GÓÐ FRUMRAUN EMBLU RÚNAR
Embla Rún Hakadóttir. Ég er nú bara kona. Reykjavík: Sæmundur 2022, 71 bls.
Embla Rún Hakadóttir, sem er nýkomin í Skáldatalið okkar, hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók sem kallast Ég er nú bara kona.
Þetta er efnismikil bók sem skiptist í sex kafla sem bera yfirskriftirnar: Ljóð um ljóð, Ástin og kynin, Hversdagsljóð, Hugurinn og heimurinn, Hátíðarljóð og Lausavísur.
Titill bókarinnar vísar í ljóðið "Mannsöngur" sem er í fjórum erindum er bregður upp heldur bágborinni sjálfsmynd ljóðmælanda, þótt vissulega megi einnig greina glettinn tón í lýsingunni. Af ljóðinu má einnig sjá að höfundur hefur ljóðmálið, stuðla og höfuðstafi og rímreglur á sínu valdi. Öll ljóða bókarinnar eru reyndar ort í hefðbundnu formi og taka má undir baksíðutexta sem segir Emblu Rún hafa "næmt eyra fyrir brag".
Vitgrönn bæði og vesæl erog viðkvæm eins og blómið.Stefnulaus og styggð í mér,ég stari út í tómið.Taktu ekki mark á mérog mínu ljóðatuði.Illa gefin, ólíkt þérekkert fékk hjá Guði.Virtur þú og vænn að sjáí valdsmannslegum fötumer tóm ég hendist til og fráaf tilfinningahvötum.Líkt og amma upp í sveitalin var ég svonaog eiginlega ekkert veit:Ég er nú bara kona.
Þetta ljóð kallast svo á við ljóðið á næstu blaðsíðu sem heitir "Mansöngur" og þar er ort í orðastað karlmanns sem yrkir til konunnar sem er honum nokkurs konar skáldskapargyðja:
Fyrirgefðu, fagra, mérfátæklegu stefin.Í talsvert meiri mæli þérvar mælskulistin gefin.Lokkafagra ljúfan mín,ljóðin eru daður.Orti þau af ást til þínaumur lítill maður.Auðmjúkur um auglit bið,andi vísna minna.Ljóðin mín þau lifna viðí ljóma augna þinna.Upp til himna hefur lyfthuga þessi kona.Eigi maður andagiftyrkir maður svona.
Embla Rún yrkir um hlutskipti kvenna, móðurhlutverkið, dagleg störf og tíðarandann og víða má greina femínískan tón, eins og til dæmis í ljóðinu "Me Too":
Í baráttu um betri heimþær bratta vegi feta.Öll við skulum þakka þeimsem þora, vilja, geta.Um harðneskju og hatursbölheyra flestra eyruen minna væri um kvíða og kvölef konur réðu meiru.
Það er margt feikilega vel gert í þessari fyrstu bók Emblu Rúnar og ljóst að hún hefur hæfileika sem vonandi fá að njóta sín áfram. Það væri gaman að sjá hverju skáldið fengi áorkað léti hún hefðbundið form ekki alltaf stjórna framsetningu ljóðmálsins. Kannski á Embla Rún eftir að yrkja í frjálsara formi síðar.