SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. desember 2018

FERSK OG FRJÓ, HÚMORÍSK OG HARMRÆN - um Fræ sem frjóvga myrkrið

Eva Rún Snorradóttir. Fræ sem frjóvga myrkrið. Reykjavík: Benedikt 2018, 80 bls.

Ljóðabókin Fræ sem frjóvga myrkrið kom út á dögunum á vegum Benedikts bókaútgáfu. Þetta er þriðja ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur en hún hefur áður sent frá sér bækurnar Heimsendir fylgir þér alla ævi (2013) og Tappi á himninum (2016).

Ljóðabókin er tæplega 80 síður og henni er skipt upp í tvo hluta. Sá fyrri nefnist „Far til að sýna öllum heima: Föst flétta ofin úr gömlum skuggum“ og geymir hann stutta, tölusetta leikþætti. Seinni hlutinn er án titils og þar eru ljóð og örsögur í bland við stöku ljósmyndir.

 

Nauðgun og niðurlæging

Aftan á kápunni kemur fram að bókin fjalli „meðal annars um nærfatakaup í sólarlandaferðum og far til að sýna þeim heima.“ Þessi orð gefa ekki rétta mynd af efni ljóðanna. Af þeim mætti ráða að bókin geymi spé og skop um skemmtiferð til sólarlanda en svo er aldeilis ekki. Vissulega er nálgun höfundar gjarna skemmtilega frumleg og oft meinhæðin en það er mjög grunnt á harmleiknum; ofbeldi, nauðgun og niðurlægingu, líkt og má t.d. sjá í leikþætti númer fjögur:

 

Viðtalsmeðferð á yfirgefnu diskóteki.

Embættisbúningurinn: Lýstu hótelherberginu.

Ung kona: Í miðju herberginu, sófinn – minnir á leikfang í Barbie-húsi frá níunda áratugnum.

Skræpóttur og doppóttur í senn. Hrópandi allan viðbjóðinn sem hefur átt sér stað í herberginu.

Embættisbúningurinn: Skilgreindu viðbjóð.

Ung kona: Þú brosir á meðan eitthvað meiðir þig. Sársaukinn kemur ekki strax.

Hann ferðast löturhægt. Stundum gegnum kynslóðir.

En bíddu nú við, meiða, - meiða þig – er það ekki bara orð fyrir börn?

Embættisbúningurinn: Æ nei, ég nenni ekki að hlusta á þetta. Haltu áfram með hótelherbergið.

Ung kona: Fyrir ofan sófann, í plastramma: eftirprentun af Renoir, siðaðar dömur sitja og drekka vín með betri borgurum í huggulegri bátsferð.

Já, svo eru svalir. Sem opnast beint út á aðalgötuna.

Embættisbúningurinn: Ég heyri einhverja píkuskræki frá þessum svölum. Hvað er á seyði?

Ung kona: Ég man það ekki.

Embættisbúningurinn: Jú, þú ert að strippa. Þú ert sveipuð einhverjum ómeginsljóma. Líkami þinn eins og líkneski til sölu. Minjagripur um óreiðu og doða. Far í veröldinni eftir hnjask.

En þú lætur eins og þú sért í einhvers konar hópefli. Hress, æst, tætt að innan, sæt að utan.

Fyrir neðan, hópur af fólki, börnum með ís, gömlu fólki sem þarf að setjast á bekk til að horfa upp, af hópnum skín sú einskæra sæla sem fylgir því að sjá ungar konur niðurlægja sig. (16-17)

 
 

Þessi leikþáttur er nokkuð lýsandi fyrir þessa „skemmtiferð“ kvennanna á sólarströndina sem ætla má að hafi þróast á annan veg en lagt var upp með. Þarna eru dregnar upp afar sláandi andstæður milli þeirrar glansmyndar sem hangir á veggnum, og sýnir konur hafa það huggulegt í útlandinu að sötra vín, og raunveruleikans sem gefur mynd af drykkjuskap og hömluleysi og um leið bjargarleysi konunnar þegar þannig er ástatt fyrir henni. Það sem er ekki hvað síst hryllilegt við þá mynd sem þarna er dregin upp er að hún er allt of þekkt úr djammheimi kvenna. Það má einnig ætla að sagan sé sönn eða að minnsta kosti byggð á sannsögulegum atburðum því haft er eftir Evu Rún að ljóðabókin sé byggð á ferð sem hún fór 18 ára til Benedorm: „Ferð sem var botninn á löngu niðurrifsskeiði og um hana hefur ekki verið rætt í fjöldamörg ár.“1

 

Kynfrelsi kvenna

Í bókinni er einnig fjallað hispurslaust um kynhvöt og kynlíf kvenna. Öðrum þræði er þetta nokkuð ögrandi en fyrst og fremst hressilega berorð umfjöllun um eðlilega kynhvöt kvenna. Þarna er þó einnig stutt í tryllinginn og nöturleikann, líkt og sjá má í eftirfarandi textabroti sem sýnir samtal vinkvennanna þar sem þær rifja upp misjafnlega eftirminnilegar samfarir:

 

Fullorðnar konur í löngu liðnu partíi. Klæðast bolum með reistu typpi framan á og áletruninni: Halló Bless.

