SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. mars 2019

ÁSTIN, DAUÐINN, SANNLEIKURINN. Frá ljósi til ljóss

Vigdís Grímsdóttir. Frá ljósi til ljóss. Reykjavík: JPV 2001

Ástin í ýmsum myndum hefur löngum verið Vigdísi Grímsdóttur hugleikið yrkisefni. Sögupersónur hennar elska af ástríðu og án skilyrða en þær þekkja líka skuggahliðar ástarinnar; fórnir og tortímandi sálarkvalir. Í skáldsögu Vigdísar, Frá ljósi til ljóss sem út kom 2001, segir frá Rósu, barni kærleikans og ástarinnar og föður hennar, Lenna sem elskar mjúk og loðin dýr. Saman takast þau á við líf án Magdalenu.

 

Máttur orðanna

Á yfirborðinu fjallar sagan um farsælt samband feðginanna, uppvöxt og þroska Rósu í sorg og gleði, þráhyggjukennda leit Lenna að ástinni og traust tengsl þeirra við vinafólk sem taka óvænta stefnu. Í sögunni er sjónum beint að brennandi spurningum um ástina, sektina, lygina og mátt orðanna út yfir gröf og dauða. Rósa er tilfinningalega bækluð því hún verður að lifa með því að móðir hennar hafi fórnað lífi sínu fyrir hana. Í sorginni verður hún að vera sterk og gera gott úr öllu: „Þegar ég rifja upp það sem liðið er þá er eðlilegt að ég gráti stundum. En ég græt ekki af söknuði. Ég græt vegna þess að ég er svo rík að minningum. Sem þýðir að ég græt af gleði“ (87). En móðurmissirinn hvílir á henni eins og farg.

 

Grimmdarlegt loforð

Uppvöxtur Rósu og samskipti hennar við annað fólk einkennast af þrúgandi sorg, sektarkennd og endalausu umburðarlyndi hennar. Oft þarf hún að þegja, skilja, fyrirgefa og réttlæta gerðir hinna fullorðnu fyrir sjálfri sér og öðrum. Hún lætur margt ósagt því hún vill ekki eyðileggja neitt (sbr. 93). Hún upphefur föður sinn og afneitar neikvæðum hugsunum um hann en Lenni yfirgaf hana til að standa við grimmdarlegt loforð sem hann gaf Magdalenu á dánarbeði. Í ástarsambandi Rósu við unglingspiltinn Bláan kemur tilfinningaleg flatneskja hennar eða vanþroski fram; einhver undarleg fjarlægð er milli þeirra þrátt fyrir djúpan samruna og „ljúfa svífandi músík í líkamanum“ (111).

 

Að gera hið rétta

Sagan virðist einföld og auðlæsileg við fyrstu sýn, textinn ljúfur og sakleysislegur eins og Rósa sjálf, en undiraldan er þung. Dauði Magdalenu er fleiri persónum en Rósu þung byrði og engin þeirra virðist hafa unnið almennilega úr sorginni. Magdalena er hafin upp á stall; hún er gyðja ástar og fórna; og aðrar persónur standa í skugga hennar allt sitt líf. Fáránlega leit Lenna að Rósu Cordovu má túlka sem ýkt sorgarviðbrögð eða örvæntingarfulla tilraun til að losna undan oki Magdalenu. Fórn hans er ekki síður þung á metunum; að fara frá dóttur sinni og hafa nánast ekkert samband við hana í tíu ár; þegja yfir mikilvægu leyndarmáli og bíða þolinmóður eftir stund sannleikans. Þessu hafði hann lofað og hélt að hann væri að gera hið rétta.

 

Skáletraður hugarheimur

Bókin er sú fyrsta í þríleik um þetta efni svo kurl eru ekki öll komin til grafar. Lok sögunnar koma á óvart þótt vís-bendingunum, fyrirboðum og táknum sé hlaðið upp í sögunni. Spil, táknlestur og taflmenn eru áhrifavaldar í lífi Rósu, hún leitar t.d. á náðir tarotspilanna þegar þarf að taka mikilvægar ákvarðanir og mynd á póstkorti kveikir sögu sem verður í huga hennar að afsökun fyrir afskiptaleysi Lenna. Þótt Rósa sé umvafin ást og hlýju fósturforeldranna, vinkonunnar og kærastans stendur hún ein uppi. Hún flýr veruleikann, lifir í sínum eigin skáletraða hugarheimi og gefur fólki t.d. önnur nöfn – eins og til að kasta eign sinni á það; komast nær því eða kannski fjær? Fleiri persónur úr bókum Vigdísar eiga í erfiðleikum með mannleg samskipti, t.d. Ísbjörg, Fríða á Grandaveginum og Linda í Þögninni; þær eru allar einangraðar en hafa tengsl við aðra heima. Rósa gengur í lið með þeim og í einstæðingsskap sínum eru þær sterkar og sjálfstæðar en líf þeirra er byggt á sandi.

 

Kvenleg reynsla

Mörgum sögum fer fram bæði úr fortíð og nútíð og allar eru þær sagðar frá sjónarhóli Rósu. Bráðskemmtileg er frásögnin af óendanlegri þrautseigju Lenna í Santa Fe og kynnum hans af Lárusi og skiltagerðarfólkinu. Harmsaga Rósu Cordovu og dóttur hennar, gæði Celinu, val Helenu og ævi Friedu Kahloo; allt eru þetta þræðir sem fléttast listilega saman. Sagan snýst mjög um konur og kvenlega reynslu; móðirin, meyjan og hóran eiga sína fulltrúa; og brugðið er upp snöggri en fallegri mynd af t.d. afmeyjun og sjálfsfróun. Konur heita táknrænum nöfnum biblíukvenna og blóma: t.d. Eva, Magdalena og Rósa, María eldri og María yngri, Rósa Cordova og Flora. Kvenmynd eilífðarinnar er þó langt í frá þungamiðja sögunnar.

 

Litir og blóm

Sjónarhornið er bæði flókið og óvenjulegt. Í gegnum hugarheim Rósu þar sem allt er heilt og kærleiksríkt skynjar lesandinn lygi, afneitun og sársauka. „Rósa var auðvitað alls ekki að hugsa um þetta en einhverra hluta vegna fann hún allt í einu hvernig allt varð litríkt í höfðinu á henni. Ekki að þar spryttu blóm, en eitthvað var það sem spratt. Eitthvað sem hreyfðist einsog í vindi, kom á óvart, gladdi hana en gerði hana líka dapra. Samt gat hún ekki talað um það enda var hún að horfa á hendur Lenna. Á meðan hann talaði horfði hún á hendur hans og ímyndaði sér að það væru þær sem smíðuðu henni þennan sannleik sem hún heyrði, smíðuðu henni þessi orð sem munnur hans sagði“ (27). Hvenær hugarheimur Rósu hrynur er áleitin spurning, ekki síst í ljósi afhjúpunarinnar í sögulok. Er hægt að lifa með þeim hræðilega sannleika sem henni opinberast? Er ljós sannleikans ljós lífsins?

Frá ljósi til ljóss er töfrandi saga, í senn heillandi og andstyggileg. Yfirborð orðanna og hyldýpi merkingarinnar takast á og togstreitan vekur áleitnar efasemdir um ástina, dauðann og sannleikann.

Ritdómurinn birtist áður í Morgunblaðinu 21. nóvember 2001