SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir18. desember 2022

BÓKIN ER SMÁ EN SAGAN STÓR - um Staðinn eftir Annie Ernaux

Staðurinn eftir Annie Ernaux í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur hlaut Verðlaun bóksala fyrir skemmstu og lenti þar í þriðja sæti í flokki þýddra skáldverka. Rut er einna þekktust fyrir fiðluleik sinn en samfara tónlistarleik um áratuga skeið hefur hún lokið BA-prófi í frönsku og MA-prófi í þýðingafræðum frá Háskóla Íslands.

Staðurinn heitir La place á frummálinu og kom út í Frakklandi árið 1983. Höfundurinn, Annie Ernaux, er fædd árið 1940 og hefur sent frá sér á þriðja tug verka. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og bera þar hæst Nóbelsverðlaunin sem komu í hennar hlut í ár.

Annie hefur þróað ákveðið frásagnarform sem er einhvers konar sambland af sjálfsævisögulegri og samfélagslegri nálgun eða það sem kallast á ensku „autosocialbiography“. Staðurinn ber þessu vitni því ásamt því að hverfast um föður hennar, og samskipti þeirra feðgina, varpar sagan skýru ljósi á vel inngróna stéttavitund sem gerir að verkum að sagan hefur mun breiðari skírskotun en ella. Þá er jafnframt stíllinn í senn nærgætinn og ópersónulegur, líkt og sambland af dagbókarfærslum og skýrslu sem hæfir vel efninu.

Það mætti kalla Staðinn nóvellu þar sem hún er einungis 107 síður og auk þess í frekar litlu broti. En þó að bókin sé smá er sagan stór. Annie segir frá því hvernig hún þokast upp um stétt með menntun sinni en hún lærir heimspeki og bókmenntir og lýkur síðan kennaraprófi. Eftir því sem hún verður menntaðri því meira vex gjáin milli hennar og ómenntaðra foreldra hennar. Menntunarleysinu fylgir mikil skömm og til marks um það þagði faðir hennar jafnan í „viðurvist fólks sem talaði gott mál“ (bls. 58)

Faðirinn breytist í augum Annie þegar hún er farin að gefa sig að „alvöru“ bókmenntum. Hann lendir í „flokknum blátt áfram fólk eða fábrotið eða vænt fólk. Hann þorði ekki lengur að segja mér sögur úr æsku sinni. Ég talaði ekki lengur við hann um námið.“ (bls. 74) Annie reynir að reisa brú milli sín og foreldra sinna, færa þá nær sínum nýja veruleika, en hún er ein um að breytast:

Í fjarska hafði ég hreinsað foreldra mína af hreyfingum þeirra og talsmáta, glæsilegt fólk. Ég heyrði aftur hvernig þau sögðu „hon“ í staðinn fyrir „hún“, töluðu hátt. Þau voru eins og þau höfðu alltaf verið, vantaði þá „hófsemi“ í framkomu, rétta tungutakið sem fyrir mér var núna eðlilegt. Mér fannst ég vera aðskilin frá sjálfri mér. (bls. 93)

 

Arfleifð Annie er stétt bænda og verkamanna en með menntun sinni þarf hún að segja skilið við hana, líkt og hún greinir frá undir lok bókar: „Ég hef lokið við [að] bregða birtu á þá arfleifð sem ég varð að leggja frá mér við þröskuld borgaralega og menntaða heimsins þegar ég gekk þar inn.“ (bls. 104)

Í Staðnum er haganlega fléttað saman nærfærinni frásögn af því hvernig samband Annie við föðurinn trosnar sem á líður menntun hennar, togstreitu hennar á mörkum tveggja stétta og ádeilu á afar skýra og óbilgjarna stéttskiptingu. Þetta er vel gert og áhrifaríkt.