SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. október 2018

MEIRA EN NOKKUÐ GOTT SKÁLD. smáa letrið

Linda Vilhjálmsdóttir. smáa letrið. Reykjavík: Mál og menning 2018, 67 bls.

 

 

Smáa letrið er varasamt því er þar eru undantekningarnar, gildrurnar, sérákvæðin og varnaglarnir. Er letur kvenna hið smáa, öndvert við hið stórkarlalega? Allt er opið til túlkunar og ný ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, Smáa letrið, snýst um fjallkonur, fornkonur, vinnukonur, formæður og mömmur; fortíð, fórnir og helsi.

Ljóðin eru persónuleg og einlæg og tala beint til kvenna. Með hjartað marið af skömm (21) brjótumst við í gegnum lífið og föttum ekki fyrr en um fimmtugt að nú er nóg komið. Hættum að láta okkur líða eins og gamalmennum á biðlista eða nauðgara á skilorði, tökum málin í okkar hendur og látum bælda rödd „öðlast hlutdeild í byltingarkantötu búrskvenna“ (46)!

Á kápunni er hjarta, anatómískt og fagurbleikt en á táknrænan hátt klofið í tvennt.

Það er löngu sannað, lesendur góðir, í eitt skipti fyrir öll, að Linda er meira en „nokkuð gott skáld“ (13).

 

 

eftir
hálfrar aldar
blóðuga baráttu
við að halda brothættri sjálfsmyndinni
innan viðurkenndra skekkjumarka
get ég staðhæft
að konur af minni tegund
eru enn sem fyrr óþekktar stærðir

(22)