LISTIN AÐ LJÚGA. Ólöf eskimói.
Inga Dóra Björnsdóttir. Ólöf eskimói. Ævisaga íslensks dvergs í Vesturheimi. 275 bls. Mál og menning 2004.
Við Íslendingar stærum okkur gjarnan af þeim löndum okkar sem hafa gert það gott í útlöndum og höldum nöfnum þeirra á lofti. Þannig er það í dag og hefur verið lengi. Og afrekin geta verið af ýmsum toga: Við erum stolt af Vilhjálmi Stefánssyni og Jóhanni risa, Vigdísi forseta og Lindu fegurðardís, Björk og Sigur Rós, Laxness og Gunnari Gunnarssyni, Jóhanni Sigurjónssyni og Kristjáni Jóhannssyni, Völu Flosa og Þóreyju Eddu ... og svona mætti lengi telja. Á sama tíma og þeir Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður og Jóhann risi voru á dögum lifði íslensk kona í Vesturheimi, Ólöf Sölvadóttir alias Olof Krarer, og var bæði fræg og rík - en landar hennar héldu nafni hennar ekki á lofti, þeir voru hreint ekki stoltir af henni og um tilveru hennar ríkti þögn.
Þögnin um líf Ólafar Sölvadóttur hefur varað ótrúlega lengi en nú hefur Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifað ævisögu hennar sem hefur alla burði til þess halda minningu Ólafar á lofti um ókomin ár, enda lífsferill hennar með miklum ólíkindum. Hér er komin saga konu sem var einn mesti blekkingarmeistari Bandaríkjanna á sinni tíð og hreif fjöldann með lygasögum sínum. Hér er komin saga konu sem (endur)skapaði sig sjálf þótt guð og mennirnir hefðu skapað hana í dvergslíki og ætlað henni litla möguleika á mannsæmandi og hamingjuríku lífi.
Ólöf fæddist á Ytri-Löngumýri í Húnavatnssýslu árið 1858 og hún lést í Illinois í Bandaríkjunum árið 1935 á 77. aldursári. Barnæska hennar var mörkuð af fátækt, áföllum og móðurmissi, en áríð 1876 sigldi hún til Vesturheims í fylgd með fóður sínum, stjúpu, fimm alsystkinum, tveimur hálfsystkinum og einum stjúpbróður- og reyndar stóraum hópi íslenskra vesturfara. Fjölskyldan stóra átti sér draum um nýtt lífí Nova Scotia (Nýja Skotlandi) en ráðamenn þar höfðu boðið íslenskum landnemum gull og græna skóga kæmu þeir til Marklands. Loforðin voru hins vegar svikin og fjölskyldan átti einskis annars úrkosta en halda áfram til Nýja Íslands og halda þar áfram lífsbaráttu sinni í alsleysi og eymd framan af.
Ólöfu varð strax ljóst að þar biðu hennar ekki betri kjör en á Íslandi og hún yfirgaf fjölskyldu sína 19 ára að aldri og réð sig í vist til Winnipeg og örfáum árum síðar hélt hún þaðan, komin í nýja vinnu - í fjölleikahúsi. Í fjölleikahúsinu kom Ólöf fram í gervi eskimóa, en sagan segir að hún hafi byrjað að koma fram í því gervi vegna þess misskilnings margra Bandaríkjamanna að á Íslandi byggju eskimóar. Ólöf sá sér leik á borði, yfirgaf fjölleikahúsið og hófað flytja fyrirlestra þar sem hún kom fram í gervi eskimóa og fræddi áheyrendur um æsku sínu og uppvöxt á Grænlandi, þar sem hún þóttist fædd sem inúíti, sem þá voru kallaðir eskimóar. Skemmst er frá að segja að fyrirlestrar Ólafar slógu í gegn og um ríflega tveggja áratuga skeið ferðaðist hún vítt og breitt um Bandaríkin og flutti fyrirlestra sína við miklar vinsældir. Ólöf vann á vegum virtrar umboðsskrifstofu sem var í eigu Slaytonfjölskyldunnar sem hún bast tilfinningaböndum og bjó hjá í ríflega þrjá áratugi.
