MÆÐUR OG DÆTUR. Karlsvagninn
Kristín Marja Baldursdóttir. Karlsvagninn. Reykjavík: Mál og menning 2009, 176 bls.
„Er Karlsvagninn bara fyrir karla?“ spurði litla stelpan Gunnur ömmu sína eitt sinn. Við upphaf Karlsvagnsins, áttundu skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur, dvelur Gunnur sem er miðaldra geðlæknir í sumarbústað sínum eina helgi með Hind, unglingsgelgju sem er henni annars algerlega óviðkomandi. Af þeirri skyldurækni og kurteisi sem kynslóð Gunnar var innrætt (og til að fylla upp í sjónvarpsleysið) reynir hún að halda uppi samræðum við stelpuna og fer þá að rifja upp eigin bernsku og uppeldi.
Gunnur leiðir Hindina með sér í hugarferðalag inn á æskuheimilið, hús ekkjunnar með hvítum dúkum og silfri (136), þær gægjast inn í fínar stofur og snyrtileg herbergi, sjá Gunni litlu engjast af þrá eftir ást móður sinnar og viðurkenningu, móðirin alltaf að vinna, skaffa, halda fjölskyldunni saman og kenna dætrum sínum mannasiði og ósérhlífni. Þær sjá Gunni á unglingsaldri brjótast undan valdi móður sinnar og byrja nýtt líf, mörkuð af uppeldi og arfi kynslóðanna.
Upprifjunin kemur róti á tilfinningar beggja, ólíkt hafast þær að meðan þær alast upp og málfar þeirra undirstrikar kynslóðabilið, Hindin slettir „gekt, sorrí“, en Gunnur leiðréttir og segir skipulega frá. Geðlæknirinn og gelgjan ná slitróttu sambandi, gríman fellur af Hindinni, Gunnur opnar sig og gefur henni minningarnar sínar. Lokasenan er skemmtileg og táknræn en svo er skyndilega allt búið. Ég hefði viljað fá að vita meira, sem þýðir að sagan endar á hárréttum stað.
Í bókinni birtast sterkar skoðanir á barnauppeldi okkar Íslendinga. Fyrir nokkrum áratugum þótti best að börnum væri hampað sem minnst, þau áttu að þegja og hlýða. Vinnulúnir foreldrarnir keyptu sér frið til að geta unnið enn meira með því að senda börnin í sveit, til vandalausra og ókunnugra og svo áttu þau að bjarga sér sjálf þess á milli. Dugnaður var æðsta dyggðin, vinnan göfgaði manninn.
Vanrækslan hefur lítið breyst í gegnum árin, Hindin er mest ein heima, að borða „teikavei“, sítengd við netið, gemsann og sjónvarpið. Mamman er að vinna, pabbinn víðs fjarri. Margir hafa sinn djöful að draga eftir misjafnlega gott uppeldi og atlæti í bernsku og eru jafnvel mörg ár að tjasla saman sjálfsmyndinni. Í Karlsvagninum er bernska fortíðarinnar sem svo oft hefur verið lofuð í bókmenntunum svipt nostalgískum ljóma sínum, þetta er saga mæðra og dætra sem komast af - þrátt fyrir uppeldið.
Ritdómurinn birtist áður í Morgunblaðinu 16. nóvember 2009