SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. desember 2020

ELDHJARTAÐ SLÆR. Eldarnir

Sigríður Hagalín. Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir, Benedikt 2020, 287 bls.

 

„Þetta er ekki flókið, eldsumbrot snúast í raun bara um tíma, þrýsting kvikunnar og mótstöðu bergsins í kring.“ (143)

 

Hér talar eldfjallafræðingurinn Anna Arnardóttir, sem er aðalpersóna skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir. Anna trúir á raunvísindalegar aðferðir, reikniformúlur, línurit, töflur og mælingar og starfar sem forstöðumaður Jarðvísindastofnunar. Hún er að reyna meta líkur á eldgosi á Reykjanesskaga sem gæti ógnað lífi meginþorra þjóðarinnar. Í slíku mati verður að útiloka tilfinningar, tjáir hún samstarfskonu sinni:

 

Hér gilda engar tilfinningar […] Við lesum á mælana, fylgjumst með tölunum, mælum útslag jarðskjálfta, yfirborðs-færslur, hallabreytingar og gaslosun. Hér getur gosið hvar sem er, hvenær sem er, hvernig sem er, en ekki fyrr en mælarnir hafa sagt fyrir um það. Og þeim er skítsama um tilfinningar okkar. (142)

 

Önnu er þó ekki rótt því skjálftavirkni á Skaganum hefur verið mikil og afbrigðileg og þrátt fyrir yfirlýsta trú á aðferðir raunvísindanna er einhver tilfinning að naga hana, eitthvað sem býr í líkamanum og er erfitt að skilgreina og hemja:

 

„Ég loka augunum og skynja hreyfinguna á bak við þau, finn landið rísa og hníga eins og haföldu, hvernig glóðin streymir upp úr möttlinum og brýtur sér leið inn undir jarðskorpuna, kvikan byltir sér eins og fullburða fóstur, þrýstir á himnurnar í kringum sig og leitar útgönguleiðar.“ (142)

 

Tilvitnanirnar að ofan eru úr kafla um miðbik bókarinnar og ljóst að höfundur er að leika sér með samsvaranir á milli jarðhræringanna og þeirra tilfinninga sem aðalpersónan er að glíma við og sífellt að reyna að afneita og bægja frá sér. Þessi hliðstæða á milli hinna sýnilegu og mælanlegu ytri eldsumbrota annars vegar og tilfinningaumbrotanna innra með persónunni hins vegar er grundvallarhugmynd frásagnarinnar og gengur prýðilega upp og tvöfaldar merkingu textans þegar best lætur.

Aðferð Sigríðar Hagalín er bæði frumleg og skemmtileg. Saman við skáldskapartextann er fléttað textabrotum úr jarðfræðiritum og tilvísunum í þekkta innlenda og erlenda fræðimenn á sviði eldfjallafræða og jarðvísinda. Í bókinni er líka að finna kort af eldstöðvakerfinu á Reykjanesskaga, sem og önnur kort fyrir lesanda að glöggva sig á aðstæðum.

Meginfrásögnin er einnig fleyguð með skýringargreinum, ellefu talsins, þar sem skáldskapur og fræði falla saman í eina heild – eins og gildir raunar um bókina alla. Í skýringargreinunum er komið á framfæri ýmsum upplýsingum um helstu eldstöðvar Íslands en einnig um barnæsku Önnu og samband hennar við vísindamanninn föður sinn, sem hún ólst upp hjá og er hennar helsta fyrirmynd. Líka er lýst sambandinu við móður hennar, bóheminn og þunglyndissjúklinginn, sem yfirgaf hana í æsku og hún á í stríðu sambandi við.

Eldunum hefur verið lýst sem 'spennuástarsögu' og skyldi engan undra þar sem frásögnin hefur vissulega að geyma sögu af (forboðinni) ást, auk hinnar spennandi frásagnar af eldsumbrotum á Reykjanesskaganum. Ástarsagan er þó furðu léttvæg í heildarsamhenginu og lýsingar á sambandi Önnu og elskhuganum, Tómasar Adler, ekki fyrirferðamiklar. Það er ef til vill raunsætt bragð af hendi höfundar því Anna er á sífelldum flótta frá tilfinningum sínum og reynir meira að segja að skýra ástina með efnafræðiformúlu:

 

„Ástin er tiltölulega einfalt líffræðilegt ferli [...] Þetta er bara spurning um hormón, boðefni og tíma; hversu lengi líkamar okkar vinna úr henni, hvað við erum lengi að komast yfir hana.“ (201).

