SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. nóvember 2022

EKKI EINHÖM BÓK - Um Snjóflygsur á næturhimni eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur

Snjóflygsur á næturhimni eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur kom út fyrir skemmstu. Undirtitill bókar er Um ljósmyndir, minningar og snertingu við veruleikann sem nær efni hennar vel. Bókin er nefnilega ekki einhöm heldur er þar fléttað saman frásögnum af lífi höfundar og upplifunum, í bæði máli og myndum, við ýmsar verðugar pælingar fræðimanna. Þetta tekst nokkuð vel og er þó ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur heldur eru tekin til umfjöllunar stór og viðamikil hugtök sem skipta sköpum við upplifun okkar á heiminum.

Bókin geymir fjölda stuttra kafla, sem bera lýsandi titla og á þriðja tug ljósmynda sem eru flestar teknar af höfundi. Það eru þó fáeinar undantekningar þar á og geyma lokablaðsíður bókar bæði mynda- og heimildaskrá. Hún er því bæði fræðileg að útliti og efni en með mjög persónulegu og einlægu ívafi. Bókin hefst bæði og endar á kafla um höfund og dóttur hennar sem rammar efni hennar vel inn.

Sigrún Alba er fædd árið 1973, þriggja barna móðir og menningarfræðingur að mennt en hún hefur einnig lagt stund á sagnfræði og bókmenntafræði. Hún starfar sem dósent við Svið arkitektúrs, hönnunar og myndlistar. Sigrún Alba hefur sent frá sér fjölda bóka og fræðigreina um ljósmyndun og hefur leitast við að tengja saman ólíkar fræðigreinar í rannsóknum sínum, s.s. menningarfræði, heimspeki og listfræði og sömuleiðis að vinna úr hefðbundnum fræðigreinum á skapandi hátt. Þess sér vel stað í bók hennar.

Kaflar bókarinnar Snjóflygsur á næturhimni eru af ýmsu efni og minna um sumt á Albúm eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur enda helst textinn í hendur við ljósmyndir sem eru birtar með nær hverjum kafla og því er tilfinningin áþekk þeirri að fletta myndaalbúmi. Myndirnar eru héðan og þaðan en geyma engu að síður samfellu og styðja við textann þó svo að þær neiti „að láta festa sig í viðjar tungumálsins“ líkt og tekið er til orða á einum stað í bókinni. (bls. 66)

Sigrún Alba fjallar um fyrirbærið sem ljósmyndin er frá mörgum hliðum. Hún geymir ekki aðeins verðmætar minningar um fólk og staði, sem hægt er að orna sér við, heldur er hún mikilvægur miðill listsköpunar og vís með að hafa afgerandi áhrif á hvernig við upplifum heiminn. Sigrún Alba kynnir m.a. til sögunnar afar áhrifaríka myndaröð sænska ljósmyndarans Magnusar Wennman sem ber yfirskriftina Þar sem börnin sofa, eða Dår barnen sover, frá árinu 2015 og segir svo frá henni:

Myndaröðin var leið Wennmans til að varpa ljósi á veruleikann á bak við tölulegar upplýsingar og yfirborðslegar fréttir af flóttamannastraumnum frá Sýrlandi til Evrópu þá um haustið. Magnús myndaði börnin á flótta, sum sofandi úti í ungverskum skógi, önnur liggjandi á gangstétt við umferðargötu í Beirút og enn önnur í flóttamannabúðum á eyjunni Lesbos. (Bls. 63)

 

Sigrún Alba birtir eina af þessum myndum, af litlu barni með grátt teppi yfir sér svo að rétt glittir í efri hluta andlitsins og stór, dökk, óttaslegin augun. Þessi mynd sker í hjartað og leiðir óhjákvæmilega hugann að hörmulegum aðstæðum flóttafólksins sem flutt var í burtu af landinu okkar nú í vikunni, í skjóli nætur, en þar á meðal var maður í hjólastól og tvær unglingsstúlkur sem voru gripnar af lögreglu á leið heim úr skólanum eftir að hafa verið þar við nám á annað ár og í alla staði til fyrirmyndar.

Þá er athyglisverð umfjöllun Sigrúnar Ölbu um tískuhugtakið núvitund en hún færir góð rök fyrir því hvernig kapítalisminn er búinn að markaðsvæða þessa aðferð manneskjunnar til að tengjast sjálfri sér og umhverfinu. Hún bendir á að „vinnustaðir geta séð hag sinn í því að hvetja starfsmenn til að rækta sjálfa sig í þeim tilgangi að auka afköst þegar til lengdar lætur, til að draga úr fjarveru og álagstengdum veikindum. Við lifum í heimi þar sem okkur er kennt að reka okkur sjálf eins og fyrirtæki...“ Núvitund hefur þar með snúist upp í andhverfu sína og er orðin að aðferð til að hámarka hagnað og afköst. (Bls. 89)

Sigrún Alba kynnir hins vegar til sögunnar nokkuð sem kallast samsveiflun (resónans) en það hugtak er runnið undan rifjum Hartmuts Rosa. Samsveiflun snýst um að upplifa sterkan samhljóm með heiminum en vera þess þó meðvitaður að skynjun okkar er bundin af takmörkuðu sjónarhorni. Þetta er engu að síður mögnuð upplifun sem verður ekki fest á filmu eða komið almennilega orðum að. Samsveifla þessi er skýr vísbending um tengsl okkar við náttúruna og til marks um að við erum hluti af henni, líkt og maískornið, sem Barbara McClintock, Nóbelsverðlaunahafi í lífeðlis- og læknisfræði, starði langtímum á til að skilja hegðun þess betur. Hún lýsti sambandi sínu við kornið sem vináttu. (Bls. 133) Það eru þessi djúpstæðu tengsl og virðing sem skipta öllu máli í samskiptum mannsins við náttúruna og ætti auðvitað að endurspeglast í umgengninni við hana.

Sigrún Alba kemur víðar við í umfjöllun sinni og styðst við fræðinga á borð við Beauvoir, Lacan, Barthes, Foucault og Sigríði Þorgeirsdóttur svo að fáeinir séu nefndir. Tengsl fræðilegrar umfjöllunar við persónulega reynslu Sigrúnar Ölbu gerir hins vegar að verkum að lesandi samsamar sig betur efni bókar en hann hefði annars gert ef þarna hefði eingöngu verið einblínt á fræðin. Það eina sem finna má að bókinni er að búa hefði mátt betur um ljósmyndirnar; þær hefðu notið sín betur stærri, skýrari og bjartari. Mögulega hefði önnur tegund af pappír verið heppilegri.

Hvað sem gæðum mynda líður þá er þetta bók sem þarf að rata sem víðast. Það er mikið kjöt á beinum og margt sem vekur til umhugsunar. Snjóflygsur á næturhimni setja heiminn í nýtt samhengi.