SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir25. október 2021

ÁFÖLL OG ÁFALLASTREITA. PTSD

Ragnheiður Guðmundsdóttir. PTSD. Reykjavík: Bjartur 2021.

 
Það er líkast til óhjákvæmilegt að komast í gegnum lífið án þess að upplifa áföll. Það er þó misjafnt hvernig fólk bregst við áföllum; sumum tekst að aðlagast og takast á við þau en aðrir geta þróað með sér áfallastreituröskun (e. PTSD). Í báðum tilvikum hefur áfallið þó þau áhrif að þolandinn sér sjálfan sig í nýju ljósi og þarf að endurbyggja heiminn að nýju til að geta fellt hann að reynslu sinni. Þá er ekki óalgengt að tiltekið áfall veki upp minningar um eldri áföll ekki síst þegar ekki hefur verið unnið úr þeim eða þau bæld niður. Um slíka reynslu vitna ljóð bókarinnar PTSD ljóð með áfallstreitu eftir Ragnheiði Guðmundsdóttur. Bókin er fyrsta verk Ragnheiðar en eins og kemur fram á bókarkápu brutust fram hjá skáldkonunni gömul áföll, sem hún hafði aldrei unnið úr, eftir að hún greindist með krabbamein. Til þess að skilja betur reynslu sína, erfiðar hugsanir og flóknar tilfinningar tók hún til við að yrkja ljóð og úr varð bókin PTSD ljóð með áfallastreitu. Frá upphafi er því ljóst að ljóðabókin er einskonar sjálfsþerapía, aðferð til að fella erfiða reynslu í orð og öðlast betri skilning á henni.
 
Fyrsta ljóð bókarinnar felur í sér árásarmyndmál rétt eins og titill þess, „hernám”, undirstrikar:
 
 
Þú gerðir innrás í líkama minn
lagðir undir þig hug minn
sundraðir hjarta mínu
reifst niður veggi
og kveiktir í
 
 
Ljóðið miðlar algengu líkingamáli um sjúkdóma; krabbameinið er andstæðingur sjúklingsins og líkaminn orrustuvöllur þar sem sjúkdómurinn etur kappi við einstaklinginn um tiltekin líffæri. Líkinganotkun af þessu tagi vitnar bæði um alvarleika sjúkdómsins og óttann og ógnina sem sjúklingar upplifa gjarnan í kjölfar veikinda. Ljóðið hér að framan dregur auk þess vel fram hvernig varnir ljóðmælandans bresta þegar krabbinn gerir innrás, hvorki hugurinn né hjartað er óhult, yfirráðin eru alger og því ekki að furða að fyrri áföll láti á sér kræla eins og ljóðin í kjölfarið bera með sér. Í bókinni yrkir Ragnheiður um sjúka ást, ofbeldi, skömm og þjáningu; viðfangsefni sem hafa verið miðlæg í opinberri umræðu síðustu ár ekki síst í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar. Með árásarmyndmáli og endurtekningum er gerð góð grein fyrir vanlíðun þolandans um leið og reynt er að efla skilning lesandans á alvarlegum afleiðingum ofbeldis. Þannig minnir ljóðabók Ragnheiðar einum þræði á ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur; Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett; sem fjallar um misheppnað ástarsamband því sá sem ljóðmælandinn elskar er ofbeldismaður.
 
Ljóðmælandi ljóðanna í bók Ragnheiðar þráir gjarnan ást en skaðar einatt sjálfan sig og skapar sér með vali ástvinar ómældan sársauka rétt eins og ljóðið „skilyrðislaus ást“ vitnar um:
 
 
         ég elska þig
ekki hann
 
því máttu særa mig
snerta mig
nota mig
án míns samþykkis
ég mun ekki stoppa þig
 
en ég mun stoppa hann
 
ég mun stoppa þig
 
ég hata þig
ekki hann
 
 
Ljóðið má túlka sem svo að elskhuginn leiki tveimur skjöldum; hann eigi sínar góðu og vondu hliðar sem þó renni saman og verði ekki sundurgreindar; ofbeldið sé ofan á í sambandinu ekki virðingin og umhyggjan. Þar með er ástin sjúk og hættuleg. Ofbeldið í ljóðabókinni er jafnt líkamlegt og sálrænt. Þrátt fyrir að sá hinn elskaði beiti ofbeldi sækir ljóðmælandi í hann en mörg ljóðanna vitna um ástarþrá ljóðmælanda sem veit sjálf að „það er skrýtið, eflaust pínu sjúkt / hvernig ég leyfi þér að særa mig / hvernig ég leyfi þér að leggja mig í rúst / en hika þó ekki við að leita skjóls hjá þér“. Ljóðið „hún segir & hann segir“ tekur vel á stöðu þolanda í ofbeldissambandi. Þar er endurtekningin markvisst notuð til að draga fram ólík sjónarhorn parsins á alvarlega valdbeitingu:
 
