SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. nóvember 2022

„ÓÞOL FYRIR HEFÐBUNDINNI VERU Í TÍMA“ Um Sápufuglinn eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur

Sápufuglinn er lítil og nett bók sem geymir þrjár smásögur eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur og kom út í sumar sem leið. Þetta er annað verk Maríu Elísabetar en sú fyrri er smásagnasafnið Herbergi í öðrum heimi sem kom út fyrir tveimur árum síðan og fékk góðar viðtökur.

Sápufuglinn er rétt um hundrað síður, í litlu broti og geymir þrjár sögur. Sú fyrsta kallast Til hamingju með afmælið (bls. 7-28), næsta er samnefnd bókartitli, Sápufuglinn, og sömuleiðis lengsta sagan (bls. 29-86) og sú þriðja ber titilinn Dvergurinn með eyrað og er styst sagnanna (bls. 87-103).

Sögurnar þrjár eru hver með sínu sniði en eiga það sammerkt að aðalsögupersónan er kona og eru fyrri sögurnar tvær sagðar í fyrstu persónu en sagan um dverginn er í þriðju persónu. Konurnar eiga það sömuleiðis sameiginlegt að lifa heldur ófullnægjandi kynlfíi; það segir af illa haminni girnd,  sakbitinni eikynhneigð og missi meydóms af eintómri skyldurækni.

Að öðru leyti eru sögurnar sér um efni. Til hamingju með afmælið gerist á djamminu og hverfist um ástarþríhyrning sem hefur að geyma aðalsögupersónuna, sem er kona, og tvo karlmenn. Annar mannanna er vinur hennar og fellur vel að uppskrift flestra tengdamæðra en hinn er fjallmyndarlegur alkóhólisti og spilafíkill, nýkominn úr meðferð. Í þessum samskiptum er konan gerandinn, drifinn áfram af girnd og meðvirkni.

Sápufuglinn er öllu lengri saga og flóknari og geymir dýpri frásögn af samskiptum fólks. Enn víkur sögunni að kynlífi því þó svo að eikynhneigð persóna sé þar í aðalhlutverki er kynlíf ofarlega í huga hennar. Meðvirkni spilar hér einnig stóra rullu ásamt afbrýðisemi og undirgefni. Sápustykki með fuglsmynd kemur nokkuð við sögu en aðalpersónan kemur sér aldrei að því að færa ástvini sínum þessa sápu að gjöf. Sápufuglinn kann að vera táknrænn fyrir viðkvæmt ástarsambandið. Hann er ekki aðeins af forgengilegu efni og brothættur heldur getur hann einnig orðið sleipur og flogið í burtu.

Þriðja sagan, Dvergurinn með eyrað, sker sig nokkuð úr hinum tveimur þar sem hún bregður út af hefðbundnum lögmálum raunsæis. Aðalpersónan er eftir sem áður kvenkyns og kynlíf, eða öllu heldur meydómsmissir, kemur við sögu. Sagan fjallar um konu og formæður hennar sem búa að þeim sérkennilega hæfileika að vera latar og  er sú skýring gefin á dvergvexti aðalpersónunnar að hún hafi verið of löt til að stækka meira. Þetta er húmorísk saga en undirtónninn er harmrænn.

Segja má að konur þær sem eru í forgrunni sagnanna þriggja upplifi „óþol fyrir hefðbundinni veru í tíma“ (bls. 90), líkt og komist er að orði í sögunni um dverginn. Í þeirri sögu koma fyrir ferðalög um tíma og rúm þar sem konan getur losnað úr þessu hylki sínu, sem líkaminn er, og jafnvel öðlast einhvers konar fullnægju í lífinu en það getur einnig farið illa fyrir henni. Það er hvergi á vísan að róa.

Það var enginn byrjendabragur á fyrstu bók Maríu Elísabetar og Sápufuglinn er einnig til marks um fiman og frumlegan penna. Maríu Elísabetu tekst einkar vel að draga upp myndir af forvitnilegu fólki og aðstæðum sem vekja lesandann gjarna til umhugsunar.