SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir26. október 2022

UM FLÓRU MANNLÍFSINS

Júlían er hafmeyja er einstaklega falleg bók eftir bandaríska rithöfundinn og myndskreytirinn Jessicu Love. Bókin heitir á frummálinu Julian is a Mermaid, kom út árið 2018 í Bandaríkjunum og nú á dögunum í íslenskri þýðingu Ragnhildar Guðmundsdóttur.

Júlían er hafmeyja geymir lítinn texta en er þess í stað borin uppi af gullfallegum myndskreytingum Jessicu Love. Sagan segir frá brúnum dreng sem heillast af hafmeyjum og vill líkjast þeim. Amma hans er treg í fyrstu en lætur það síðan eftir drengnum að búa hann sem hafmeyju og saman fara þau og slást í hóp hafmeyja og annarra sjávardýra.

Þetta er fyrsta saga Jessicu Love og segir hún hana hafa verið sex ár í smíðum. Hún segir margar ástæður fyrir því að hún samdi söguna. Ein er sú að hún er lærð leikkona og því fylgi að setja sig í spor annarra. Þá hafi forvitnin um kyngervi, trans og dragmenningu rekið hana áfram, eða með orðum hennar:

 

I wanted to make a story about the moment in which a child reveals something essential about who they are, and they are recognized with love. It's a story about belonging. (Love, Jessica 2022)    

 

Jessica hafði áhyggjur af því hvernig henni myndi takast til, sem hvítri, gagnkynhneigðri sís konu í forréttindastöðu að segja sögu brúns drengs  sem klæðir sig upp í hafmeyjubúning. Það er þó óhætt að segja að vel hafi tekist til. Bókinni hefur verið afar vel tekið, hún hefur unnið til fjölda verðlauna og þ.á.m. hlotið Stonewall Award sem eru elstu verðlaunin sem veitt eru fyrir bækur sem snúa að hinsegin efni.

 

 

Það er þarft fyrir öll að geta speglað sig í sögum og jafn þarft að sögur endurspegli heiminn og alla þá flóru mannlífs sem þar dvelur. Júlían er hafmeyja er einstaklega falleg saga um barn sem fær að vera eins og því líkar og líður best, með góðum stuðningi frá eldri ástvini. Fátt er fallegra.

 

Love, Jessica. (2022). Julian is a Mermaid. Jessica Love. https://jesslove.format.com/julian-is-a-mermaid