MANNSHOLDIÐ ER SVO VIÐKVÆMT. Ör
Auður Ava Ólafsdóttir. Ör. Reykjavík: Benedikt 2016, 204 bls.
Jónas Ebeneser er maður á miðjum aldri, sæmilega hraustur en frekar þögull og fáskiptinn. Hann er búinn að vera fráskilinn í 6 mánuði en einmana miklu lengur, dóttirin er ekki úr hans genasafni, móðirin veslast upp á elliheimili og hann borðar kótilettur í raspi beint af heitri pönnunni, standandi við eldavélina. Hann hefur ákveðið að binda endi á hamingjusnautt líf sitt og afræður að gera það erlendis. Fyrir valinu verður stríðshrjáð land, bardögum þar er reyndar lokið en borgin er í rústum, hótelið niðurnítt og hnefastór skotgöt á veggjum nærliggjandi húsa. En brátt renna tvær grímur á Jónas, getur hann lagt það á herbergisþernuna Maí, sem hefur lifað af sprengjuregn, horft á aftökur og misst ástvini, að drepa sig á hennar vakt?
Jónas er dæmigerður karl í krísu sem hefur verið vinsælt yrkisefni í skáldsögum síðustu áratuga og endurspeglar hugsanlega stöðu margra kynbræðra hans í vestrænum velferðarnútíma. Þetta eru andhetjur sem standa einar uppi og kunna lítil skil á karlmennsku sinni, hafa klúðrað ástinni og misst tengslin við börnin sín, finna engan tilgang með jarðvistinni og hafa ekki lengur stjórn á eigin lífi. Jónas er besti náungi, barmafullur af umhyggju sem hann hefur ekki veitt útrás lengi eða enginn þurft á að halda, eða kannski vissi hann ekki að hann ætti hana til. Það er þörf fyrir mann eins og hann á Hótel Silence, hann fer að dytta að ýmsu, þrífa sturtuhaus, vökva blóm og herða lausar skrúfur. Borvélin sem hann tók með sér til að festa krók í loftið vegna fyrirhugaðs sjálfsmorðs kemur í góðar þarfir. Hann kemst brátt að því að í landi dauðans er ekki svo aðkallandi að deyja (122) og fer að finna fyrir líkama sínum og hjarta á ný. Í þjáningu annarra finnur hann tilgang og horfnar þrár vakna.
Annmarkar og hnúskar
Textinn snýst um einhvers konar líkamlega miðju, hann beinist að holdi, hörundi, örum, húðflúri; hvernig líkaminn segir sögu okkar; hvernig hann ber með sér áföll og hnjask sem hann verður fyrir á æviskeiðinu. Adam litli, sonur herbergisþernunnar, er með ör eftir rottubit síðan hann gisti á moldargólfi á flótta, hann er heyrnarskertur af sprengjudyn, hefur ekki talað orð í heilt ár og allir vöðvar í líkama hans eru spenntir. Líkamar lemstrast í stríðsbröltinu, það vantar fingur, handleggi eða fætur á bæjarbúa: „Mannsholdið er svo viðkvæmt, húðin svo fljót að rifna, stálkúlur tæta sundur líffæri, steypubitar brjóta bein, gler sker burt líkamsparta…“ (155). Líkaminn, nakinn og forgengilegur, með annmörkum sínum og hnúskum er svo auðsæranlegur um leið og hann er upphaf og endir alls.
Eru konur framtíðin?
