SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. febrúar 2018

TILBRIGÐI VIÐ STEF. Sumarblús

Fríða Á. Sigurðardóttir, Sumarblús: smásögur, JPV-forlag 2000, 121 bls.

 

Fríða Á. Sigurðardóttir hóf farsælan skáldskaparferil sinn með útgáfu smásagnasafnsins Þetta er ekkert alvarlegt árið 1980. Fjórum árum síðar kom smásagnasafnið Við gluggann (1984) en í millitíðinni kom skáldsagan Sólin og skugginn (1982). Síðan hafa fjórar skáldsögur bæst í hópinn en nú þegar Fríða heldur upp á tuttugu ára rithöfundarafmæli sitt sendir hún frá sér þriðja smásagnasafnið: Sumarblús.

Í Sumarblús eru sex sögur sem við fyrstu sýn virðast sjálfstæðar og ótengdar en við nánari lestur kemur í ljós að í þeim má finna innra samhengi; þær tengjast allar í gegnum endurtekin stef og myndmál, auk þess sem einnig má finna efnislega tengingu á milli þeirra. Þau stef sem lesandi rekst á endurtekið í gegnum allar sögurnar tengjast í fyrsta lagi sumrinu; nefna má sólina í sínu lífgefandi hlutverki og blómin í öllum sínum litskrúðleika. Í öðru lagi er um að ræða andstæðu sólarinnar, myrkrið og skuggana sem geta lagst yfir mannlífið hvenær sem er. Í þriðja lagi er hægt að tala um stef sem tengjast hlutverki skynfæranna; að heyra, lykta, finna og kannski fyrst og fremst að sjá. Þessir flokkar stefja, ef svo má að orði komast, eru oftast samofnir. Til að sýna hvernig þeir eru ofnir saman í texta bókarinnar má til dæmis nefna orð eins og “litasinfónína” og “ilmsinfónía” sem koma oft fyrir og lýsa skynjun sögukonu á umhverfinu og tengjast þar saman sumarstefin og upplifun skynfæranna.

Titillinn Sumarblús er því ekki út í bláinn því eins og allir vita er blústónlist einmitt byggð upp á tilbrigðum við stef sem liggur eins og rauður þráður í gegnum lagið. En blúsinn er einnig tengdur trega og í titlinum mætast því þær andstæður sem eru gegnumgangandi í þessum sex sögum; sólinni og skugganum (minnir að sjálfsögðu á titil fyrstu skáldsögu Fríðu) og oft vefur Fríða þessum andstæðum listilega saman innan einnar og sömu sögu.

Fyrsta sagan “Heimsókn” segir frá heimsókn sögukonu til gamallrar konu á elliheimili. Á leiðinni þangað staldrar hún við styttuna Útlagarnir sem stendur á túninu á mótum Suðurgötu og Hringbrautar. Á óbeinan hátt tengir söguhöfundur því vist hinna öldruðu og yfirgefnu íbúa elliheimilisins við stöðu útlagans, en það er gert án nokkurs konar ítrekunar, heldur liggur samanburðurinn í undirvitund textans svo að segja. Útlagar koma fyrir í öðrum myndum í fleiri sögum; myndir af flóttafólki í sjónvarpinu vefast á úthugsaðan hátt saman við frásögn sögukonu í sögunni “Ást” þar sem fram fer mörgum sögum í frásögn sem er einstaklega vel saman sett og sýnir frábær tök höfundar á að flétta saman marga þræði í einu.

Söguefni Fríðu í þessum sex sögum tengjast allar á einn eða annan hátt konum. Í fjórum sagnanna er frásögnin sögð í fyrstu persónu sögukonu sem lýsir upplifun sinni af umhverfinu og samskiptum sínum við annað fólk. Í tveimur sagnanna er sjónarhornið bundið stúlkubörnum og lýsir á frábæran hátt upplifun þeirra á heimi hinna fullorðnu sem þær skilja kannski ekki fullkomlega – en skilja þó sínum skilingi. Í sögunni “Leitin” er á afar áhrifaríkan hátt sagt frá sambandi móður og barns út frá sjónarhóli barnsins sem er órjúfanlega tengt móðurinni á hátt sem vegur salt á milli sælu og sársauka.

Skil draums og veruleika er einnig stef sem víða hljómar í þessum sögum. Í sögunni “Sumardagur” er leikið á þessi skil á margvíslegan hátt. Sögukonan tekur sér frí frá þeirri sköpun veruleika sem felst í því að semja sögu og heldur út í sumardaginn í þeim tilgangi að kaupa sér ís. Á leið hennar verður ung móðir með nýfætt barn sitt, stór hundur og “skallagaurinn”, eigandi hans, og tvær litlar stúlkur sem slást í för út í ísbúðina. Með örfáum setningum bregður sögukona upp skírum veruleikabrotum úr tilveru þessa einstaklinga og á heimleiðinni villist hún inn í garð hjá gömlum manni sem tekur hana í misgripum fyrir aðra. Hún gengst inn á (og gengur inn í) veruleika gamla mannsins að því er virðist áreynslulaust:

 

Og hugsar um mun draums og veruleika. Að kannski sé munurinn ekki eins mikill og við viljum vera láta. Hef ég verið um stund í draumi gamals manns, eða raunveruleika, svo raunverulegum að hann gerði hann líka að mínum? Ég veit það ekki. Kannski lifum við meira og minna í draumum annarra. (bls. 96-7)

 

Síðasta saga bókinnar hefst síðan á þessum orðum: “Við lifum í sýndarveruleika” og segir þar af fundi sögukonu og gamals kunningja á flugvelli þar sem hún bíður eftir að taka á móti lítilli frænku sinni sem er að koma úr sveitinni (hugsanlega stelpan úr sögunni “Fjallið”). Kunningjanum er lýst þannig: “Dauflitur Armanijakki, fínleg rúllukragapeysa, staddur á miðjum aldri og lifði í sýndarveruleika. Sagði það með angistina í augunum. Eins og allt sé ekki hluti af sama veruleika, einnig sýndin” (bls. 119).

Samfléttun sýndar og veruleika er eitt af mörgum stefjum Sumarblúss Fríðu Á. Sigurðardóttur sem staðfestir enn og aftur með þessum sex sögum meistaratök sín á því að koma veruleikanum í orð. En það sem kannski er áhrifaríkast við þessar sögur Fríðu er sú staðreynd að veruleiki þeirra nær langt úr fyrir sýndina; texti hennar vísar út fyrir sig, til víðari veruleika sem byggir á reynslu hvers lesanda. Og það er greinilegt að Fríða treystir lesandanum til að skynja dýpið á bak við textann sem alltaf er margræður þó hann virðist einfaldur á yfirborðinu.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu. 22. nóvember 2000