Steinunn Inga Óttarsdóttir∙19. október 2018
BINDIÐ NIÐUR TRAMPÓLÍNIN, KOMIÐ GRILLUNUM Í SKJÓL. Stormviðvörun
Kristín Svava Tómasdóttir, Stormviðvörun, Bjartur 2015
Á votviðrasömu hausti 2015 var Stormviðvörun send út til landsmanna, þriðja ljóðabók reykvískrar skáldkonu, Kristínar Svövu Tómasdóttur. Áður hefur hún samið tvær ljóðabækur sem vöktu athygli fyrir hressilegt tungutak og róttækni. Frumraunin Blótgælur (2007) ruddist fram með látum; ælu, djammi og kaldhæðinni ádeilu á lífsstíl og neyslu. Næsta bók, Skrælingjasýningin (2011) þótti hárbeitt og ögrandi. Í Stormviðvörun hafa ljóðin styst, meitlast og mildast, ádeilan er ekki lengur hvöss og klúr. Alls eru 18 ljóð í bókinni sem fjalla um margvíslegt efni, s.s. land, þjóð og fortíð.
Dapureygður klyfjahestur og horfnir heildsalar
Titilljóðið er aftast í bókinni, það rífur í þegar maður hyggst leggja bókina frá sér og maður flettir aftur á fyrstu síðu til að lesa öll ljóðin aftur og aftur. Myndhverfingar ljóðsins eru drungalegar; sálin er dapureygður klyfjahestur, melankólían er ræktuð einsog hjartfólgin planta og líkaminn er eins og stór, þunglamalegur björn sem þráir að leggjast í híði. Tilfinningin sem skapast fyrir komandi vetri er þrungin þreytu og kvíða.
Í nokkrum ljóðum leitar fortíðin á, t.d. í „Passé 3: Rómantískt ljóð um kapítalista fortíðarinnar“ þar sem horfnir heildsalar koma við sögu en þeir eru orðnir sígilt tákn græðgi og efnishyggju. Í „Passé 4: Vér sigurvegarar“ er brugðið upp skuggalegri heimssýn, einhver hnýsist stöðugt í og ráðskast með líf okkar, við höfum tapað en hvers eigum við að gjalda?
Eftirfarandi er vel byggt og myndrænt ljóð sem sýnir vel húmorinn og þau frábæru tök sem Kristín Svava hefur á ljóðmálinu:
Gróðurhús
Geislavirkur birtukúpull
yfir snævi þakinni jörð
þrisvar á sólarhring er slökkt
svo plönturnar haldi að það sé komin nótt
leggst þá þunglyndi yfir mennska þegna
þessa varma lands
(13)
Sukk og froða
Myndmál flestra ljóðanna er einfalt, mest beinar myndir sem leyna þó á sér, t.d. „vonum að heimurinn tortímist í neistaflugi frá millistykkinu“ (8). Upphafsljóðið, „Böbblí í Vúlvunni“, er mjög í anda þeirrar róttækni og orku sem einkenndi fyrri ljóðabækur Kristínar Svövu. Ádeilan á neyslu og efnishyggju er umbúðalaus. Orðræða bókhaldsins birtist þar innan um allt sukkið og froðuna; rekstrarreikningur, risna og prósentur; og svo er bara að sækja um frest til að hægt sé að halda áfram að elska draslið og djönkið, efnisheiminn og ofgnóttina.
Lykt af brauðtertum
Það ríkir víða gleði í ljóðum Kristínar Svövu enda eru tilefnin ærin. Í ljóðinu „Austurvöllur á kistulagningardaginn“ er föstudagur með tilheyrandi grilli og gleði; tannlaus börn, stelpur í þynnku og fótbrotnir rónar í huggulegri sumarstemningu í Reykjavík og sorgin er víðs fjarri. Á gamlárskvöld hristir maður af sér grámann í opnu og lífshættulegu rými en fermingarveislan er hins vegar fyrirkvíðanleg, þar er lykt af brauðtertum og gömlu fólki og búið að læsa dyrunum.
Fossaljóð
„Upp við fossinn Lubba“ er náttúruljóð, nýtt innlegg í fossakvæði íslenskra (karl)skálda sem skipta tugum. Hér er ekki verið að dásama fossinn, fegurð hans og afl, heldur er hann tengdur við héraðsmót og fyllibyttur, ættbók og súra rigningu. Ljóðið er byggt á sífelldri endurtekningu sem minnir á vatnsnið. En í lokaerindinu hefur náttúrunni verið misboðið svo mjög að heimsendir blasir við.
Veðurhorfur næsta sólarhring
Það er af nógu að taka í Stormviðvörun, ljóðin eru ekki heildstæð eða þematengd en standa vel fyrir sínu hvert og eitt. Í titilljóðinu er vitnað í þunglyndislegan veðurfræðing sem kemst þannig að orði: „Dagurinn á morgun verður verri en það þýðir ekki að dagurinn í dag sé ekki slæmur“. Stormurinn er ekki brostinn á af fullum þunga en hann er í vændum og þá verða engin grið gefin.
Mynd: Forlagið
Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu, 17. október 2015