SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir14. nóvember 2016

AF MANNA VÖLDUM: TILBRIGÐI UM STEF

Álfrún Gunnlaugsdóttir. Af manna völdum: Tilbrigði um stef. Mál og menning 1982

Undirtitill bókarinnar AF MANNA VÖLDUM er: „Tilbrigði um stef.“ Bókin er samsett af 9 þáttum, sem allir eru byggðir upp í kringum sama stefið, valdbeitingu af einhverju tagi. Valdbeitingu einstaklings gagnvart öðrum einstaklingi. Valdbeitingu í skjóli hervalds, í skjóli húsbóndavalds o. s. frv. Ef frá er talið þetta stef, má segja að lítið annað sé sameiginlegt þessum 9 þáttum. f hverjum þætti kemur fram nýtt sögusvíð og nýjar persónur. Til að gefa nokkra hugmynd um þetta má nefna að sögusviðið er ýmist ísland, Spánn, Frakkland, Sviss eða jafnvel Túnis. En það er ekki einungis sögusvið og persónur sem taka breytingum, heldur og frásagnartæknin. Það er, að mínu mati, einn sterkasti punktur bókarinnar hve mikið vald Álfrún hefur á ólíkum frásagnarháttum. Innan hvers þáttar er oft og iðulega skipt um sögusvið og farið fram og aftur í tíma. Þannig er frásögnin brotin upp og lesandanum gert að raða brotunum saman í heilsteypta sögu. Þetta má sjá í t. d. II., V. og VII. þætti.

Með þessu er Álfrún kannski að reyna að líkja eftir lífinu eða eins og segir í bókinni: Á öllum frásögnum er skipulag; ákveðin tengsl milli persóna og viss samræming í atburðarás. Þessu er öðruvísi farið í lífinu. Minningarnar eru gloppóttar, sjaldan nema smábrot, skyndimyndir á stangli (109). Annar frásagnarháttur kemur fram í I. þætti. Þar gengur frásögnin í hring þannig að fyrsta setningin er beint framhald af þeirri síðustu. Sú frásögn er líka í beinni samfellu. Enn eitt dæmi um frásagnarhátt er VIII. þáttur. Þar er byggð upp spenna með því að tala um „það“ og „þetta“ án þess að gefið sé upp um hvað verið sé að ræða, fyrr en seint í frásögninni.

Annar sterkur punktur bókarinnar er stíllinn. Hann er einfaldur og knappur. Stuttar, hnitmiðaðar aðalsetningar og engar málalengingar. Aldrei er um ágengni sögumanns að ræða, heldur þvert á móti er lesandanum gert að lesa milli línanna og fylla út í eyðurnar sem felast í stílnum. Þessi stílnotkun getur verkað mjög sterkt á lesandann, eins og til dæmis í I. þætti:

 

Það var kippt í handlegginn á henni.
Byssan.
Hann ætlaði ábyggilega að skjóta.
Hún hljóp.
Kannski var hann á hælunum á þeim.
Hún datt.
Sterk hönd togaði hana á fætur.
Byssan“ (14).

 

Ekki eru notuð nein lýsingarorð til að lýsa ótta stúlkunnar við hermanninn, í þessum kafla. En hann kemst engu að síður vel til skila.

Sífellt er skipt um sjónarhól í frásögnunum. Fyrir kemur til dæmis sjónarhóll ungrar stúlku, sjónarhóll reynds föðurs og oftar en einu sinni er um sjónarhól barna að ræða. Vel væri hægt að tala um kvenlegan sjónarhól í mörgum tilvikum. Til dæmis í I. þætti þar sem lýst er óskilgreindum ótta við hermanninn. Eða í VI. þætti þar sem lýst er á nærfærinn hátt ólíkum flótta nokkurra kvenna frá raunveruleikanum. Eða þegar lýst er nánu vináttusambandi kvenna eins og í II. og IX. þætti.

Viðfangsefni Álfrúnar eru hverjum manni viðkomandi. En þótt svo sé má næsta undarlegt heita að þau séu nýjung í íslenskum skáldskap. Það felst kannski í því að Álfrún hefur sig upp úr því sem kalla mætti íslenskan raunveruleika og gefur þannig sögunum víðtækara gildi. Hingað til hafa aðalviðfangsefni íslenskra rithöfunda nútímans, verið svokallaður íslenskur raunveruleiki. Álfrún hefur djúpa samúð með börnum og fullorðnum sem eiga við erfiðleika að glíma. En hvers konar valdbeiting er henni á móti skapi. Þessi fyrsta, en vonandi ekki síðasta, bók hennar er uppbyggð á mörgum sterkum punktum, s. s. viðfangsefni, stíl og frásagnartækni, sem saman mynda að mínu mati, eina sérstæðustu og athyglisverðustu bók sem komið hefur út nú á seinni tímum.

Ritdómurinn birtist fyrst í Veru, 1. árg., 3. tbl. 1982, bls. 37.