SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 4. nóvember 2022

64 ÁRA FEMÍNISTI SENDIR FRÁ SÉR METSÖLUBÓK

Skáldsagan Inngangur að efnafræði eftir Bonnie Garmus kom út í vor í fínni þýðingu Sunnu Dísar Másdóttur og vakti strax talsverða athygli, einkum meðal kvenna. Útgáfa bókar þykja mikil tíðindi því það er ekki oft sem 64 ára gömul kona sendir frá sér sina fyrstu bók og þar að auki sögu sem er gefin út í 34 löndum. Þá rauk sagan beint í annað sæti á metsölulista The Sunday Times.

Bonnie hafði áður spreytt sig á skáldskaparskrifum en án nokkurs árangurs. Hún sendi handrit á 98 staði og fékk alls staðar höfnun. Skilaboðin voru þau að hún ætti ekkert með að vera að skrifa 700 blaðsíðna frumraun.

Bonnie er með gráðu í enskum bókmenntum og vön ýmiss konar textavinnu. Eftir þessa útreið hélt hún áfram að vinna við að skrifa ræður, kynningar og fleira þess háttar fyrir hina  ýmsu karla. Þá gerðist það á einum fundinum með fjölda þessara karla að hún lagði fram hugmyndir sínar en var algjörlega hunsuð. Einn karlinn endurtók þá hugmyndir hennar og uppskar mikla hrifningu. Þetta hafði gerst nokkrum sinnum áður og hún fékk sig fullsadda, fór heim uppfull af femíniskri reiði og skrifaði fyrsta kaflann að Innganginum að efnafræði.

Inngangur að efnafræði geymir mjög beitta og feminíska nálgun á sögu Elizabeth Zott sem er efnafræðingur á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum í byrjun sjöunda áratugarins. Hún á mjög erfitt uppdráttar í þessum karlaheimi þar til hún kynnist virtum vísindamanni og þau hefja samband. Örlögin haga því þó þannig að hún stendur fljótlega ein uppi með barn og þarf að sjá fyrir sér með því að sinna matreiðsluþáttum í sjónvarpi. Það gerir hún á afar faglegan máta, kennir húsmæðrum landsins sitthvað í efnafræði sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfstæði sem er ennfremur hvati til breytinga.

Bonnie hafði til hliðsjónar líf móður sinnar en hún var tilneydd að vera heima um langa hríð til að sinna heimili og börnum þrátt fyrir að vera lærður hjúkrunarfræðingur. Þá eru viss líkindi með henni sjálfri og Elizabeth Zott því báðar hafa ánægju af róðri en á sögutímanum var það mikið karlasport. Lengra ná líkindin ekki því Elizabeth Zott er nánast á einhverfurófi, sérvitur mjög og brosir aldrei. Persónusköpunin er vel heppnuð þó segja mætti að hún sé sömuleiðis dálítið klisjuleg því það verður vart þverfótað þessi misserin fyrir persónum á einhverfurófinu.

Sagan er lipurlega skrifuð og það er jafnan grunnt á húmornum þrátt fyrir að undirtónninn sé alvarlegur og sagan geymi meðal annars ítarlega lýsingu á grófu kynferðisofbeldi. Slagur konunnar við feðraveldið er heillandi og það er verulega sniðug leið að nota matreiðsluþátt fyrir húsmæðurnar sem farveg fyrir femíniskar skoðanir aðalpersónunnar. Sumt var þó með nokkrum ólíkindum og endir bókar var helst til fyrirsjáanlegur. Þegar öllu er á botninn hvolft mætti segja að sagan sverji sig sumpart í ætt við skvísubókmenntir en hvað sem allri flokkun líður er sagan prýðileg afþreying.

Nú stendur fyrir dyrum að gera sjónvarpsþætti byggða á sögunni þar sem Brie Larson leikur aðalhlutverkið. Það verður spennandi að sjá hvernig tekst til. Þá er Bonnie þegar farin að huga að næstu bók enda komin í fulla vinnu sem rithöfundur sem eru aldeilis góðar fréttir fyrir okkur femínistana.

 

Heimild

  • Barber, Lynn. (2022) Bonnie Garmus: ´I was the rejection queen‘. You Magazine. https://www.you.co.uk/bonnie-garmus-interview/
  • Myndin af Bonnie Garmus er fengin af síðu You Magazine
  • Myndin af Brie Larson er fengin af síðunni Rotten Tomatoes