SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn20. febrúar 2019

AÐ SLÍTA STRENGINA-LÍFIÐ BÍÐUR! Stjórnlaus lukka

Auður Jónsdóttir. Stjórnlaus lukka. Reykjavík: Mál og menning 2017

Ritdómur eftir Sigríði Albertsdóttur:

Unglingur, manneskja á mörkum þess að vera barn og fullorðinn, fær ekki alltaf að taka þátt í veruleika þeirra fullorðnu af því að hún er „barn" en er neydd inn í hlutskipti þess „fullorðna" þegar þeim sem næst honum standa þóknast. Þetta ferli þurfa allflestir unglingar að ganga í gegnum og þessu ferli lýsir Auður Jónsdóttir einmitt af þroska, næmi og kímni í sinni fyrstu skáldsögu Stjórnlaus lukka.

Sögumaðurinn Didda, átján ára stúlka, flytur 6 ára gömul með Ástu móður sinni vestur á firði, þar sem Ásta gerist ráðskona í sveit rétt utan við smábæ á fjörðunum. Þar eldar hún ofan í Hvata, þögulan, fyrrverandi alka og Þormar, sínöldrandi son hans. Gestirnir sem sækja bæinn heim eru vægast sagt skrautlegt lið: Þórður, upp þurrkaður alki og sparisjóðsstjóri á staðnum, Gudda, drykkfelld eldri kona sem bjó lengi í Ameríku, Valdi, trúbadúrinn á staðnum og Dísa, dóttir bóndans, fyrrverandi ástkona Þórðar og listakona að sunnan.

Ásta hefur brotlent á skerjum hugsjóna sinna, er fyrrverandi blómabarn sem reykti hass, hlustaði á Janis Joplin og aðhylltist frjálsar ástir. Fer samt full af ástarharmi vestur á firði, grefur svo Kvennaklósettið upp úr tösku sinni í miðjum Hvalfirði „og fletti bókinni næstu sex klukkustundirnar milli þess sem hún hnussaði samþykkjandi: Ja-há, ja-há!" (8). Og þannig er Ásta: Full af andstæðum sem hvorki hún né aðrir botna nokkurn skapaðan hlut í.

Þessi kona sem hafði alla burði til að „verða eitthvað", bæði vel menntuð og greind, skilur öll tækifæri eftir öðrum til handa og grefur sig niður á bóndabænum þar sem hún bruggar vín af mikilli elju og drekkur það af svipuðum krafti í kompaníi við Guddu sem lifir á minningum um „forna" frægð í Ameríku. Og í stað Joplin hlustar hún nú á skallapopparann Eric Clapton.

Um þær stöllur segir Didda: „Þær baktala báðar karlmenn daginn út og inn. Þær eru báðar sískotnar í einhverjum karlmanni. Þær tóku báðar afdrifaríka ákvörðun þegar þær lögðu framtíðina undir og veðjuðu áástina." (14)

Það er sum sé ástin og vonin um að elska og vera elskaður sem stjórnar lífi þessara kvenna, ekki hugsjónir eða trú á eigin getu og hæfileika. Þessi síendurtekna hringrás, endurtekin drykkja kvöld eftir kvöld, endurtekinn dans á eldhúsgólfinu sem oft endar með gráti eða rifrildi, endurtekin orð um liðna tíð býður einungis upp á stöðnun, einsemd og sjálfspyntingu.

Þannig eru Ásta og Gudda fórnarlömb aðstæðna sem þær trúa ekki að þær geti breytt og um leið verða þær harmrænar persónur. En þær eru ekki einsleitar, síður en svo. I breyskleika sínum er Ásta einmitt margslungin persóna og ótrúlega sjarmerandi, kannski mest spennandi persóna bókarinnar.

Hún lifði þá tíma þegar fólk trúði af einlægni að taumlausar ástir, smá skammtur af samheldni og annar af stjórnleysi leysti lífsgátuna en uppgötvar síðan á sjálfri sér að þegar að ástinni kemur ræður íhaldssemin yfirleitt ríkjum! Krafturinn sem bjó í 68-kynslóðinni leystist upp í vímu hjá sumum, skuldbindingum hjá öðrum en sumir vildu vera ábyrgðarlausir áfram og „kannski er hún mamma mín svolítið svoleiðis" segir Didda (7).

