SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir28. febrúar 2023

ÞÚ VERÐUR EKKI SÖM: Dagbók góðrar grannkonu eftir Doris Lessing

Doris Lessing. Dagbók góðrar grannkonu. (Þuríður Baxter þýddi). Forlagið. 1988, 296 bls.

Dagbók góðrar grannkonu er skáldsaga eftir Nóbelsverðlaunaskáldið Doris Lessing. The Diary of a Good Neighbour kom út í Bretlandi árið 1983 og í stórgóðri þýðingu Þuríðar Baxter árið 1988. Árið 1984 kom út framhaldið If the Old Could en Lessing gaf báðar sögurnar út undir dulnefninu Jane Somers. Síðan hafa sögurnar verið gefnar út undir nafni Lessing með titlinum The Diaries of Jane Somers.

Doris Lessing fæddist 22. október árið 1919 og dó 17. nóvember árið 2013. Hún átti breska foreldra en þau dvöldu lengst af í enskri nýlendu í sunnanverðri Afríku. Árið 1949 flutti hún til Englands og hafði þá með sér handritið af The Grass is Singing í farteskinu sem kom út árið 1950 og hlaut góðar viðtökur. Þetta var upphafið af glæsilegum ferli Lessing á ritvellinum sem leiddi til fjölda verðlauna en þar bera hæst Nóbelsverðlaunin árið 2007.

Í rök­stuðningi sænsku aka­demí­unn­ar seg­ir að Less­ing sé skáld hinn­ar kven­legu reynslu og ber Dagbók góðrar grannkonu því sannarlega vitni. Þar fæst dágóð innsýn í heim kvenna og er vart svo að karlar komi við sögu.

Sögusviðið er London og aðalsögupersónan er Jane Somers. Hún er millistéttarkona á miðjum aldri og í góðu starfi við útgáfu kvennatímarits. Vinnan hefur alltaf skipað stærstan sess í lífi hennar og jafnvel svo að hún hefur varla haft tíma fyrir eiginmann sinn og móður en bæði eru látin. Í hennar glansheimi rúmast hvorki veikindi né dauði; slíkt vekur hjá henni ótta og ímugust: ,,Ég hugsaði: Kemur röðin næst að mér? […] Ég þoli ekki að horfa upp á fólk sem er mikið veikt. Ég afber það ekki.“ (bls. 8)

Einn daginn tekur líf Jane Somers stakkaskiptum. Hún hittir „gamla norn“ sem henni geðjast að á einhvern undarlegan hátt: „Logandi, blá augu undir gráum, úfnum augabrúnum, en eitthvað dásamlega fallegt í þeim.“ (bls. 13) Jane laðast að gömlu konunni, sem heitir Maudie Fowler og býr í sama hverfi. Hún hjálpar henni heim og þá verður ekki aftur snúið, það myndast einhver undarleg tengsl milli hennar og gömlu konunnar. Þegar Jane kemur inn á heimili Maudie verður henni mjög bylt við: „Ég hef aldrei séð annað eins nema þá á myndum í myndasafninu okkar af örbirgð og neyð, húsum sem á að rífa og þess háttar.“ (bls. 15) Þarna er allt gamalt og úr sér gengið, óheyrilega skítugt og loftið er daunillt.

Það er heldur ekkert dregið undan í lýsingum á aðstæðum og aðbúnaði gömlu konunnar sem stappa stundum nærri því að vera gróteskar þegar klósettferðum og úrgangi er lýst af talsverðri nákvæmni. Það kemur m.a. í hlut Jane að tæma koppinn „fullan af sterku og illa þefjandi þvagi“ (bls. 42) og hjálpa gömlu konunni að þrífa sig: „Nærbuxurnar útbíaðar. . . […] mér verður óglatt. En ég var að horfa á nærbolinn og undirpilsin sem hún var búin að klæða sig úr, og þau voru brún og gul af skít.“ (bls.60) Þessar lýsingar gera frásögnina raunsannarri en ella, vekja samúð með gömlu konunni og auðvelda lesandanum að upplifa þessar hryllilegu aðstæður.

Þrátt fyrir að Jane sé flökurt eftir veru sína hjá Maudie fer hún að venja komur sínar þangað og þær tengjast vináttuböndum. Fólk á þó erfitt með að trúa því og telur víst að hún sé „Góð grannkona“, þ.e. að hún hafi það að starfi að heimsækja gamalt og einmana fólk. Svo er þó ekki því Jane sækir í gömlu konuna og fer að finna til ábyrgðar gagnvart henni. Þessar heimsóknir vekja hjá henni margar tilfinningar því Maudie getur verið æði erfið, hún er reið og stolt, og á bágt með að þiggja aðstoð sem hún þó þarfnast. Þessi samskipti kvennanna eru skrifuð af fádæma næmi og djúpum mannskilningi. Það er auðvelt að hrífast með og skilja þær blendnu tilfinningar sem bærast með Jane sem langar stundum að kyrkja gömlu konuna þó svo að henni þyki afar vænt um hana.

Í samskiptum þessara ólíku kvenna rekast saman tveir afar ólíkir heimar sem gerir samanburðinn skýrari en ella. Fram að þeirra kynnum veitti Jane þessum gömlu konum enga athygli enda áminning um elli, varnarleysi og sjúkdóma sem hún vill helst ekkert vita af. Þá er ennfremur dreginn fram skýr stéttamunur því Jane er dæmigerð millistéttarkona en Maudie tilheyrir lágstétt og hefur alla tíð þurft að heyja erfiða lífsbaráttu.

Þessar konur eiga fátt sameiginlegt og því hlýtur lesandinn að spyrja sig hvers vegna Jane sæki svona mikið í Maudie. Möguleg skýring er sú að Jane sé stödd á ákveðnum tímamótum í lífi sínu; ellin bíður álengdar með öllu því sem henni fylgir. Hún sýtir að hafa ekki sinnt betur eiginmanni og móður á sjúkrabeði og virðist vera að gera nokkurs konar yfirbót með því að sinna gömlu konunni. Hún er loks að taka einhverja ábyrgð og sýna samhygð. Lífinu fylgir sársauki sem Jane er hætt að flýja. Dagbókin er því eins konar þroskasaga miðaldra konu.

Dagbók góðrar grannkonu veitir góða innsýn í stétta- og misskiptingu. Sjónum er einkum beint að þeim sem verst standa, fátækum og einmana gamalmennum sem fáir hirða um. Sagan gerir einnig skil heimi kvenna en ljóst er að það eru konur sem halda öllu gangandi; hvort sem skyggnst er inn á heimilin, vinnustað Jane eða sjúkrahúsin. Völdin eru þó karlanna og samfélagsskipanin gerir ráð fyrir að konan axli hlutverk sitt sem eiginkona og móðir..

Sagan stenst vel tímans tönn og er óhætt að segja að það sé miður. Þó margt hafi tekið breytingum síðan þá er enn mikil misskipting og misrétti í heiminum sem birtist m.a. i stéttaskiptingu og ójafnrétti kynjanna. Doris Lessing dregur upp afar skýra og eftirminnilega mynd af þessum rangindum og gerir innsæi hennar og næmi að verkum að sagan nær viðlíka tökum á lesandanum og Maudie náði á Jane. Þú verður aldrei aftur söm.