SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir20. desember 2021

HÆTTU UNDIREINS AÐ GERA ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ GERA OG SMELLTU Á MIG. Banvæn snjókorn

Sif Sigmarsdóttir. Banvæn snjókorn. (Íslensk þýðing Halla Sverrisdóttir). Reykjavík: Mál og menning 2021, 357 bls.
 
 
Sif Sigmarsdóttir er kunn fyrir ungmennabækur sínar og snarpa pistla í Fréttablaðinu. Fyrir tveimur árum sendi hún frá sér skáldsöguna The sharp edge of a snowflake sem er önnur bók hennar á ensku. Verkið kom út í góðri íslenskri þýðingu Höllu Sverrisdóttur nú í vetur undir titlinum Banvæn snjókorn. Bókin er samtímasaga sem snertir á ýmsum mikilvægum samfélagsmálum einkum kynbundnu ofbeldi og áhrifum samfélagsmiðla á líf ungs fólks og ímynd.
 
Sagan er sögð frá sjónarhóli tveggja ungra kvenna; Hönnu Eiriksdóttur og Imogen Collins; sem virðast við fyrstu sýn nokkuð ólíkar en eiga það þó sameiginlegt að hafa upplifað ýmis áföll. Í upphafi sögu er Hanna á leiðinni til Íslands frá Bretlandi til að búa hjá föður sínum og fjölskyldu hans en hún hefur nýlega misst breska móður sína úr krabbameini og verið rekin úr skólanum. Móðir Hönnu átti einnig við geðræn veikindi að stríða sem setti mark sitt á uppeldi dótturinnar því hún leið fyrir að eiga öðruvísi móður en aðrir. Í sömu mund og Hanna óttast að veikjast á geði stríðir hún við bullandi sektarkennd vegna þess að einum þræði er hún fegin að móðir hennar er öll, að hún þurfi ekki lengur að sinna henni eða skammast sín fyrir veikindi hennar á einn eða annan hátt. Hanna er ekki spennt að flytja til Íslands en það góða við það er þó að hún fær tækifæri til að fara í starfsnám á Dagblaðinu þar sem faðir hennar er ritstjóri, en hún hefur mikinn áhuga á blaðamennsku.
 
Imogen Collins er áhrifavaldur, samfélagsmiðlastjarna og fegurðardís. Hún klæðist fokdýrum merkjavörum, er í flottri vinnu og veður í peningum þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gömul. Fylgjendur hennar á Instagram eru taldir í milljónum en þeir næra egó hennar svo um munar eða eins og segir í bókinni:
 
Það besta við það að slá óvænt í gegn á samfélagsmiðlunum er ekki allt ókeypis dótið. Og það snýst heldur ekki um peningana. Toppurinn er þessi kitlandi ánægjutilfinning sem hríslast um hana þegar hún vaknar á morgnana og sér að annað fólk hefur tekið eftir henni, fylgst með henni, elskar hana. Það er tilfinning sem færir henni meiri orku en nokkur kaffibolli. Og er ekkert minna ávanabindandi. (24)
 
Þótt ímyndin af Imogen kunni að vera heillandi er aðeins um glansmynd að ræða; sjálfsmyndin er brotin og einkalífið í rúst. Hún hefur hrökklast úr háskóla og er ekki í sambandi við fjölskyldu sína. Enginn veit að hún hefur orðið fyrir alvarlegu kynferðislegu ofbeldi af hendi karls sem hún kallar óvættinn.
 
Leiðir stúlknanna liggja saman þegar Hanna fær tækifæri til að taka viðtal við Imogen en fljótlega kemur í ljós að sú síðarnefnda er viðriðin morð og í kjölfarið tekur við æsispennandi rannsókn á því hvað gerðist í raun og veru og upp vakna spurningarnar hver er sekur og hver er saklaus? Ljóst er í það minnsta að ekkert er svart og hvítt.
 
Inn í glæpasagnafléttuna blandast ríkuleg umfjöllun um skuggahliðar netsins – einkum samfélagsmiðla – með hliðsjón af aðalpersónunum tveimur. Áhersla er meðal annars lögð á að draga fram hvernig samfélagsmiðlar birta gjarnan skakka mynd af lífi fólks. Sagt er frá Hönnu og Imogen til skiptis en hver kafli hefst á lýsingu á Instagram mynd persónunnar sem kaflinn tilheyrir. Tekið er fram hvaða filter var notaður á myndina og hversu mörg læk hún fékk. Þá birtist einnig myndatextinn sem fylgdi færslunni en um leið nokkrir aðrir myndatexta-valkostir sem hefðu í raun átt betur við hugarástand og líðan persónunnar en voru ekki „viðeigandi“ því þeir voru ekki nógu „hressir“, „heillandi“ eða „söluvænir“. Þannig er vel deilt á þá ósanngjörnu kröfu sem margir finna fyrir að á samfélagsmiðlum eigi allt að að vera fullkomið í lífi hvers og eins ellegar sé sá hinn sami misheppnaður.
 
Ádeilan á samfélagsmiðla kemur einnig fram í tengslum við starf Imogen. Hún vinnur hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í því að greina áhugasvið fólks á grundvelli ýmissa mælinga í gegnum samfélagsmiðla í þeim tilgangi að selja þeim ákveðinn varning en fram kemur að fyrirtækið svífst einskis og finnst sjálfsagt mál að nýta sér óöryggi og vanlíðan fólks til að græða. Lýsingar á markaðsherferðunum kallast óþægilega á við blákaldan raunveruleikann og minna lesendur því rækilega á að vera gagnrýnir á hvers kyns skilaboð sem netið færir þeim.
 
Banvæn snjókorn er hörkuspennandi bók enda einum þræði glæpasaga í anda Nordic noir um leið og hún er skörp greining á nútíma ungs fólks í hinum vestræna heimi. Sagan er þar af leiðandi kjörin lesning fyrir bæði ungmenni og fullorðna lesendur. Textinn rennur vel, sögufléttan er forvitnileg og persónur fjölbreytilegar. Í ljósi þess að Sif hefur kosið að skrifa nýjustu verkin sín á ensku er það einkar ánægjulegt að þau skuli hafa verið þýdd á íslensku því ekki veitir af að fá fleiri góðar ungmennabókmenntir á íslenskan markað.