 

B: Samfarir við vini þína.

A: Samfarir við vinkonur þínar.

C: Samfarir á gulri vindsæng sem dúar eins og ský í lofti, vinkona þín sofandi við hliðina á þér.

B: Samfarir sem voru svo geggjaðar að þú hugsar um þær í marga daga á eftir.

A: Samfarir sem taka örstuttan tíma og þú heldur áfram að djamma. Missir nánast ekki af neinu.

B: Samfarir á eiturlyfjum, svo hægt sé að halda lengur áfram.

A: Samfarir við svartan mann af því að vinkona þín valdi hvíta vin hans, þér var alveg sama. (30)

Þetta er hressandi lesning, því lesandi ætti e.t.v. frekar von á að rekast á svona samtal í heimi karla, en líkt og fyrr segir er nöturleikinn ávallt skammt undan og það sem átti að heita skemmtun breytist í andhverfu sína:

C: Samfarir þar sem þú lást flöt og mónótónísk, fyrst á eftir fannstu ekki neitt,bara þessa kunnuglegu þynnku og doðann: gráðuga holu sem þurfti að fylla upp í tafarlaust. Vissir bara að þú hefðir gengið nærri þér. Svo fer sú tilfinnig að aukast, verða  stærri og ágengari, inni í þér er reiður hákarl sem ætlar að drepa þig fyrir að hafa verið að ríða þessum manni og sýnt þessi fáránlegu viðbrögð. Ekki stoppað, ekki stunið. Bara flatneskja, þögn og mónótónísk röddin eftir á. Áratugum seinna færðu loksins að heyra að það séu eðlileg viðbrögð líkamans við því að verða fyrir árás.

B: Hvað er þetta, erum við ekki staddar í partíi árið 1999 og ekkert á dagskránni nema fjör? (32)

 

Þessi fyrri hluti bókar, sem lýsir „skemmtiferð“ vinkvennanna til Benedorm, er um margt sláandi. Það er leikur í stelpunum; þær vilja eiga skemmtilegar stundir með spænskum strákum og koma heim brúnar á kroppinn með far eftir brjóstahaldarann. Hvað sem á gengur, þá skal vera gaman. Því er nálgunin á kynferðislegu ofbeldi æði kaldranaleg og meinhæðin. Sársaukinn er klæddur trúðabúningi. Það svíður samt undan og enn meira er frá líður.

 

Í ójafnvægi

Seinni hluti bókar geymir ljóð og örsögur ásamt nokkrum ljósmyndum sem lýsa vel reynsluheimi kvenna. Þarna eru dregnar upp myndir af fordómum í garð kvenna, yfirborðsmennsku, smáborgarahætti, kynferðislegri áreitni og mörgu öðru sem með einum eða öðrum hætti snýr að kvenlíkamanum. Sumar myndirnar eru dregnar býsna sterkum dráttum:

 

Móðir í ójafnvægi

Ónothæfir spenar

fást gefins

gegn því að vera sóttir.

Tilvalið í klám. (44)

 

Til hliðar við þessa sláandi mynd, sem dregin er upp með orðum, er önnur mynd, ljósmynd af platta með skrautskrifuðu orðunum: „Konur og súpur á ekki að láta bíða, þá kólna þær.“ (45) Þessar tvær myndir styðja hvor aðra. Húmorinn sem á að vera falinn í skrautskriftinni verður enn beiskari en ella í ljósi textans; þegar konan eldist er hún ekki nýtanleg nema í klám. Undirskipuð er mögulega hugsunin um að konan geti aðeins verið annað hvort móðir eða hóra.

Titill bókarinnar Fræ sem frjóvga myrkrið er sóttur í lokaljóðið „Að deyja.“ Ljóðið geymir „hópefli fyrir þá sem eru hræddir við stórar breytingar“, á borð við það að deyja. Þar segir meðal annars frá því hvernig limirnir falla af líkamanum, líkt og lauf, og manneskjan verður að fræi sem fýkur út í buskann og frjóvgar mjúkt móðurmyrkrið. Þar býður eitthvað „ferskt, guðdómlegt, hressandi.“ (80) Þar býr þá alltjent vonin, í hlýju og mjúku leginu.

Líkt og í fyrri hluta bókar eru ljóðin mörg hver berorð, beinskeytt og meinhæðin og sum hver býsna áhrifamikil. Þessi síðari hluti er þó nokkuð sundurlausari að formi og efni og þar næst ekki að skapa frumlega og ferska stemningu leikþáttanna. Hvað sem forminu líður þá er Fræ sem frjóvga myrkrið ein athyglisverðasta ljóðabókin sem út kom á árinu, í senn fersk og frjó.

 

Tilvísanir:

1 Kristín Svava. 2016. ,,Að rannsaka það hvernig við komumst í gegnum dagana: Viðtal við Evu Rún Snorradóttur." Druslubækur og doðrantar. Slóðin er: http://bokvit.blogspot.com/2016/04/a-rannsaka-hvernig-vi-komumst-i-gegnum.html