SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir24. október 2020

MÝLD AF SIÐMENNINGUNNI. Innræti

Arndís Þórarinsdóttir. Innræti. Reykjavík: Mál og menning

Það þykir ekki pent

að tala um allt hið frumstæða

sem ryðst inn í siðmenntað líf okkar

Þannig hljómar upphafið að ljóðinu KÓSÝ í nýrri bók Arndísar Þórarinsdóttur, sem er jafnframt hennar fyrsta ljóðabók og ber titilinn Innræti.

Titilinn er einstaklega vel til fundinn því ljóðin fjalla flest á einn eða annan hátt um reynslu, tilfinningar og hugsanir kvenkyns ljóðmælanda sem opinberar innræti sitt og lætur stundum skína inn í kviku. Arndís yrkir um ýmislegt sem sjaldan er borið á borð fyrir aðra, því það "þykir ekki pent" eða á rætur í "frumstæðum" tilfinningum og hvötum. Ljóðmælandinn tjáir það sem við látum oftast ósagt eða er haldið tilbaka að reglum samfélagsins, heft eða mýlt "af siðmenningunni":

 

 

Mig langar að spangóla

Sökkva tönnunum í skínandi holdið

lita föla ásjónu hennar blóði

Mig langar að ýlfra

en geri það ekki

(úr ljóðinu "Eðlið")

Arndís sækir yrkisefni sitt ýmist til hversdagslegrar reynslu eða drauma, orðfærið er hnitmiðað og oftar en ekki merkt kaldhæðni og húmor, myndlíkingar notaðar sparlega. Engu að síður tekst henni oft að draga upp sterkar myndir, líkt og í ljóðinu

NEÐANSJÁVAR:

Mér er sagt

að stærsta ókannaða ævintýri jarðarinnar

séu undirdjúpin

Langt fyrir neðan öldutoppana

eru dalir, fossar, fjöll

og framandi skepnur

Hafið sleikir barnstær

á sólgylltri strönd

sem við flugum fjögur þúsund kílómetra til þess að heimsækja

okkur til geðbótar í svartasta skammdeginu

Hafið sleikti barnstær þínar

og það nálgast

Mörg ljóðanna lýsa reynslu konu af ólíkum hlutverkum sínum, hún er móðir, þótt það sé henni kannski ekki eðlislægt, og eiginkona sem verður að standa sig á mörgum sviðum - og beitir til þess ýmsum ráðum:

Það er léttir að smokra sér í aðhaldskjólinn

Andardrátturinn verður grynnri

og þrýstingurinn hjálpar mér að muna

hvar skilin milli sjálfrar mín og heimsins liggja

(úr ljóðinu "Morgunsiðir sem ég segi engum frá")

Þessi kona, sem er föst í taumhaldi siðmenningarinnar, þráir ef til vill að taka sér pláss, hegða sér illa og kunna ekki að skammast sín. Hún lætur þó ekki oft undan slíkum þrám þótt hún leyfi lesandanum að rannsaka innræti sitt og fari stundum yfir mörkin.

Innræti er athyglisverð ljóðabók sem enginn byrjendabragur er á - enda Arndís reyndur höfundur þótt bókin sé frumraun hennar á sviði ljóðlistar.