SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir20. október 2022

BRÁÐSKEMMTILEG PERSÓNULÝSING. Á eigin vegum

Kristín Steinsdóttir. Á eigin vegum. Reykjavík: Vaka-Helgafell 2006, 136 bls.

Líklega tengja flestir nafn Kristínar Steinsdóttur við barnabækur og leikritaskrif en fyrir tveimur árum sendi hún frá sér sína fyrstu bók fyrir fullorðna lesendur, Sólin sest að morgni. Þar var um að ræða afar fallegt og áhrifaríkt sjálfsævisögulegt verk þar sem móðurminning er í miðdepli frásagnarinnar. Sagan sem Kristín sendir frá sér núna er hins vegar „hreinræktuð“ skáldsaga en hér segir frá Sigþrúði, ekkju í Reykjavík sem komin er á efri ár og hefur fjárhagslega ekki úr miklu að spila en er þess útsjónarsamari þegar kemur að því að njóta tilverunnar. Bókinni mætti lýsa í heild sem persónulýsingu; það er Sigþrúður sem er í miðju frásagnarinnar frá upphafi til enda og sjónarhornið er ætíð bundið við hana þótt frásögnin sé í þriðju persónu. Sagan stendur því og fellur með því að persóna Sigþrúðar nái að vekja áhuga hjá lesendum og það gerði hún svo sannarlega hjá undirritaðri.

Sigþrúður býr í Norðurmýrinni og starfar sem blaðberi og lifir því á fátæktarmörkum en hún kann þá list að skemmta sér án mikils tilkostnaðar. Hún hefur vakandi auga fyrir því sem gera má ókeypis í höfuðborginni, fer á opnanir á myndlistarsýningum, á tónleika og söfn og síðast en ekki síst sækir hún jarðarfarir af kappi og meðfylgjandi erfidrykkjur og einnig bregður hún gjarnan undir sig betri fætinum þegar fasteignasölurnar auglýsa opið hús. Lýsingarnar á jarðarfararferðum Sigþrúðar eru víða kostulegar, hún nýtur þess að syngja sálmana og lætur ekki augngotur annarra kirkjugesta trufla sig; hún nýtur veitinganna í erfidrykkjunum, spjallar við aðra gesti um veðrið og lætur sig síðan hverfa í þann mund er nánustu aðstandendur hins látna koma í hús.

Meginþráður frásagnarinnar gerist í Reykjavík nútímans en í endurliti er sagt frá æsku Sigþrúðar og manndómsárum. Hún er fædd norður í landi og alin upp hjá ljósu sinni, Hallfríði, sem tók hana að sér þegar móðirin lést í kjölfar fæðingarinnar. Móðirin var ógift vinnukona og af föður sínum hafði Sigþrúður ekkert að segja annað en að frá honum erfði hún rautt hár og freknur sem – ásamt vanskapaðri hendi – ollu henni ýmsum vandkvæðum í æsku og stuðluðu að því að hún verður einræn og sérsinna. Fóstra Sigþrúðar deyr þegar hún er unglingur og eftir það er hún á eigin vegum og plumar sig ágætlega, þrátt fyrir einmanaleika og sorg sem komið er til skila á lágstemmdan en oft áhrifaríkan hátt.

Kristín Steinsdóttir fléttar hin tvö tímasvið frásagnarinnar, nútíðina og fortíðina, mjög haganlega saman og tekst með knöppum stíl og mikilli samþjöppun (skáldsagan öll telur 136 blaðsíður) að draga upp mynd af ævi konu sem hefur lifað margbreytilegri tilveru þrátt fyrir að hún láti einhvern veginn mjög lítið yfir sér. Sigþrúður hefur lifað tímana tvenna, í sveit og í borg, hún er kona sem hefur verið „trú yfir litlu“, eins og það er gjarnan orðað í eftirmælum og ekki gert miklar kröfur sjálfri sér til handa. En hún hefur þó alltaf átt sér draum sem tengist sögusögnum um franskt faðerni móður hennar og í sögulok er hún á leiðinni til útlanda í fyrsta sinn á ævinni, frjáls og „á eigin vegum“. Einum þræði er saga Sigþrúðar saga „óþekktu verkakonunnar“ sem öðlast kannski fyrst frelsið þegar á fullorðinsár er komið og allar skyldur að baki. Enda blómstar Sigþrúður í ekkjustandinu og er frásögnin einna mest lifandi þegar sagt er frá því hvernig hún eyðir tómstundum sínum, eins og minnst var á hér að ofan, þar nýtur húmor Kristínar sín til fulls.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 13. desember 2006