SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir10. desember 2021

LAUNHÆÐIN EN "KRÚTTULEG"... Tilfinningar eru fyrir aumingja

Kamilla Einarsdóttir. Tilfinningar eru fyrir aumingja. Reykjavík: Bjartur

 

 

Launhæðin en "krúttuleg" Reykjavíkursaga

Rithöfundaferill Kamillu Einarsdóttur er ekki ýkja langur en hins vegar er hann ansi glæstur. Fyrsta skáldsaga hennar, Kópavogskrónika (2018) sló í gegn og var leikgerð unnin upp úr henni sem rataði á fjalir Þjóðleikhússins. Nú hefur Kamilla sent frá sér sína aðra skáldsögu, Tilfinningar eru fyrir aumingja, og fyrir hana hlaut hún á dögunum tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
 
 
Góðlátlegt grín í garð reykvískra forréttindapésa
 
Í nýju bókinni fer minna fyrir Kópavogi en í þeirri fyrri, þótt minnst sé á Cafe Catalínu og aðalpersónan fari „á eitthvað leikrit um konu sem var af einhverjum ástæðum alltaf að hanga í Kópavogi“. Tilfinningar eru fyrir aumingja er nefnilega Reykjavíkursaga og í henni fangar Kamilla á skemmtilegan hátt tíðaranda líðandi stundar. Sagan hefst á því að Halla er að ganga í gegnum erfitt tímabil; vinahópurinn hennar er orðinn óbærilega leiðinlegur:
 
Eftir að meirihlutinn fór að vera meira og minna í gagnkynja samböndum og keypti sér fasteign var eins og öll gleði hefði dáið. Þau virtust steinhætt að hugsa eða gera nokkuð spennandi eða skemmtilegt og fóru bara að tala um gereft og stormjárn og hvernig væri hægt að fá góð tilboð á húsasteiningu. Voru heima öll kvöld að horfa á línulega daskrá og plana næstu húsnæðiskaup. (6)
 
Vinirnir hafa prófað ýmis hobbý til að bregðast við vandanum, s.s. frisbí, pastagerð og bjórbrugg, en nýjasta ráð Höllu til að ráða bug á þessu „krítíska ástandi“ er að stofna metalband og vinirnir fallast á þá hugmynd með semingi. Bandið er í raun aukaatriði í sögunni en í gegnum þetta litla hljómsveitarævintýri kynnist lesandinn vinahópnum sem samanstendur af skondnum en jafnframt kunnuglegum manngerðum úr samtímanum. Ingunn kemur til að mynda reglulega í Hús og híbýlí, kaupir merkjavöru fyrir morðfjár í hverri viku á sama tíma og nýtni og umhverfisvernd eru henni hugleikin. Gunni er vaxjakkaklæddur Vesturbæingur, í fléttupeysu á Land Rover jeppa „eins og það væri alltaf jafn líklegt að dagurinn bæri óvænt í skauti sér uppákomur eins og að fara í innkaupaferð í Brauð og co í Vesturbænum og svo strax á eftir á fasanaveiðar með ensku drottningunni“. (95) Myndasagnahöfundurinn Jóhanna er með líkamsvessa og þarmaflóru á heilanum og Palli er „yfirburðar“ femínisti líkt og Halla lýsir:
 
Palli vissi sko miklu meira um femíníska baráttu, aðferðir og birtingarmyndir en við stelpurnar sjálfar og allir hrósuðu honum svaka mikið fyrir að vera svona óþreytandi við að tala alltaf fyrir okkur. (106)
 
Svo er það Helgi, sá eini sem hefur áður verið í metalbandi. Hann átti sér á sínum tíma draum um að skrifa bók, einhvers konar manifestó um sýn sína á lífið og framtíð mannkyns, en endaði svo sem heimavinnandi húsfaðir í sambandi með, og fullkomlega háður, framakonunni Guðrúnu.
 
Persónulýsingarnar eru sprenghlægilegar og Kamilla gerir óspart grín að ýmsum æðum sem grípur landann, líkt og ketómatarræði og kombucha sem og fatatísku ákveðinna hópa. Áður hefur breskum stíl Vesturbæingsins verið lýst en annað dæmi er hvernig Guðrún neyðir Helga til að klæðast kragalausum skyrtum, ullarbuxum með axlarböndum og sixpensara úr rándýrum herrafataverslunum sem verður til þess að hann lítur út „eins og ofvaxinn smaladrengur“. (98)
 
Líkt og lýsingarnar og tilvitnanirnar bera með sér er írónían allsráðandi í frásögninni og snýr hún gjarnan að forréttindum millistéttafólks, eða ekki síst forréttindablindu þess. Femínistinn Palli sem talar fyrir hönd kvennanna er gott dæmi þess en einnig Helgi sem rúmlega tvítugum finnst hugmyndir sínar um líf og framtíð mannkyns eiga brýnt erindi við fólk. Í því samhengi lætur sögukonan eftirfarandi írónísku ummæli falla: „Fólk fær aldrei nóg af slíkum bókum frá ungum strákum í mörgum forréttindahópum.“ (69) Þá er samband Helga og Guðrúnar sprottið úr sameiginlegri forréttindablindu þeirra en þau hrífast hvort af öðru fyrir að vera „mestu sósíalistar á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað“ og fara því næst heim saman í íbúð Guðrúnar sem foreldrar hennar gáfu henni.
 