Í Öri/Örum er fjallað um stríð og afleiðingar þess á mannkyn, land og þjóðir og um hlutskipti kvenna í stríði sem er verra en karla sem halda til orrustu og ýmist falla með sæmd eða snúa sigurreifir aftur. Karlarnir eru flóknari persónur og fá meira rými í sögunni, konur halda sig meira til hlés, eru þiggjendur og fórnarlömb. Jónas hefur alls ekki alltaf verið þrúgaður og framtakslaus ef marka má dagbækur hans sem lýsa leitandi og ástríðufullum ungum manni en hann hefur einhvern veginn týnt bæði greddu og gleði. Guðrúnirnar þrjár í lífi hans eru hver með sínu móti, fyrrverandi eiginkonan á ekki rödd í bókinni en lesandinn skynjar hvernig sambandið við hana trosnar smátt og smátt án þess að fá beina vitneskju um af hverju, en dóttirin Guðrún Vatnalilja er skörungur eins og nafna hennar, amman sem delerar á elliheimilinu. Svanur, nágranni Jónasar, telur að í konum sé framtíðin falin og bakar skúffukökur sæll og glaður – en hefur sinn djöful að draga. Ofbeldisseggurinn Bingó reynist svo besta skinn og í ljós kemur að meira að segja forhertum stríðsbraskara í næsta herbergi á hótelinu er ekki alls varnað. Það besta er að allir geta sameinast um hið göfuga verkefni að gera upp hús fyrir konur og börn sem hafa orðið fyrir barðinu á stríðinu. Allt sem þarf er vilji og verkfæri. En verst er að þetta er allt frekar átakalaust í sögunni og dregið furðu einföldum dráttum.
Líkami kvenna er vígvöllur
Hví er í heiminum endalaus stríð? Svarið er einfalt og kemur frá aldurhniginni móður Jónasar, „stríð er gullnáma“. Stríðsbraskarinn orðar það svo að þegar samfélagið er veikt og innviðir þess í molum skapast tækifæri fyrir útlenda verktaka og kaupmangara að koma ár sinni fyrir borð. Stríðið er alltumlykjandi löngu eftir að síðasta skotinu hefur verið hleypt af, viðhald og endurreisn taka óratíma. Jarðsprengjurnar bíða eftir fórnarlömbum, niðurgrafnar á leikvöllum, ökrum og engjum, skólaskyldu er ekki fylgt eftir, sjúkrahús jöfnuð við jörðu, fornmunum ýmist stolið eða komið fyrir kattarnef, karlarnir hafa flúið eða verið drepnir og konur taka að sér að vernda og reisa samfélagið úr rústum. Það er gömul saga og ný. Hryllingur stríðsins seytlar fram í samtölum Jónasar við hótelgesti og starfsfólk, og hann kemst að því að allir bera ör stríðsins á sál og líkama. Ein skuggahlið stríðsátaka er kynferðislegt ofbeldi sem skilur eftir sig djúp ör á sálinni; líkami kvenna er vígvöllur eins og fræðikonan Kristeva hefur haldið fram og vitnað er til í byrjun bókar. Herbergisþernan Maí segir svo eftirminnilega: „Ég var ekki hrædd við að vera skotin eða sprengd í tætlur, en ef þeir náðu manni, þá dó maður hundrað sinnum“ (127).
Stríð í beinni
Ör hefur alla burði til að vera sterk og áleitin bók og hún er sannarlega bæði breiðari og pólitískari en fyrri verk Auðar Övu. En það vantar örlítið upp á, kannski meira blóð, hljóð, lykt. Persónurnar eru vissulega viðkunnanlegar, kaflarnir heita fallegum nöfnum, orðin eru tilvalin, samhengið áreynslulaust, boðskapurinn fagur, textinn ljúfur og tilgerðarlaus, ljóðið svo nærri; allt smellur saman eins og ör sem hittir í mark. Og situr þar föst.
Auður Ava á vissulega við okkur brýnt erindi. Það er margt gott í Öri/Örum en grunnsagan af þroska og friðarumleitunum Jónasar er hvorki nógu dramatísk eða sjokkerandi til að hreyfa við lesanda sem horfir á hörmungar stríðsins frá fyrstu hendi á netinu í beinni útsendingu.
Stríðsbrölt er okkur Íslendingum sosum ekki í blóð borið og því hefur verið lýst yfir að við séum friðsöm þjóð sem aldrei muni bera vopn. En við heykjumst á að leggja fólki lið sem hrakist hefur frá heimilum sínum og misst ástvini vegna stríðs í heimalandinu en ættum að leggja okkar af mörkum til að breyta opnum sárum í gróin ör. Auður Ava þrumar yfir hausamótunum á okkur réttilega og af gefnu tilefni: „Sá sem veit og gerir ekki neitt er hinn seki“ (174).
Ritdómurinn birtist áður í Kvennablaðinu 2016