SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. maí 2021

ENN Á FORTÍÐIN ERINDI VIÐ OKKUR. Skáldkona gengur laus

Guðrún Ingólfsdóttir. Skáldkona gengur laus. Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn. Reykjavík: Bjartur 2021, 426 bls.
 
 
Guðrún Ingólfsdóttir á skemmtilegasta bókatitil ársins: Skáldkona gengur laus. Í þessu fræðiriti, sem hefur undirtitilinn Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn, hleypir hún fjórum skáldkonum frá nítjándu öld lausum úr handritadeild Landsbókasafnsins þar sem skáldskapur þeirra hefur verið varðveittur í handritum. Skáldkonurnar eru Guðrún Þórðardóttir frá Valshamri (1816/17-1896), Kristín Guðmundsdóttir (1859-1901), Sigríður Andrésdóttir (1788-1866) og Kristrún Jónsdóttir (1806-1881). Þrjár þær fyrstnefndu voru konur af alþýðustétt en sú síðastnefnda tilheyrði efri lögum samfélagsins.
 
Auk þess að fjalla um skáldskap ofan nefndra kvenna hefur bókin að geyma kafla þar sem Guðrún kannar hugmyndir um yrkisefni og fagurfræði á víðara sviði um leið og hún tengir það kvæðum kvennanna. Í öðrum kafla er til að mynda fjallað um snillings- og hetjuhugmyndina og spurt hvort konur geti fallið að slíkum hugmyndum. Guðrún sýnir fram á að nafna hennar frá Valshamri endurskoði hugmyndir um hlutverk kvenna og sýni á þeim nýja hlið: „Í kvæðum Guðrúnar sýndu kvenhetjurnar nefnilega af sér sama æðruleysi og hugrekki og karlhetjur sagnanna. Hún leggur líf þeirra að jöfnu“ (99). Mjög áhugaverð er umfjöllun um kvennakvæði Guðrúnar frá Valshamri þar sem hún yrkir um hetjur íslenskra miðaldabókmennta; „segir sögu kvenna án þess að hinn langi skuggi frá sögu karla gleypi þær“ (130).
 
Þriðji kaflinn ber yfirskriftina „Náttúra – rými – skáldatími“ og þar er dregið fram hvernig Guðrún frá Valshamri sótti frjómagn til náttúrunnar sem var henni óþrjótandi uppspretta, sérstaklega vorið og sumarið. Náttúra og sköpun eru óaðskiljanleg heild og höfundur greinir nokkur kvæði Guðrúnar og skrifar:
 
Í Kveðið út af draum veitir Guðrún okkur magnaða innsýn í sköpunarferlið. Hvernig karlleg og kvenleg öfl í náttúrunni, ljós, myrkur og frjómagn, brjótast um í sálinni en sameinast að lokum í upprisunni að morgni þegar tími er til að skapa. Skáldkonan gengur út í daginn til fundar við Fjallkonuna/Jörðina og goðmagnið Freyju sem gera henni endanlega kleift að yrkja. (189)
 
Í fjórða kafla er sjónum beint að ástinni, hjónabandinu og húsbóndavaldinu og hefst kaflinn á skemmtilegum inngangi um ástina í skáldskap kvenna og karla – og ástina almennt – og bendir Guðrún á að enn hefur enginn ráðist í það verkefni að gera samanburðarrannsókn á ástartjáningu í skáldskap íslenskra kvenna og karla (196). Það væri sannarlega skemmtilegt og verðugt verkefni. Í kaflanum er fjallað um ástarkvæði Guðrúnar frá Valshamri en einnig rifjuð upp ástar- og harmsaga Kristrúnar Jónsdóttur og Baldvins Einarssonar og fjallað um ljóð sem Kristrún orti um mynd af Baldvini, sem hún er lítt hrifin af:
 
Myndaspillir þú málar
manninn fríða svo ljótan
í þinn vesælings anda
anda drottins mun skarta.
 
Ennið þú afskræmt hefir
ættarsvipinn gjört styggan
blíðu augun svo bitur
brýrnar eins og á Grettir.
 
Öll er myndin afgömul
ama kafin í skuggum
nefið nokkuð aflagað
næstum munnurinn þrekist.
 
