ÉG VILDI AÐ ÉG GÆTI. Tímaspor
Védís Leifsdóttir. Tímaspor. Safn ljóða. Reykjavík: Minningarsjóður VL 1993, 77 bls.
Ritdómur eftir Sigríði Albertsdóttur:
Þann 29. janúar 1993 lést ung kona, Védís Leifsdóttir, af völdum alnæmis. Stuttu fyrir andlát hennar kviknaði sú hugmynd að taka saman úrval úr ljóðum hennar (frá 1982-1992) m.a. í þeirri von að útgáfan yrði til þess að hvetja fólk til opinskárri umræðu um þennan skæða sjúkdóm. Bókin heitir Tímaspor og vekur mann vissulega til umhugsunar. Ef ekki um það mein sem dró höfundinn til dauða þá um sársaukann og þá kvöl sem fylgir því að lifa of hratt og e.t.v. allt of stutt. Hér er sögð saga af stúlku sem leitar að sjálfri sér á öllum öðrum stöðum en í hinum gráa hversdagsleika því að í honum finnur hún ekki það sem hún þarfnast eða þráir:
ekki þetta litlausa hversdagslífekki þessa endurteknu dagaekki þennan tóma hausog dauðu tilfinningarog ekki þessa stirðu fingursem ég get ekki skrifað með (19)
En hún finnur ekki heldur fullnægju í því lífi sem hún lifir, þessum villta dansi, sukkinu, botnlausri óreiðunni og hún spyr sjálfa sig í forundran: „Hvers vegna hrífst ég af fólki/sem leiðist lífið/er hrætt við tilfinningar, sársauka?“ (53). „Ég er móðurleg við barnaskapinn“ segir hún í sama ljóði, gerir sér grein fyrir blekkingunni sem fylgir því líferni sem hún hefur valið sér en getur ekki hætt, nær ekki að stoppa. „Ég vildi að ég gæti breyst“ (31) segir hún og þessi ósk skín í gegnum mörg af ljóðum Védísar. Vandinn er bara sá að stúlkan veit ekki hvað hún vill verða eða hvað hana langar til að gera. Eirðarleysið teymir hana úr einni gildrunni í aðra, hún þráir frelsi en festist í fjötrum.
Í stað frelsis stefnir stúlkan að einangun og dauða og í hverju ljóðinu á fætur öðru má sjá skýrar innilokunar- og köfnunarmyndir þar sem hún líkir sjálfri sér við fanga eða rótlausa öldu sem brotnar „við kaldan fjörusteininn“ (12) Og annars staðar bölvar hún og fordæmir eigin tilvist: „Já, ég er illgresi/sem vex meðal saklausra rósa“, (16), blóðsuga eða lítill djöfull:
egóískur eiginhagsmunapúkitraðka á tilfinningum annarratil að láta mér líða betur (13)
Þessi ljóð afhjúpa hrædda og örvæntingarfulla konu sem leggur tilfinningar sínar á borð á svo einlægan og persónulegan hátt að það er ómögulegt annað en hrífast með þótt sá heimur sem hér er lýst sé allt annað en aðlaðandi. Hér er byggt á erfiðri lífsreynslu og útkoman er sterk og sannfærandi en þó ekki hnökralaus. Við lestur einstaka ljóða fær maður á tilfinninguna að fremur sé um uppkast að ræða en fullbúið ljóð eins og ljóðið um örlagabytturnar er t.a.m. til vitnis um; ljóð sem er ágætlega uppbyggt en missir flugið í lokin:
Við hefðum getað orðiðsögðu örlagabytturnarog tæmdu úr glösum sínumvið hefðum getað orðiðsögðu örlagabytturnarog drekktu sorgum sínumvið hefðum getað orðiðsögðu örlagabytturnarog skyggndust inn í draumavið hefðum getað orðiðsögðu örlagabytturnarog tæmdu úr flöskunni (52)
Og þegar stór og myrk orð eins og sársauki, vonleysi, grimmd, þjáning, einmanaleiki, sjálfsvorkunn og blekking eru samankomin í einu litlu ljóði um fólk sem leiðist lífið (53) er of mikið sagt. Vanlíðan fólksins drukknar í orðunum og útkoman verður flöt og fráhrindandi. Ljóðið á næstu síðu, sem gæti allt eins fjallað um sama fólkið, hittir hins vegar í mark:
Við dönsum og dönsuminnanum jakkaklætt kúltúrpakkiðskálandi í frumsýningarkampavíniókeypisvið dönsum og dönsuminnanum steingeld málverkinvotir kossar okkar fróa listinnivið dönsum og dönsuminnanum virðulega músíkantaog dætur bankastjóravið dönsum og dönsumokkur út af Listasafni Íslands
Hér fær lesandi beiskjuna, firringuna og leiðann beint í æð, eirðarleysið og ofsinn endurspeglast í hverju orði. Það eru ljóð í þessum anda sem halda bókinni uppi, kraftmikil en umfram allt einlæg ljóð sem vonandi munu lifa.
Ritdómurinn birtist fyrst í DV 27. apríl 1993