SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir27. desember 2021

LODDARALÍÐAN

Berglind Ósk Bergsdóttir. Loddaralíðan. Reykjavík 2020, bls. 

 
 
 
Loddaralíðan no kvk (e. impostor syndrome)
að finnast maður ekki eins klár og aðrir halda að
maður sé og óttast að það komist upp um mann.
Þessi líðan er viðvarandi þrátt fyrir endurtekinn
árangur.
 
 
 
 
 
 
Loddaralíðan er tilfinning sem margir kannast eflaust við en hún er meginviðfangsefni nýrrar bókar Berglindar Óskar Bergsdóttur, Loddaralíðan, þar sem finna má jafnt hugleiðingar, örsögur og ljóð um efnið. Loddaralíðan er ein af þremur bókum sem kom út á vegum bókaútgáfu Blekfjelagsins nú í haust en hinar eru skáldsagan Haustið 82 eftir Ásdísi Ingólfsdóttur og ungmennabókin Með skuggann á hælunum eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur. Höfundarnir eiga það sameiginlegt að vera núverandi eða útskrifaðir nemar úr ritlist við Háskóla Íslands.
 
Í viðtali á Vísi greinir Berglind Ósk frá því að hún hafi sjálf upplifað loddaralíðan og það hafi haft áhrif á starf hennar. Að hennar sögn virðist loddaralíðan vera algengari meðal kvenna en í viðtalinu ræðir hún meðal annars ástæður þess út frá eigin reynslu:
 
Ein ástæða fyrir því er að um leið og maður er í minnihluta á vinnustað er maður líklegri til að upplifa þessar tilfinningar. Ég kem úr forritun og tölvunarfræði og þar eru konur einmitt í miklum minnihluta. Og þá upplifir maður sig sem maður sé ekki þessi standard týpa og sé ekki nógu klár. Svo eru konur oft með meiri fullkomnunaráráttu og finnast þær þurfa vita allt 110 prósent til að þykjast vita eitthvað en karlmenn kannski bara sjötíu prósent til að geta sagst vita eitthvað. Auðvitað er þetta ekkert algilt og ég hef alveg heyrt í fullt af strákum sem hafa upplifað þetta en þetta er klárlega algengara, dýpra og kannski meira viðvarandi hjá konum.
 
Berglind Ósk hefur víða haldið fyrirlestra um loddaralíðan bæði hérlendis og erlendis en bókin hennar á rætur sínar að rekja í þá. Í upphafi byrjaði verkið sem sjálfshjálparbók en þróaðist síðan í skapandi texta þar sem loddaralíðan er skoðuð út frá mörgum ólíkum sjónarhornum en þannig gefst lesendum færi á að auka skilning sinn og þekkingu á viðfangsefninu. Í bókinni er meðal annars að finna ljóðin „Árangur“ og „Gervimanneskja“ en þau hljóma á þessa leið:
 
 
Árangur
 
Þegar allt gengur vel
 
hlýtur það að vera heppni
ég hitti bara á réttan tíma
hver sem er hefði getað gert þetta
 
því ekki er ég nógu klár
 
 
Gervimanneskja
 
Ég leik ekki tveimur skjöldum
heldur mörgum
 
skreyti mig
með stolnum kvótum
sigli undir
heimasaumuðu flaggi
 
Ég er ekki tvöföld í roðinu
heldur margföld
 
mála mig
með sakleysi
mæli þvert
um hjarta mitt
 
Ég tala ekki tveimur tungum
heldur mörgum