HVARF BÝFLUGNA OG FJÖLSKYLDUHARMLEIKIR – um Sögu býflugnanna eftir Maju Lunde
Saga býflugnanna eftir Maju Lunde kom út árið 2015 í Noregi og heitir á frummálinu Bienes historie. Sagan vann Norsku bóksalaverðlaunin og hefur vakið mikla athygli. Hún kom út árið 2020 í íslenskri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og hefur verið þýdd á fjölda annarra tungumála.
Maja Lunde er fædd árið 1975 og hefur skrifað barnabækur, skáldsögur og sjónvarpshandrit. Undanfarin ár hefur hún einbeitt sér að skrifum sem heyra undir svonefndar loftslagsbókmenntir, eða cli-fi eins og það er nefnt á útlensku. Maja hefur unnið að fjórleik í þessum anda og eru þrjár þeirra komnar út. Fyrrnefnd Bienes historie kom út árið 2015, sagan Blå árið 2017, og 2019 í íslenskri þýðingu, en þar stendur mannkynið frammi fyrir vatnsskorti og þurrkum. Árið 2019 kom út Przevalskis hest sem hverfist um villta hestategund sem er í útrýmingarhættu og í fyrra sendi Maja frá sér lokahnykkinn Drømmen om et tre sem gerist árið 2110 og fjallar um fágætt safn fræja sem getur skipt sköpum fyrir mannkynið.
Í Sögu býflugnanna fer þrennum sögum fram. Við fylgjumst með William sem er enskur bóndi um miðja 19. öld en hann stríðir við mikið þunglyndi. Honum tekst þó að rífa sig upp úr þessu ástandi um stund þegar hann telur sig hafa fundið nýja leið til að hanna býflugnabú sem skiptir sköpum fyrir gæði hunangsframleiðslunnar. Hann ræðst í þetta ekki hvað síst til að ganga í augum á lærimeistara sínum en látið er að því liggja að William beri aðrar og sterkari tilfinningar til hans en þykir sæma á þessum tíma sem kann að eiga þátt í þunglyndinu sem hrjáir hann.
Í annarri sögunni erum við stödd árið 2007 og segir þar af afkomanda Williams, býflugnabóndanum George, sem býr í Bandaríkjunum. Reksturinn hefur gengið mann fram að manni en sonur George, og einkabarn, er með aðrar hugmyndir um framtíðina sem fær mjög á George. Lífið á bænum gengur þó Í fyrstu sinn vanagang og býflugurnar sinna sínu en síðan fer að halla undan fæti. George fær fregnir af hvarfi býflugna hjá öðrum ræktendum og verður síðan fyrir því áfalli sjálfur. Hann þráast þó við en af frásögn þriðju sögunnar má vera ljóst að það sé til lítils.
Í þriðju sögunni erum við komin til framtíðar; árið er 2098 og sögusviðið er Kína. Þar fylgjumst við með Tao sem starfar ásamt fjölda annarra við að handfrjóvga ávaxtatré því allar býflugur eru horfnar. Vegna þessa er mikill skortur í landinu og fólkið líður fyrir það. Auk þessa verður Tao fyrir miklum missi sem fær hana til að halda af stað til að grennslast fyrir um hvað veldur. Ferðalag hennar verður síðan til þess að hún kemur höndum yfir bók Williams sem veitir upplýsingar um ástæðuna fyrir hvarfi býflugnanna.
Saga býflugnanna eftir Maju Lunde á stórt erindi í loftslagsumræðu nútímans. Sagan greinir frá því hvernig manneskjan gengur á líf og tilurð býflugnanna, þröngvar þær úr sínu náttúrulega umhverfi og í þjónustu sína með tilheyrandi afleiðingum. Þarna er mikilvægum boðskap og fróðleik fléttað laglega saman við áhugaverða frásögn af lífi og örlögum þessara fjölskyldna sem grípur vel lesandann og heldur honum allt til loka. Að vísu mætti segja að dramatíkin og drunginn í lífi þessa fólks sé helst til mikill en blessunarlega geymir sagan einnig von, von um betri heim.
Myndin er fengin af vefsíðunni: Books from Norway