SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. desember 2022

FÍKNIR OG FLÁTTSKAPUR – um Tálsýn og Fíkn eftir Rannveigu Borg

Tálsýn eftir Rannveigu Borg kom út nýlega og er önnur bók Rannveigar. Sú fyrri heitir Fíkn, kom út í fyrra og hlaut talsverða athygli einkum fyrir að vera í djarfari kantinum. Báðar bækurnar hverfast um ýmiss konar fíknir enda er það mikið áhugamál Rannveigar sem hefur lagt stund á meistaranám í fíknifræðum við King‘s College í London.

Sagan Fíkn stendur vel undir nafni og fjallar bæði um kynlífsfíkn og eiturlyfjafíkn. Í forgrunni er mikil kynlífsveisla og neysla og segir þar af eldheitu ástarsambandi Ellerts og Freyju en jafnan er grunnt á óheiðarleika og vantrausti. Tálsýn segir af framakonunni Önnu sem starfar í alþjóðlegum fjárfestingabanka og er titillinn einnig lýsandi fyrir innihaldið, því þar er fátt sem sýnist. Þá kemur fíkn einnig mjög við sögu, bæði áfengisneysla og átröskunin lotugræðgi. Þar er einnig grunnt á óheilindum enda hverfist sagan um blekkingar og lygar.

Hún er skemmtileg tengingin milli bókanna því að í Tálsýn kemur snemma fyrir brot úr Fíkn og Ellert og Freyja eru nefnd til sögunnar undir lok bókar. Báðar bækurnar eru einnig áþekkar; þær eru sögur um fíknir þó svo að hún sé meiri fyrirferðin á henni í Fíkn, sem verður að vísu stundum dálítið eintóna. Tálsýn er öllu flóknari frásögn. Þar kemur einnig við sögu kynferðislegt áreiti yfirmanna í þessum heimi fjármála, viðskipta og ekki síst karla, sem konur á framabraut eiga erfitt með að verjast. Sagan er spennandi en helst til endaslepp.

Það sem er verulega eftirtektarvert er hversu vel og trúverðuglega er fjallað um fíknir. Það er ljóst að höfundur hefur afar góða innsýn í heim fíkna af ýmsum toga. Rannveig segir í viðtali við DV að sjálf hafi hún barist við átröskun sem ung kona og það hafi haft mikil áhrif á hana. Hún þekki því stjórnleysið og því miður sé það svo að oft þurfi þau sem stríði við einhvers konar fíknisjúkdóm að mæta fordómum í samfélaginu. Rannveig segist vilja opna umræðuna; „skrifa bækur sem eru áhugaverðar og spennandi en kannski pínulítið fræðandi án þess að verða fræðirit eða þungar í lestri.“ Og það hefur henni tekist.