SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir14. desember 2020

AÐ VERA EÐA EKKI VERA. Kyrralífsmyndir

Linda Vilhjálmsdóttir. Kyrralífsmyndir. Reykjavík: Mál og menning 2020

 
Snemma í sumar sendi Linda Vilhjálmsdóttir frá sér ljóðabókina Kyrralífsmyndir, sem líklega er fyrsta ljóðabókin sem er innblásin af Covid-faraldrinum.
 
Bókin er í formi nokkurs konar ljóða-dagbókar og skiptist í sjö hluta sem merktir eru með dagsetningum, frá 21. mars til 26. maí. Kaflaskil eru einnig mörkuð með svarthvítum ljósmyndum af fuglum á flugi, hröfnum og mávum.
 
Myndir og texti skapa andstæður í bókinni. Myndirnar sýna allar fugla á flugi, sem kalla má hefðbundið frelsistákn, og eru í andstöðu við myndir ljóðanna af kyrralífi manneskjunnar, sem er niður-njörvuð og staðbundin vegna farsóttarinnar.
 
Myndirnar tók Linda á símann sinn þegar hún fór í göngutúra á tímum fyrstu bylgju Covid-19 en hönnuður bókarinnar, Alexandra Buhl, sá um myndvinnslu og ljær myndunum skemmtilega dulúðugt yfirbragð sem undirstrikar furðulega stemningu síðastliðins vors þegar allir voru varir um sig og jafnvel óttaslegnir:
 
 
 
 
 
renni augunum
yfir gangana milli rekkanna
í nýlenduvörudeild búðarinnar
 
skýst síðan eins og þjófur
með innkaupalista
milli hillnanna
og ryð vörum ofan í körfuna
 
við afgreiðsludaman
horfumst tortryggnar í augu
meðan við metum í huganum
bilið á milli okkar
 
hún með bláa latexhanska
ég með hvíta
 
Lindu tekst vel að draga upp myndir af ástandinu og endurskapa andrúmsloftið sem ríkti á tímum fyrstu bylgju Covid-19; kyrrstöðuna, einmanaleikann, varúðina og tortryggnina. Reglulegir fundir Almannavarna vekja skemmtileg hugrenningartengsl hjá skáldinu sem líkir þeim við trúarathöfn – enda efuðust fáir um orð æðstuprestanna í upphafi:
 
horfi samviskusamlega
á sjónvarpsmessuna
 
kveiki á kerti klukkan tvö
og spenni greipar um sprittklútinn
 
meðan æðstuprestarnir
leiða okkur gegnum farsóttarritúalið
 
reglur um handþvott
samkomubann sóttkví og einangrun
 
tölur um smitaða sjúka og látna
og spána um framhaldslíf mannkyns
 
þótt ástandið fari versnandi
er trúin á samtakamáttinn
vaxandi
 
Varúðin og gætnin nær inn í skáldskapinn sjálfan og ljóðskáldið sjálft fer með að öllu með gát þótt það finni hjá sér þörf fyrir að tjá sig og skapa:
 
eitt
eilífðar smáljóð
 
í hæfilegri fjarlægð
sem snertir mannsbörnin
 
samt
 
Og við könnumst við þessa rödd ljóðskáldsins, Lindu Vilhjálmsdóttur, ekki síst í smámyndum á borð við þetta ljóð:
 
 
eftir hlé
væri réttlátt
að við fengjum að rísa upp
 
saman
í jafnrétti og frelsi
 
 
En öllu má venjast, þótt illt sé, eins og kemur fram í eftirfarandi ljóði:
 
furðulegt
að finna það á eigin skinni hversu
fljótt mannskepnan
lagar sig að viðvarandi streitu
 
hversu fljótt
sjokkið vegna slæmra frétta
dofnar og deyr út
 
hversu fljótt
tölur um smitaða og sjúka
verða hversdagsleg tíðindi
 
hversu fljótt
farið er að meta mannskaða
eftir skyldleika
 
Hér hefur verið áréttað að Kyrralífsmyndir eru ljóð sem verða til í fyrstu bylgju Covid-19 og bókin kom út áður en ferðasumarið mikla skall á þegar Íslendingar fóru að ferðast innanlands svo um munaði. Líkt og meginpartur þjóðarinnar gerði á þeim tíma virðist ljóðmælandinn hafa trúa því að þegar fyrsta bylgja rynni sitt skeið værum við sloppin fyrir vind:
 
eins víst að við
sem sluppum með skrekkinn
minnumst þess alla okkar tíð
 
hvernig blóðið varð heitara
og loftið tærara í samkomubanninu
á tímum kórónuveirunnar
 
og eins víst að
um þessa vá verði samin
angurvær sönglög sem óma
 
í eyrum
komandi kynslóða
meðan heimurinn endist þeim
 
En við sem höfum þurft að þreyja aðra bylgju og þriðju bylgju og munum líklega þurfa að þreyja fjórðu bylgju, meðan við bíðum bólusetningarinnar miklu, ættum að taka undir með ljóðmælanda Kyrralífsmynda og kyrja saman:
 
að vera
eða vera ekki
 
staðföst
eða staðfastur
 
það er málið