. Ekki fjalla margar íslenskar skáldsögur um miðaldra konu í millistétt sem verður ólétt og á um tíma í lesbísku sambandi eða um kynskipting með tryllingslegar hugmyndir um framtíðina sem ásækir ráðsettar konur. Það getur verið erfitt að ná taki á yfirdrifnum boðskap sögunnar, stefnan er býsna reikul og hugmyndir flæða fram og renna jafnvel framhjá lesandanum í fyrstu umferð en þetta er bók sem batnar við hvern lestur.

Í verkum Steinunnar eru söguhetjurnar oft menntaðar og sjálfstæðar heimskonur á besta aldri sem kunna að njóta lífsins með fínt rauðvín og franskan ost en ástamálin ganga ekki sem skyldi. Það er stundum erfitt að finna til samlíðunar með þeim því háskinn virkar léttvægur og María Hólm á marga að og þarf ekkert að kvíða framtíðinni þótt líf hennar taki stakkaskiptum. En hver er sosum dómbær á annarra ógæfu? Sögulokin eru óræð og skilja lesandann eftir í tómarúmi, svo virðist sem ráðabrugg Gemmu sé að skila árangri en það er spurning hvort María er á leið í örugga hjónabandshöfn eða hvort flugvélin hrapar með hana og Gemmu innanborðs. Og farast þar með fyrirætlanir um framtíðarríkið? Eða mun lítil pabbastelpa aftur horfa á jökulinn út um eldhúsgluggann á Brunasandi?

 

Ritdómurinn birtist fyrst í Kvennablaðinu, 9. september 2015