„SVONA GETUR MINNIÐ GERT ÚR MANNI FÍFL.“ Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir. Albúm. Reykjavík: Bjartur 2002
Minnið, minningarnar, bernskan og þroskinn eru sígilt yrkisefni. Söknuður svífur yfir vötnum og í bernskuminningum er sólskin alla daga. En ekki er hægt að segja að mikil nostalgía einkenni skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Albúm sem Bjartur gaf út 2002. Þar er fengist við upprunann, bernskuna og fortíðina af raunsæi og hreinskilni.
Lýst er uppvexti sem einkennist af tíðum breytingum, flutningum og basli en er samt einhvern veginn afslappaður og ástríkur á sinn hátt. Á fyrstu síðunni í albúminu er sögumaður lítið barn og móðurfaðmurinn er heimurinn allur. Þá er brugðið upp myndum af nýju heimili með fósturföður og syni hans, leikskólanum, nágrönnunum og hverfinu í kring. Eftir því sem líður á þroskaferilinn koma bernskubrekin til sögu, ný vina- og fjölskyldutengsl, sár aðskilnaður, hörð sjálfstæðisbarátta og sjálfsmynd í mótun. Í lokin stendur sögumaður á þröskuldi fullorðinsáranna og veltir fyrir sér eðli og útlínum minnisins:
„Ég trúði vart því sem ég heyrði, þetta var sama tónlistin og ég hafði heyrt í höfðinu á mér þegar ég var lítið barn og hélt að öllu lífi hefði verið útrýmt af jörðinni, nema það hafði gleymst að útrýma mér. Auðvitað fékk það ekki staðist, þetta var ekki sama tónlistin, en svona getur minnið gert úr manni fífl og skáldsagnahetju og allt þar á milli“ (110).
Bernsku- og þroskasögur geta ýmist verið sársaukafullt uppgjör við erfiða æsku (fátækt og móðurmissi) eða einkennst af ljúfsárum söknuði eftir öryggi og ástríki bernskuáranna; eða verið stuttar og litríkar frásagnir af prakkarastrikum og svaðilförum þar sem mamma tók á móti sakbitnum dreng með rjúkandi kakói og kærleiksríkri fyrirgefningu. Skáldsaga Guðrúnar Evu er nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernskusagna sem karlar hafa að mestu fyllt hingað til. Margt í sögunni bendir til þess að bók hennar sé sjálfsævisöguleg, einskonar skáldævisaga, sem vert væri að skoða í samhengi við t.d. uppvaxtarsögur ólíkra höfunda eins og Þórbergs Þórðarsonar, Málfríðar Einarsdóttur, Guðbergs Bergssonar og Megasar, svo dæmi séu tekin. Í þessum verkum birtast bæði samfélag og sjálf, ólíkar fjölskyldugerðir á mismunandi tíma, þroski og uppeldi.
Í sögu Guðrúnar Evu má sjá uppeldisaðstæður fjölmargra af ungu kynslóðinni endurspeglast í teygjanlegum fjölskylduböndum; fósturforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd. Þessar tilfinningar eru undirliggjandi í texta Guðrúnar Evu en glíman við þær er hvorki ágeng né hávær. Tilfinningar sögumanns í garð móður og föður eru blendnar og óljósar en söknuðurinn eftir fósturbróðurnum er mikill og kemur e.t.v. skýrast fram í lokin þegar sögumaður rekst á póstkort til hans af tilviljun.
Í fjölskyldualbúmi raunveruleikans eru kyrrstæðar, misvel teknar og misskýrar myndir tengdar bæði stóru stundunum og litlu atvikunum í lífi hvers og eins. Lífsmyndirnar í Albúmi Guðrúnar Evu minna meira á heimagerðar kvikmyndir, hráar og raunsæjar. Bókin gengur því ekki alveg upp sem myndabók í skáldsöguformi eins og titillinn gefur til kynna. En það sem er heillandi við Albúm er hreinskilnin sem einkennir frásögnina, hvunndagsraunsæið blandað ævintýrinu, varnarleysi barnsins og sjálfsvörn unglingsins – kunnugleiki við sjálfsmynd og samfélag X-kynslóðarinnar.
Ritdómurinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2002