Ástu hefur ekki tekist að vinna úr fortíð sinni og gerir engar áætlanir um framtíðina. Hún lifir bara í magnleysinu sem fylgir vímunni en þó er ekki þar með sagt að hún sé eitthvert dauðyfli. Nei, hún hefur munninn fyrir neðan nefið og lætur engan eiga neitt inni hjá sér, er tannhvöss, meinhæðin og oft ótrúlega fyndin.

Tilfinningar Diddu til sinnar breysku móður eru blendnar. Hún elskar „mjúku" konuna í fallegu bómullarkjólunum sem allar aðrar konur þorpsins horfa á öfundaraugum. Hún elskar ljúfu augnablikin sem þær eiga saman, þegar mamma er hlý, bjartsýn og hlæjandi. En hún hatar fylleríin, rifrildin og grátinn og hún er ósátt við að vera „ljót" en ekki falleg eins og mamma. „Skiljanlega harma ég það að vera eftirmynd pabba míns." segir Didda. „Það svíður að hafa erft þunnt hár, hlussufreknur og kartöflunef frá bláókunnugum anni sem kemur mér ekki bofs við. Fyrst hann kærir sig ekki um mig er engan veginn réttlátt að ég sé lík honum í útliti." (20)

En ástin til móðurinnar yfirgnæfir þó yfirleitt reiðina og þær eru kannski háðari hvor annarri en gengur og gerist um mæðgur. Ekki aðeins vegna þess að Ásta á Diddu „ein", þar liggja flóknari hlutir að baki. Didda er flogaveik og fær hastarleg og mjög alvarleg köst af og til og þess vegna finnst henni hún ekki geta yfirgefið staðinn, farið suður, lært og „orðið eitthvað". Hún er háð umhyggjunni og örygginu sem býr í móðurfaðminum.

Og móðirin er einnig háð Diddu, háð því að hún hlúi að henni í timburmönnunum, færi henni te og fyrirgefi henni illindi og deilur. Inn í þetta hlutverk gengur Didda þegjandi og hljóðalaust, er hinn fullkomni kóari sem sérhver alkóhólisti þarfnast. Það þýðir ekki að gera uppreisn því þá hlýtur hún að launum kinnhest eða grátkast svo á endanum er það hún sem situr uppi með sektarkenndina en ekki mamman. En það sem fyrst og síðast tengir þær saman er ástin, sú eina ást sem aldrei fer eða bregst þó móti blási.

Karlmennirnir, þeir hins vegar koma og fara eins og mæðgurnar fá báðar að upplifa. En þó ástin milli karls og konu sé aldrei gulltryggð er hún hins vegar óumflýjanleg, öllum nauðsynleg og oft dásamleg og gefandi á meðan hún varir. Ástin virkir líka oft vonina og kjarkinn sem á vantar og það gerist einmitt í tilfelli Diddu.

Í frystihúsinu þar sem hún vinnur kynnist hún tékkneskum strák, Radek að nafni, sem gefur henni ekki aðeins hýrt auga heldur undurfagra strengjabrúðu að gjöf, brúðu sem hann hefur sjálfur lagað. Það að einhver skuli vilja hana og girnast fyllir hana lífi og trú en eftir misheppnuð nánari kynni glatar hún trúnni á ný. En aðeins um stundarsakir því grimmileg örlög grípa í taumana og neyða mæðgurnar til að endurskoða og endurmeta líf sitt og í sögulok eru róttæk umskipti í sjónmáli.

Strengjabrúðan hans Radeks verður Diddu tákn um það líf sem þær mæðgur lifa. „Ekki vera eins og strengjabrúðan sem strákurinn gaf þér" segir Dísa við hana einn daginn „- ekki dansa eftir höfði annarra. Hver sem er getur togað í streng og þú bregst mótþróalaust við. Meira að segja gaurinn sem gaf þér hana togaði í einn, skilurðu! Svo situr þú sár eftir og ræður ekki bofs við þínar eigin tilfinningar. Klipptu á þessa strengi og taktu við stjórninni!"(80).

