LIFAÐ FYRIR NÚIÐ OG NAUTNINA. Strengir
Ragna Sigurðardóttir. Strengir. Reykjavík: Mál og menning 2001, 206 bls.
Allmargar skáldsögur sem út komu árið 2000 tengdust aldamótunum enda nærtækt. Sem dæmi mætti nefna Fyrirlestur um hamingjuna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Dís (Birna Anna Björnsdóttir, Oddný Sturludóttir, Silja Hauksdóttir) og Oddaflug eftir Guðrúnu Helgadóttur sem eiga það sameiginlegt að auki að fjalla um konur. Skáldsagan Strengir eftir Rögnu Sigurðardóttur kom líka út þetta ár en Ragna hafði þá þegar getið sér gott orð fyrir skáldsögur sínar Borg og Skot.
Í Strengjum er fjallað um náttúruna, manninn, ástina og kynlífið. María og Bogi eru ungt og hamingjusamt par í taumlausu tilhugalífi en þau missa smám saman tökin á ástinni. Freistingarnar eru margar og kynlíf ekki bara ástarnautn og innileiki milli tveggja aðila heldur tilraunir og útrás fyrir þörfina að prófa allt sem talið er að hinir séu að gera. Þegar farið er yfir strikið hjá unga parinu slitnar sambandið en strengurinn milli þeirra gerir það ekki. Þau taka síðar upp ástarsamband í meinum en sársauki, gamall og nýr, fylgir þeim.
Brugðið er upp mjög sannfærandi mynd af hjónabandi á tímum sem einkennast af undanhaldi gamalla gilda. Staða bæði eiginkvenna og hjákvenna er erfið og sársaukafull þegar um framhjáhald er að ræða, þær eru fórnarlömb aðstæðnanna. Ingunn sættir sig við ástkonu manns síns vegna vináttunnar, öryggisins og allra góðu áranna sem þau hjónin áttu. Sigrún bíður þess að framhjáhald Boga líði hjá og hann verði hennar að nýju. María finnur fyrir djúpri afbrýðissemi og kvöl gagnvart hjónabandi Boga en ástin er yfirsterkari. Í öllum látunum er erfitt að fóta sig og vita hvað manni er fyrir bestu. Að lifa aðeins fyrir núið og nautnina kann varla góðri lukku að stýra.
Margir strengir óma saman í sögunni líkt og í góðri sinfóníu. Einn þeirra er ósýnilegur náttúruandi í fjólubláu pilsi sem svífur yfir vötnum sögunnar, einskonar kvenkyns verndarengill Maríu. Það eru líka náttúruöflin sem ýta við Maríu þegar hún er komin í blindgötu. Víða skjóta upp kolli ýmsar hliðstæður, fyrirboðar, töfraraunsæi og táknsæi er víða beitt, t.d. er María ástrík meyja, Eva tálkvendið og Boginn á milli tveggja kvenna. Ár, lækir og haf tengjast sálarstríði allra kvennanna á táknrænan hátt.
Strengir er langt frá því að vera bara ástarsaga, þetta er mjög vel byggð, djúp og alvarleg saga sem tekst á við skáldsagnaformið af mikilli list. Efni sögunnar er sammannlegt og snertir streng í brjósti hvers lesanda enda persónurnar ljóslifandi og trúverðugar. Stíllinn fellur vel að efninu, t.d.er hvunndagur Maríu alltaf sýndur í slómósjón en hún er ofurróleg og lítil framkvæmdamanneskja. Tími sögunnar er njörvaður niður í upphafi hvers kafla, hann er á mörgum plönum, allt frá vinnukonu í barnsnauð á dögum Æra-Tobba til einstæðrar móður á tuttugustu öld. Textinn er mjög fallegur eins og sjá má t.d. á bls. 109 þegar orðin breytast í steina til að stikla á yfir í draumalandið.
Skáldsagan Strengir var ekki meðal bóka sem tilnefndar voru til íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2000 en hefði svo sannarlega sómt sér þar.
Ritdómurinn birtist fyrst í DV, 14. nóvember 2000.