Guðrún Steinþórsdóttir∙24. nóvember 2021
BRENNA, BREKKUSÖNGUR OG BRJÁLAÐ FJÖR. Meira pönk - meira fjör
Gerður Kristný Guðjónsdóttir. Meira pönk - meiri hamingja. Reykjavík: Mál og menning 2021, 132 bls.

Iðunn og afi pönk lýsir veröld ellefu ára stelpu í Mosfellsbæ. Atburðarásin hverfist um afa hennar, dularfullt reiðhjólshvarf og grunsamlegar stelpur í hverfinu. Ekki er allt sem sýnist, ekki pönkið heldur. Trú afa á frelsi og umburðalyndi fólks gagnvart sjálfu sér og öðrum, eflir Iðunni og á erindi við lesendur. Gerður Kristný skrifar af leikandi húmor, með skáldlegri hrynjandi og smitandi ást á tungumálinu.

Meira pönk – meiri hamingja er virkilega skemmtileg saga sem gerist í íslenskum samtíma. Kórónuveiran lætur ekki sjá sig (sem betur fer!) annað en lúsmýið sem við erum farin að þekkja alltof vel. „Pönk er hömluleysi og hamingja“ (110) segir í bókinni og er það einnig góð lýsing á verkinu sjálfu enda fjörið allsráðandi og gleðin yfir nýrri og spennandi reynslu aðalpersónunnar ósvikin. Textinn er feikilega vel skrifaður og til þess fallinn að efla orðaforða og lesskilning barna. Gerður Kristný hefur einstakt lag á að skrifa fyndnar samræður og lýsa spaugilegum aðstæðum þannig að ekki er annað hægt en að skella reglulega uppúr við lesturinn. Persónusköpunin er velheppnuð; vinkonurnar eru snjallar stelpur sem geta framkvæmt allt sem þeim dettur í hug og afinn skondin týpa sem eflaust margir kannast við úr eigin nærumhverfi. Þá er það einkar vel til fundið hvernig snúið er upp á ýmsar staðalímyndir og hefðbundin kynjahlutverk. Myndir eftir Halldór Baldursson prýða bókina en þær undirstrika vel húmor sögunnar. „Það er ekki nauðsynlegt að pönk sé með í spilinu til að það sé gaman en það er ekki verra“ (132) eins og saga Gerðar Kristnýjar vitnar sannarlega um. LIFI PÖNKIÐ!