 
Ástarþrá Höllu
 
Aðalsagan er þó saga Höllu, sögukonunnar sjálfrar, og fléttast frásagnirnar af vinunum inn í hennar sögu. Hún er í „sjálfskipaðri ástarsorg“ því hún er nýhætt í vonlausu sambandi með manni sem átti afar erfitt með nánd og beitti Höllu tilfinningalegu ofbeldi. Frásögnin af ofbeldissambandinu einkennist af sömu íróníu og lýsingarnar á forréttindablindu vinanna en áhrifin eru önnur þegar umfjöllunarefnið snýr að svo alvarlegu málefni. Það er lesandans að túlka hvenær írónían beinist að skakkri skynjun Höllu á hegðun annarra annars vegar og hins vegar hvenær Halla beitir henni meðvitað í frásögn sinni til að hæðast að hegðun samferðafólks síns. Það er til að mynda auðvelt að ímynda sér að þegar hún lofar Palla fyrir að vera góður femínisti sé hún að gera grín að honum og þá veitir írónían lesandanum útrás og hann getur hlegið með Höllu. Öðru máli gegnir þegar hún hrósar fyrrum elskhuga sínum eftir að hafa lýst brengluðu sambandi þeirra og hvernig hann beitti hana tilfinningalegu ofbeldi: „Hann var samt góður strákur. Hann var góður við lítil dýr og vini sína. En hataði allar sínar fyrrverandi, mömmu sína og sífellt oftar mig.“ (19) Hér vaknar fremur óþægindatilfinning við lesturinn og framkallar írónían því á köflum í besta falli taugaveiklunarhlátur hjá lesandanum.
 
Í framhaldi af sambandsslitunum segir frá nokkrum hugsanlegum ástarævintýrum Höllu en þau einkennast öll af sama vandamáli; Halla er ætíð mun hrifnari af hinum mögulegu elskhugum en þeir af henni sem verður til þess að hún hugsar með sér:
 
Ég var eiginlega búin gefast upp á að gera eitthvað sem gæti endað með sambandi við mennina sem ég var komin með á heilann þrátt fyrir undirliggjandi ástarsorgina […]. Ég var búin að sætta mig við Gunillu Bergstöm-örlögin þar sem ég væri dæmd til að eiga í eilífðarsamböndum sem væru eins og það sem Einar Áskell átti við ósýnilega vin sinn, hann Manga. Frábær og góð sambönd sem yrðu alltaf bara til í hausnum á mér. (32)
 
Ímyndaðir vinir eru örugglega vanmetnir en þó er þetta tragi-kómíska brot einkennandi fyrir persónu Höllu. Lýsingar og frásagnir hennar af sjálfri sér eru bráðfyndnar en endurspegla jafnframt hversu óvægin hún er við sjálfa sig. Þannig afhjúpa þær brotna sjálfsmynd hennar og viðkvæmni en hún heldur jú fram að tilfinningar séu fyrir aumingja en fær svo strax illt í magann eftir að hafa látið þau orð falla.
 
Í sambandi við ástarþrá Höllu má að lokum nefna frumlegar og skemmtilegar vísanir sem höfundur skýtur inn í. Þar á meðal er forn og framandi fróðleikur um sjúkdómsgreiningar á ást og erfiðum tilfinningum og grótesk ráð við slíku „sjúkdómsástandi“. Fróðleikinn fléttar Kamilla á fyndin hátt saman við tilfinningalegt ástand Höllu sem hryllir skiljanlega við þeirri tilhugsun að vera sjálf meðhöndluð með hinum fornu læknisráðum.
 
 
Í bókinni fangar Kamilla tíðaranda reykvísks samtíma á kostulegan hátt en hún á ekki í nokkrum erfiðleikum með að koma auga á skondnar hliðar mannlegrar tilveru. Hún er óhrædd við að fara sínar eigin leiðir sem höfundur sem gerir hana að ferskum andblæ í íslenskum bókmenntum. Tilfinningar eru fyrir aumingja er allt í senn; meinfyndin, ljúfsár og – svo gripið sé til lýsingarorðs sem sögukonan notar óspart – „krúttuleg“ bók.