 
         hún segir
þú særðir mig
 
hann segir
ég elska þig
 
hún segir
þú lamdir mig
 
hann segir
þú ert ástin mín
 
hún segir
þú hræðir mig
 
hann segir
þú gerir of mikið úr þessu
 
hún segir
ég er blá og marin
 
hann segir
en samt svo falleg
 
hún segir
en ef þú gerir þetta aftur
 
hann segir
nei aldrei aftur
ég lofa
 
 
Með misheppnuðum árangri reynir konan að fá elskhugann til að viðurkenna líkamlega ofbeldið en hann snýr út úr og beitir hana um leið gasljóstrun; hann ruglar í skynjun hennar og upplifun og grefur markvisst undan henni þegar hann segir hana gera of mikið úr barsmíðunum. Viðvarandi gasljóstrun er gott dæmi um tilfinningalegt ofbeldi. Það getur haft þau áhrif að þolandinn fyllist skömm og sektarkennd, hann telji sig aldrei gera neitt rétt og því finnist honum að hann sé einskis virði. Slíka tilfinningalega upplifun má finna í ljóðinu „gölluð vara“ þar sem ljóðmælandi lýsir óþægilega vel líkamlegri vanlíðan, efasemdum um sjálfan sig, nagandi kvíða og hugsunum á þeysispretti eða með öðrum orðum ákveðnum einkennum áfallastreitu:
 
 
                  með hjartað í buxunum
með hita í brjóstinu
andstutt
svitnandi
 
er ég að deyja?
 
af hverju var ég þarna?
af hverju geri ég hitt?
af hverju sagði ég þetta?
á þessum stað?
á þessum tíma?
 
allt er mér að kenna
það segir sig sjálft
því ég er gölluð vara
einskis virði
 
 
Það er algengt bjargræði að fólk bregðist við áföllum með því að þagga þau niður og reyni þannig að ná betri tökum á sársaukanum, óttanum og sektarkenndinni sem tengist oft áfallinu. Þótt þögnin geti verið viss hjálp kann hún einnig að hafa neikvæðar afleiðingar því þegar einstaklingur bælir minningar um erfiða reynslu er hann að einhverju leyti í stríði við sjálfan sig. Það tekur nefnilega mikla orku að halda ákveðnum tilfinningum í skefjum og getur haft ýmis neikvæð áhrif á líkamann og geðið. Um það vitna ljóð Ragnheiðar svo sannarlega; bæði þau sem hér hefur verið vísað í en einnig fleiri í bók hennar. Þegar einstaklingur viðurkennir áfall fyrir sjálfum sér getur hann orðið meðvitaðri um að tiltekin vanlíðan og ákveðnar tilfinningar séu afleiðingar áfallsins og um leið á hann auðveldara með að takast á við hina erfiðu reynslu og láta sér líða betur; eða taka til í sálinni og sópa út neikvæðum hugsunum eins og lagt er til í ljóðinu „tiltekt“. Ljóð Ragnheiðar eru ákveðin tiltekt en áhrif hreinsunarinnar láta ekki á sér standa; lokaljóðið sýnir að ljóðmælandi er búin að ná tökum á lífinu, veit eftir hverju hún sækist í fari maka og er tilbúin að standa með sjálfri sér.
 
 
 
 
Ljóðabókina prýða myndir eftir Bryndísi Björgvinsdóttur en þær magna áhrif ljóðanna sem þær deila með opnu. Myndirnar eru svarthvítar og sýna andlitslausa konu í ýmsum stellingum; sitjandi, liggjandi og hniprandi; og eru þannig í táknrænni andstöðu við kápumyndina sem er í sama stíl en er þó í lit og af uppréttri konu. Kápuna má því túlka á þá leið að eftir að hafa ort ljóð með áfallstreitu og tekist þannig á við óuppgerða fortíð standi skáldið keikt. En andlitslausa konan minnir líka á að ofbeldið, sem ljóðin miðla, og alvarlegar afleiðingar þess þurfa alls ekki að vera bundin við tiltekna manneskju. Því miður er ofbeldi enn alltof algengt í samfélaginu og dæmin sýna að enginn er óhultur. Þar sem að skáldskapur er jafnan talinn hafa meiri áhrif á tilfinningar lesenda en annarslags textar er gott að hafa fengið nýja ljóðabók sem tekur eins hispurslaust á því ömurlega samfélagsmeini sem ofbeldi er; opnar umræðuna enn frekar og eykur vonandi þekkingu og skilning lesenda á áföllum og afleiðingum þeirra.