SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir28. desember 2018

AF ÝMSU EFNI - um Siffon og damask eftir Sigrúnu Ásu Sigmarsdóttur

Sigrún Ása Sigmarsdóttir. Siffon og damask. Reykjavík: Partus 2018, 27 bls.

Ljóðabókin Siffon og damask kom út á árinu og er fyrsta ljóðabók Sigrúnar Ásu Sigmarsdóttur. Haft er eftir skáldkonunni í The Reykjavík Grapewine að þegar hún var á þrítugsaldri taldi hún sig þurfa að yrkja „alvarleg“ ljóð til að verða viðurkennt skáld og geta borið slíkan titil. Sigrún þakkar Partus útgáfunni fyrir að veita henni þetta tækifæri og segist hún gjarna vilja heyra frá fleiri skáldum á hennar aldri en hún er 61 árs gömul. Sigrún segist hafa orðið vör við talsverðan áhuga kvenna á hennar reki sem telja sig vera orðnar of gamlar til að gefa út ljóð sín en vonandi reynist hennar framtak þeim hvatning til að uppfylla drauma sína.

Ljóðabókin Siffon og damask er númer 31 í flokki Meðgönguljóða. Hún er 27 blaðsíður að lengd og geymir 24 ljóð. Titill ljóðabókarinnar er afar lýsandi fyrir innihaldið þar sem hvert ljóð bregður upp mynd af vefnaðarvöruverslun. Þau eru ekki hvað síst ljóðin sem draga upp stemningsmyndir af verslunum sem voru starfræktar hér á árum áður. Þá er ekki laust við að það fari nostalgíufiðringur um miðaldra lesandann:

 

Últíma Kjörgarði
 
Móðir mín
í græna húsinu
tók sér gulglóandi ull
í vegleg stofutjöld
aldrei í lífinu grátt og drappað dralon
heldur gulli skreytt andrúm
í stofunni okkar (10)

 

Um leið og dregin er upp skemmtileg mynd af heimsókn í vefnaðarvöruverslun geymir ljóðið minningu um móður sem velur sér gulglóandi efni í gluggatjöld til að skapa rétta andrúmið á heimilinu. Í svipuðum anda er ljóðið um Silkiborg:

 

Silkiborg á Dalbraut
 
Hún stendur föst fyrir
kaupmaður við búðarborðið
myrkurhvítt hárið í flæðandi hnút
föst fyrir svartklædd og sígaretta límd
föst í hægra munnviki
röddin rám og klístruð
af þykkum bleikum varalit
strigaskór
brenniboltar hárborðar
efnisbútar afgangar
í dúkkuföt í hárbönd
höfum fengið
hið margeftirspurða
hvíta terylene
aftur
nýkomin sippubönd og teygjur í tvist
sólbuxur, sokkar og sumarbuxur telpna
hún afgreiðir snúsnú og kátínu og vor (9)

 

Hér er einnig gefin innsýn í horfinn tíma; þegar kaupmaðurinn afgreiðir vörurnar með sígarettuna lafandi úr munnvikinu. Þarna er sömuleiðis dregin upp skemmtileg mynd af bernskunni, því í búðinni má nálgast efnisbúta í dúkkuföt og sömuleiðis er hægt að kaupa sippubönd og teygjur. Lokasetningin kallar nánast fram ilminn af vorinu og glaðværð og kátínu krakkahóps að leik.

Önnur ljóð standa nær okkur í tíma, fjalla um verslanir sem eru starfandi í dag og allir landsmenn þekkja:

 

Ikea
 
Hreingult og blátt
sléttir strangar raðast rétt
og liggja þétt hrein og sterkjuð
hundrað prósent bómull hviss
riss riss hviss, rifið hundrað prósent rétt
glæný mynstur gulröndótt
lakkrískonfekt
hvítar rúður á skærbleiku
áprentaðar englaprinsessur
á bleikum stjörnuhimni
bera stelpuprinessur
með hárflóka
í draumaheim
í bláan buskann
heimasaumað svæfilverið
undir flóknum kolli á englavæng
undir Ikeasæng (24)

 

Þetta er skemmtileg og afar lýsandi mynd af stemningunni í Ikea. Þarna bregður fyrir gula og bláa lit sænska fánans sem einkennir verslunina sem og sænsku regluseminni sem færa litlum prinsessum loforð um fallegan draumaheim. Prjálið í Rúmfatalagernum er hins vegar fullmikið fyrir smekk ljóðmælandans:

 

Rúmfó
 
Drottinn blessi heimilið
prentað með hörðu gulli á púða
það stirnir á kisumjúkt velúr
í ódýrum ströngum
gómar fingranna draga sig í hlé
höndla ekki heimili í glansi (22)

 

Hér sem annars staðar eru efnin, litirnir og mynstrin í forgrunni. „Poppkornshvítt vetrarflauel“ (25), „laxableikt krep“ (20), „egypsk bómull“ (15), „sandlitað hör“ (12) og „flöskugrænt fínerí svo fallegt í kjól.“ (13) Litríkar myndirnar eru tvinnaðar saman við liðnar stundir ljóðmælandans sem á stefnumót við efnabúðir með móður sinni. Þá er vorkoman ævinlega skammt undan og fyrir vikið er víða mikil mýkt í ljóðunum, þau eru notaleg og vekja upp ljúf hugrenningatengsl við saumaskap, þrif, leik og gleði. Það fer vel á að enda þessa stuttu umfjöllun á ljóði um vefnaðarvöruverslunina Virku sem hætti starfsemi á haustdögum eftir 42 ára rekstur en hefur öðlast framhaldslíf í ljóði Sigrúnar Ásu en óhætt er að segja að henni takist nokkuð vel að spinna þráðinn:

 

Virka
 
Á stefnumót
við efnabúð
allt getur gerst
upptendraður hugurinn
draumvísur kveðnar
nýjasta sending lögð á borð
efnin syngja dirrindí
vorið er komið
og hugurinn grær (26)

 

Heimild:
1 Noemi Ehrat. 2018. „A Wide Range Of Voices: A Glimpse Into The Current Icelandic Poetry Scene“ The Reykjavík Grapewine. Slóðin er: https://grapevine.is/mag/feature/2018/08/24/a-wide-range-of-voices-a-glimpse-into-the-current-icelandic-poetry-scene/