Hennar eigin hugarmynd er öllu fegurri:
 
Alltaf er Baldvin ungur
indæll, fölur og blíður
engilssvipur á enni
útvaldra myndum fegri.
 
Aldrei á ævi minni
eins sá ég þýðing mikla
um ásýnd ungra manna
sem á honum Baldvin.
 
Aldrei var Adam fegri
með æskusakleysi
þá guðsmyndin, glöð og fögur
Guði var hlýðin.
 

Guðrún fjallar um fleiri kvæði Kristrúnar og er sú umfjöllun öll hin áhugaverðasta. Guðrún skrifar meðal annars:

 
Merkilegt er líka að Kristrún notaði skáldrödd sína til að gagnrýna kynferðislegan yfirgang giftra karla. Húsbændur sem undirokuðu konur með holdlegum fýsnum sínum drápu ekki aðeins hjónabandsástina, þeir sugu lífsþróttinn úr konum. 244
 
Í fimmta kafla er sjónum beint að ljóðum Sigríðar Andrésdóttur sem einkennast af trúarlegum undirtóni. Hún virðist hafa litið á það sem sitt meginhlutverk að yrkja lof um frelsarann, að vera hirðskáld æðri máttarvalda (273). Sigríður orti líka erfikvæði og harmkvæði, líkt og margar aðrar skáldkonur fyrri alda.
 
Í þessum kafla er einnig fjallað um kvæði Kristínar Guðmundsdóttur sem átti erfiða ævi, veiktist ung af holdsveiki og orti um það:
 
Holdsveikinnar hryggðar mynd
helst er sýnir eymd og synd
ei nam hlífa æsku mín
um mig vafði blæju sín.
 
Vaxa óðum vann það mein
við ei höfð var lækning nein
um fermingaraldurs far
orðin veik til mun ég var.
 
Vandalausum var ég hjá
vant sem hirtu lækning fá
enda var það allra svar
að það mundi ei duga par.
 
Kristín dvaldi á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi frá því að hann var vígður árið 1898 til dauðadags 1901. Á spítalanum orti Kristín fjölda kvæða sem varðveitt eru í kvæðasafni sem að líkindum var skrifað upp þar. Hún yrkir um spítalann, um holdsveikina og um líf sitt og hlýtur hin handskrifaða kvæðabók hennar að teljast mjög merk heimild.
 
Guðrún bendir á að þær Sigríður og Kristín „voru báðar fátækar, ógiftar og barnlausar en bjuggu yfir menningarlegu auðmagni sem þær nýttu í þágu samfélagsins. Þær voru skáld og ræktu það hlutverk af einurð, hirðskáld Guðs. Hlutverk þeirra var að græða sálarsárin og bera ljós í líf fólks“ (332).
 
Í niðurstöðukafla bókarinnar skrifar Guðrún að meginviðfangsefni bókarinnar sé „að leyfa lítt þekktum og óþekktum skáldkonum að tala án þess að fella viðhorf þeirra og skáldskap sérstaklega að bókmenntastraumum samtímans sem þær áttu takmarkaðan þátt í að móta“ (337). Hún ítrekar að í textum þeirra hljómi margar raddir og að markmið sitt hafi verið „að leyfa þessum sundurleitu röddum að hljóma“ (337). Þetta hefur henni tekist prýðilega og það er sannarlega bæði áhugavert og skemmtilegt að hlusta á raddir skáldkvennanna og útleggingar Guðrúnar á skáldskap þeirra.
 
Guðrún Ingólfsdóttir hefur um langt árabil rannsakað íslenska bókmenningu fyrri alda og sér í lagi handrit kvenna. Árið 2011 kom út doktorsritgerð hennar Í hverri bók er mannsandi. Handritasyrpur, bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld, og 2016 sendi hún frá sér bókina Á hverju liggja ekki vorar göfugu kerlingar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum og fram á 18. öld. Með þessum þremur fræðiritum hefur Guðrún lagt fram drjúgan skrif til rannsókna á íslenskum bókmenntum og með því náð því markmiði sínu, sem hún nefnir í formála nýju bókarinnar, að „opna augu og eyru lesanda fyrir því að enn á fortíðin erindi við okkur“ (19).