 

Lítið er lagt í lýsingar á Tómasi og í raun ekki auðvelt fyrir lesanda að átta sig á í hverju aðdráttarafl hans er fólgið. Hvað það er í fari hans sem Anna fellur fyrir er ráðgáta, nema gripið sé til efnafræðiformúlunnar ofannefndu og kenna ferlið við kynferðislega girnd eða greddu. Lýsingin á fallinu sjálfu er skýr og daðrar við hefðbundnar ástarsögulýsingar:

 

„[...] augu hans mæta mínum, og svo hrapa ég, einfaldlega, tapa áttum, missi jafnvægisskynið og fell í áttina að honum, dregst að honum eins og svartholi, fullkomlega stjórnlaust. Tek ekki einu sinni meðvitaða ákvörðun um að sleppa takinu á sjálfri mér, leyfa mér að falla, líkami minn hlýðir engum skipunum, hugur minn er hljóður en hjartað æpir af fögnuði.“ (146)

 

Lýsingin er sambandi Önnu og Tómasar er veikasti hluti bókarinnar og í reynd klisjukenndur. Hér höfum við fínu úthverfafrúna sem fellur fyrir bóhemnum, myndarlegum ljósmyndara í leðurjakka á mótorhjóli. Þau elskast á blettóttum sófanum á vinnustofu hans í gömul iðnaðarhúsnæði, sem hann býr einnig í. Eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan er fátt vitrænt við aðdráttaraflið sem frá Tómasi stafar, sambandið byggir á líkamlegri girnd, er nokkurs konar kvikuinnskot í líkama Önnu.

Hitt er annað mál að lýsingin á hjónabandi Önnu og heimili hennar gefur ekki til kynna að líf hennar standi á traustum grunni. Heimilið er fallegt á yfirborðinu, vel skipulagt og leitað til innanhússarkitekts þegar til stendur að breyta smáatriðum. Það er einmitt arkitektinn sem saknar karakters á heimilinu, en finnur síðan í vinnuherbergi Önnu, „ruslakistunni“, sem er í algjörri andstöðu við önnur rými einbýlishússins. Og samband Önnu við „elsku eiginmanninn“ virðist ekki heldur rista djúpt og greinilegt að hún bælir þrár og langanir sem passa ekki inn í settlega tilveru þeirra. Kostulegur kafli lýsir því þegar þau fara saman í kvenfataverslun og Önnu langar í rauðan sumarskjól, sem „er aðeins of dýr, aðeins of glannalegur, en fer vel við dökkt hárið, fallega um mittið og magann“. Eiginmaðurinn velur hins vegar ljósgráan, snyrtilegan skyrtukjól og niðurstaða Önnu er að hann hæfi „konu á mínum aldri, í minni stöðu. Ég er mjög ánægð með hann, í alvöru.“ (111)

Sprungusvæðið liggur því víðar en neðanjarðar á Reykjanesskaganum og við hæfi að sjálft gosið brjóti sér farveg upp í Elliðavatni, alveg við fína úthverfið þar sem Anna býr með fjölskyldu sinni.

Sannasta ástarsamband frásagnarinnar er samband Önnu við börnin sín, sérstaklega sambandið hennar við unga dóttur sína, Sölku, enda eru það einmitt eldarnir sem brenna í því sambandi sem ráða endalokum bókarinnar.

Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir er vel skrifuð og mjög áhugaverð bók. Hún er hugvitsamlega byggð og margir þræðir saman fléttaðir af leikni. Sá þráður sögunnar sem er mest heillandi er sá sem tengist eldfjallavirkni og jarðfræði Íslands. Unnendur skáldskapar og náttúru Íslands fá hér mikið fyrir sinn snúð en einnig þeir sem hafa gaman af spennu- og ástarsögum. Það er í raun aðdáunarvert hversu vel Sigríði Hagalín tekst að skrifa sögu sem er rótföst í samtímaveruleika um leið og atburðarásin byggist á fantasíu - sem vonandi verður aldrei að veruleika.