LJÓÐRÆN ORÐABÓK - um ljóðabókina Orðskýringar eftir Hildi Knútsdóttur
Hildur Knútsdóttir. Orðskýringar. Reykjavík: Partus 2018, 24 bls.
Orðskýringar er fyrsta ljóðabók Hildar Knútsdóttur en hún hefur áður sent frá sér skáldsögur, fyrir bæði börn og fullorðna, og hlotið bæði Fjöruverðlaunin og Íslensku bókmenntaverðlaunin.
Ljóðabók Hildar er númer 33 í flokki Meðgönguljóða sem er bókaflokkur útgáfunnar Partusar helgaður nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.
Bókin lætur lítið yfir sér og geymir einungis 16 ljóð og þar af er fyrsta ljóðið, ef ljóð skyldi kalla, listi yfir orðin sem til stendur að útskýra. Listinn er einnig eini textinn sem ber titil:
Orð (í stafrófsröð)ÁfallBömmerEinmanaleikiFeðraveldiGrimmdHrokiHræsniKarlrembaKlisjaMinnimáttarkenndMisréttiMissirPervertVandræðiVonbrigði
Líkt og af yfirskriftinni má ráða eru orðin á listanum í stafrófsröð en ekki í sömu röð og ljóðin sem á eftir koma. Listinn gegnir því einungis hálfgerðu hlutverki efnisyfirlits; hann geymir orðin sem ljóðin fjalla um en ekki röðina á þeim og ekkert þessara ljóða ber titil. Það eitt og sér er því prýðileg skemmtun, að reyna að tengja saman ljóð og orð.
Það er býsna frumleg nálgun að yrkja ljóð sem geyma orðskýringar. Ljóðin eru líka öll að forminu til í anda orðskýringa, knöpp og lýsandi. Sum hver eru einnig nokkuð hnyttin, líkt og þessi orðskýring:
Landsþekktur álitsgjafi kembir fréttasíður og samfélagsmiðla
og bíður eftir áskorunum
um að bjóða sig fram til forseta Íslands. (19)
Ætla má að þarna sé „hrokanum“ lýst. Að minnsta kosti er hegðun álitsgjafans til marks um stærilæti. Sumar orðskýringarnar geyma nokkurn brodd, líkt og sjá má á þessari orðskýringu sem lýsir líklega „vonbrigðum“:
Þrjátiu og sex ára gamall lögfræðingurlæsir sig inni á klósetti eftir launaviðtalog reynir að ákveða hvort hún eigi að hlæja eða gráta. (15)
Hér, líkt og oft áður þegar um ræðir málfræðilegt karlkyn, fær lesandi líklega karlmann upp í hugann þegar hann les orðið „lögfræðingur.“ Það kemur hins vegar í ljós að um konu er að ræða og þá læðist sá grunur að lesandanum að trúlega hafi kyn lögfræðingsins haft sín áhrif á launaviðtalið.
Öll orðin sem skýrð eru í bókinni eiga það sammerkt að vera af frekar neikvæðum toga og finna má ljóðmyndir sem eru dregnar býsna sterkum dráttum:
Tuttugu og fimm ára gömul kona stendur berfættá köldu baðherbergisgólfi og horfir ofan í klósettskálinaá blóðklump sem átti að verða að barni. (11)
Lýsingin á kuldalegu umhverfinu gerir fósturmissinn enn nöturlegri en ella. Unga konan sem bar líf undir belti og bjó sig undir að verða móðir horfir á slíkar væntingar verða að engu, verða að blóðklumpi ofan í klósettskálinni. Þetta er í senn hrollvekjandi og lýsandi skýring á orðinu „missir.“
Ljóðabókin Orðskýringar er býsna athyglisverð úrvinnsla á frumlegri hugmynd. Þessi bók gæti hæglega orðið sú fyrsta af mörgum orðskýringaljóðabókum því nóg er eftir af orðum sem eru vís með að kalla fram skemmtilegar hugmyndir úr ranni Hildar Knútsdóttur. Að minnsta kosti er óskandi að von sé á fleiri ljóðum.
Myndin af Hildi Knútsdóttur er sótt á vefsíðuna Mýrin bókmenntahátíð