SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 9. júlí 2021

SÖGUR AÐ HANDAN - Um smásögur Ingibjargar Elsu

Trúir þú á framhaldslíf? Að tilgangur sé með þessu jarðlífi? Að til sé endurholdgun, karma, eilíft líf? Þá ættir þú að gefa gaum að bók sem ber heitið Smásögur að handan (2017) eftir Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur.
 
Bókin inniheldur 10 smásögur sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um líf handan þessa heims. Höfundur er hugmyndaríkur og mikill húmoristi. Leonardo da Vinci flytur inn í raðhús á Selfossi og kynnust Emblu litlu, eigandi Galdrabókar Sæmundar fróða kynnist ástinni, hinn lífsleiði Drakúla greifi fer til geðlæknis og erkiengillinn Raziel sýnir enga miskunn. Í eilífðinni rætast draumar, kærleikur umlykur allt og "hvert andartak hefur eilífa vídd og við getum komið hingað aftur og aftur af fúsum og frjálsum vilja á hvaða öld sem er" (53). Ingibjörg Elsa virk á samfélagsmiðlum og "heldur uppi heilbrigðu andófi á fésbókarsíðu sinni gegn allskyns skerðingu á almennu tjáningarfrelsi." Hún málaði sjálf dulúðuga mynd á bókarkápu.
 
Aftast í bókinni eru þakkir til Braga Jósefssonar og Guðbergs Bergssonar og Rithrings "því þar hófust smásagnaskrif mín og án Rithringsins hefði ég sennilega aldrei uppgötvað smásöguna sem mitt uppáhalds tjáningarform (113), segir Ingibjörg Elsa að lokum.
 

Tengt efni