Í lok sögunnar hefur Didda áttað sig á að þetta er að hluta til rétt hjá Dísu: „Ég er strengjabrúða. Það er nóg fyrir mig að horfa á mömmu til að vita að líkingin er rétt" segir hún (154). En hún vill samt sem áður hafa strengi, ekki bara hlaupa í burtu eins og Dísa hefur alltaf gert. Það sem gildir er að hafa stjórn á strengjunum - leyfa öðrum að toga en bara hæfilega mikið eða hæfilega lítið!

Í tengslum við þetta má segja að Didda hafi þroskast, að Stjórnlaus lukka sé að hluta til þroskasaga ungrar konu. Og hugleiðingar Diddu um strengina vísa til titils bókarinnar og snúa honum við: Núna ætlar Didda að stjórna sínu láni og lífi sjálf. Fram til þessa hefur flogaveikin og aðrir stjórnað hennar lífi. Hún hefur bara horft á hlutina gerast eins og áhorfandi úr fjarska og aldrei staðið á eigin fótum ekkert frekar en mamman sem hefur bara látið reka á reiðanum.

Vonin ræður ríkjum í lokin, vonin um að uppreisn Ástu á sínum tíma hafi í rauninni ýmsu breytt og muni skila sér í sterkari Diddum framtíðarinnar. Og vonina finnur Didda að hluta til í bókmenntunum, í frásögninni af stelpunni Evu Lunu sem er bara venjuleg stelpa eins og Didda en fer samt um og skoðar lífið og tilveruna: „ ... stelpan í sögunni, Eva Luna, hún veitti mér kjark. Hún hvíslaði að mér að ég ætti margar sögur eftir. Að ég yrði ekki alltaf hérna, ég kæmist í burtu. Að það gerðist alltaf eitthvað sem opnaði fleiri dyr. Hvað svo sem það væri!" (133). Dyr Diddu opnast, að vísu á harkalegan hátt en þannig er það oftast í lífinu.

Frásagnarháttur Auðar Jónsdóttur er raunsær. Hún dregur upp rammíslenska mynd af litlu sjávarþorpi þar sem hver einstaklingur hefur sitt gildi, þrátt fyrir bresti og breyskleika. Hún dregur upp sannfærandi mynd af lífi þar sem allir standa saman í súru og sætu og særindi og illdeilur víkja um leið og eitthvað bjátar á. Hún kryddar frásögn sína með tragikómískum sögum af kynlegum kvistum þorpsins og þær sögur gæða bókina lífi og dýpt. Þó hörmungarnar sem dynja yfir þorpið og endalok bókar séu nokkuð fyrirsjáanleg er Stjórnlaus lukka sérstaklega vel heppnað byrjandaverk.

Stíllinn er hnökralaus og eitt helsta aðalsmerki sögunnar eru vel gerðar mannlýsingar. Hver einasta persóna sögunnar hefur sinn stíl og sinn sjarma sem gerir þær ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans. Þær eru yndislega brokkgengar og óútreiknanlegar, sjaldan eins frá degi til dags nema Hvati sem er bara einfaldlega dofinn eftir of marga árekstra lífsins. Þannig er hann einmitt sannfærandi persóna, er lifandi dauður og sér engan tilgang í að taka æðisköst lengur enda þjóna þau engum tilgangi ef þau hafa hvort eð er engar breytingar í för með sér! En það að taka æðisköst sýnir kannski einmitt að maður er lifandi og langar að breyta lífi sínu líkt og Ásta innst inni þráir. Og það gerir hún sannarlega á endanum!

Gudda er kapítuli út af fyrir sig og snertir viðkvæma strengi í brjósti lesanda. Konan sem giftist amerískum dáta sem hún harmar enn þá áratugum síðar, pikkföst í nostalgíu og söknuði eftir horfinni fegurð. Eina fegurðin sem hún sér er fegurðin í botni flöskunnar og það er að sjálfsögðu fölsk fegurð. Sjálf er hún fögur í skörpum og skemmtilegum persónuleika og því harmar lesandinn örlög hennar.

Það er ekki oft sem maður sér ungan rithöfund taka svona vel á persónum og umhverfi í sinni fyrstu bók og það verður spennandi að fylgjast með vonandi löngum og farsælum höfundarferli Auðar Jónsdóttur. Og hver veit nema saga Diddu muni opna einhverri „venjulegri" stelpu nýjar dyr rétt eins og Eva Luna opnaði Diddu hennar!

 

Ritdómurinn birtist áður í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 1999