Árið 1887 kom út (skálduð) sjálfsævisaga Ólafar skráð af Albert S. Post, Olof Krarer. The Esquimaux Lady. A Story of Her Native Home. Kafli úr þeirri bók var síðan endurprentaður í bókinni Eskimo Stories sem kom út 1902 og var notuð í fjölmörgum bandarískum skólum sem heimild um líf inúíta á Grænlandi. Fyrir frásagnir sínar og fyrirlestra hlaut Ólöf mikla aðdáun og frægð og þótt til væru þeir aðilar sem vissu vel hvað klukkan sló og gátu afhjúpað blekkingu hennar, þá kusu þeir hinir sömu að gera það ekki fyrr en að Ólöfu látinni. Þá var það landi hennar Vilhjálmur Stefánsson sem kaus að afhjúpa leyndarmál Ólafar og hinn sanna uppruna hennar.
Inga Dóra Björnsdóttir hefur gert þessu sérstæða lífshlaupi Ólafar afar góð skil í lifandi og athyglisverðri frásögn, þrátt fyrir að heimildir um Ólöfu séu af mjög skornum skammti. Til að mynda hafa hvorki varðveist dagbækur né bréf frá Ólöfu, en slíkar persónulegar heimildir mynda oft uppistöðu þess efnis sem ævisagnaritarar vinna með. Inga Dóra getur sér þess til að Ólöf hafi sjálf varast að skilja eftir sig gögn sem gátu flett ofan af dulargervi hennar og er það ekki ósennilegt. En þótt heimildirnar séu ekki fyrirferðarmiklar tekst Ingu Dóru engu að síður að bregða upp trúverðugri mynd af Ólöfu og því samfélagi sem gerði henni kleift að leika blekkingarleik sinn með þeim fádæma árangri sem raun ber vitni. Það gerir hún með því að beina sjónarhorninu að ýmsum ólíkum þáttum sem allir skipta máli fyrir líf Ólafar og velgengni, hver á sinn hátt.
Hún fjallar til dæmis um mikinn áhuga bandarísks almennings á norðurslóðum sem var tilkominn vegna fyrstu tilrauna manna til að komast á Norðurpólinn; hún fjallar um hvernig stórbættar lestarsamgöngur og mikill skortur á afþreyingu auðveldaði Ólöfu að ná vinsældum sem fyrirlesari víða um Bandaríkin; hún fjallar um fjölleikahúsin og hlutverk þeirra í samfélaginu á þessum tíma; hún fjallar um viðhorf fólks til dverga og annarra „frávika“ í mannflórunni svo nokkuð sé nefnt. Þá veltir Inga Dóra einnig fyrir sér mögulegum ástæðum fyrir blekkingarleik og lygum Ólafar og leitar hún skýringa bæði í sálrænum sem og félagslegum þáttum. Kannski mætti segja að í frásögn sinni leitist Inga Dóra við að skapa fjölradda texta sem smám saman framkallar heillega mynd af lífshlaupi óvenjulegrar konu og því samfélagi sem hún lifði og hrærðist í.
Þess má að lokum geta að árið 1945 skráði Sigurður Nordal frásögn sem hann kallaði „Þáttur af Ólöfu Sölvadóttur“ (var fyrst fluttur í útvarp) þar sem hann reyndi að vekja athygli Íslendinga á Ólöfu og var umfjöllun hans í flesta staði mjög jákvæð. Í inngangi sínum að frásögninni skrifar Sigurður þessi orð: „Loks finnst mér, að íslenzkum konum ætti að renna blóðið til skyldunnar að hafa í heiðri minningu þessarar stúlku, sem komst svo prýðilega áfram, óstudd og ein síns liðs, og átti karlmönnum aldrei neitt að þakka - nema ef til vill dálítið af þeirri trúgirni og grunnhyggni, sem allt frá dögum Adams og Evu hefur einkennt karlþjóðina og komið kvenfólkinu að góðu haldi.“
Segja má að Inga Dóra Björnsdóttir hafi tekið þeirri áskorun sem felst í orðum Sigurðar og með bók sinni heiðrar hún „minningu þessarar stúlku“ sem skóp sér lífsgæði sem fæstir trúðu að hún ætti möguleika á, vissulega með því að spila á „trúgirni og grunnhyggni“ áheyrenda sinna en þó fyrst og fremst með leiftrandi frásagnargáfu sinni og sköpunarkrafti, ásamt óviðjafnanlegu áræði og metnaði.
Birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 27. nóvember 2004