SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. júlí 2019

FORVITNILEG FRUMRAUN

Á vordögum kom út bókin Einsamræður eftir Birtu Þórhallsdóttur. Bókaforlagið Skriða gaf bókina út en það er tiltölulega nýstofnað forlag á Hvammstanga í eigu fyrrnefndrar Birtu og dregur nafn sitt af ketti hennar Skriðu sem jafnframt er útgáfustjórinn. Einsamræður er önnur tveggja bóka sem koma fyrstar út undir merkjum forlagsins og var haldinn veglegur útgáfufagnaður í Menningarsetrinu í Holti í byrjun apríl.

Ritlist og Nýræktarstyrkur

Einsamræður er fyrsta bók Birtu en efni hennar á rætur sínar að rekja til meistaranáms hennar í ritlist og ennfremur hlaut Birta Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir handritið. Bókin er í nettu broti og stílhrein enda eiga bækur forlagsins, að sögn Birtu, að minna á skissubækur „sem skuli vísa til ákveðins hráleika innihaldsins.“ Bókin telur 63 blaðsíður og geymir 21 örsögu, en þar af er ein í fimm köflum, og eina teikningu eftir Birtu og Sebastian Lozano.

Fylgst með fólki

Sögurnar eru af ýmsu efni, sumar sprottnar úr íslenskum veruleika, aðrar meira framandi. Þá er húmorinn jafnan skammt undan. Sérstaklega skemmtileg er sagan Minniskompan – Til Ástríðar en þar fer sögumaður á kaffihús og ritar hugrenningar sínar um annað fólk í minniskompu sína. Sögumaðurinn veitir eldri manni athygli en sá er einnig með minniskompu og skrifar í hana. Lesandinn fær á tilfinninguna að þessi eldri maður sé jafn mikið að fylgjast með sögumanni eins og sögumaður með honum, svo að lítið beri á: „Ég saup á kaffinu og þóttist vera að skrifa eitthvað niður í minniskompuna mína. Maðurinn leit annað slagið íbyggilega upp úr sinni minniskompu en aldrei í áttina til mín.“ (17)

Vatnsheld selskinnskoffort

Í sögunum eru dregnar upp skemmtilegar og frjóar myndir af hvunndeginum og sumar hverjar eru sveipaðar þjóðsagna- og ævintýrablæ. Í einni sögunni undir lok bókar er stafsetningin fyrnd til að skapa tilfinningu fyrir löngu liðnum atburði og verður frásögnin einnig kómískari fyrir vikið, líkt og sjá má í þessu sögubroti:

Velta

I

Einnisinni var jeg, sem optar, á ferð með sitthvað af bögglum, umslögum og mikilvægum brjefum, voru sum geymd í vatnsheldum selskinnskoffortum en önnur í kofforti úr furu. Var jeg á leið yfir vötnin, en á vorin, er ísa leysir, verða þar opt og tíðum afskaplegir vatnavextir. Ekki treysti ég mjer yfir árnar með klárana og koffortin vegna straumsins, heldur hugðist aptur snúa. Var mjer þó nær skapi að halda ferðinni áfram, afrjeð því að taka upp nesti og hugsa málið örskamma stund, áður en jeg yrði frá að hverfa, enda hafði jeg ekki matast um daginn. Nú er það skjótast að segja, að til hugar kom mjer að losa ferðakoffortin af klárunum og koma okkur þannig yfir. Reið jeg hestunum yfir ána og ætlaði að draga koffortin með kaðli, hvert fyrir sig. . . (brot, 52)

Bók Birtu hefur útlit skissubókar en hér eru engar skissur á ferð heldur úthugsaður texti sem varpar óvæntu ljósi á hvunndaginn. Hér er athugull sögumaður á ferð um ýmsa áhugaverða kima mannlífsins og á erindi. Bókin er afar fróðleg frumraun og er þess vonandi ekki langt að bíða að önnur bók rati úr smiðju Birtu.