SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir22. mars 2023

SANNLEIKURINN ER SAGNA BESTUR - Um Sannleiksverkið eftir Clare Pooley

Clare Pooley. Sannleiksverkið. (Helga Soffía Einarsdóttir þýddi). Bjartur. 2022, 415 bls.

Sannleiksverkið eftir Clare Pooley kom út í fyrra í ágætri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur. Bókin heitir á frummálinu The Authenticity Project og hlaut RNA-verðlaunin fyrir bestu frumraun í skáldsagnagerð þegar hún kom út árið 2020. Hún hefur síðan verið þýdd á 32 tungumál og ratað á metsölulista.

Clare Pooley er rithöfundur, fyrirlesari og bloggari. Hún sendi frá sér bók um líf sitt, The Sober Diaries, árið 2017, síðan kom út Authenticity Project árið 2020 og nú síðast The People on Platform 5, árið 2022.

Clare starfaði í auglýsingabransanum í um tuttugu ár en sneri sér síðan að barnauppeldi. Þá rann upp fyrir henni að víndrykkja hennar hafði aukist mjög og fór hún að senda frá sér bloggið „Mummy was a Secret Drinker” sem síðan varð að bókinni The Sober Diaries. Við að opinbera það sem raunverulega gekk á undir fullkomnu yfirborðinu vaknaði hugmyndin að frumraun hennar í skáldskapnum, Sannleiksverkinu.

Það er vel hægt að skilja vinsældir Sannleiksverksins. Hún er lipurlega skrifuð, hnyttin og persónusköpunin sérlega skemmtileg. Sjónarhornið flakkar á milli fimm persóna sem eru hver úr sinni áttinni og eiga fátt sameiginlegt. Sannleiksverkið leiðir þær hins vegar saman og umbyltir lífi þeirra. 

Sannleiksverkið er ljúf afþreying sem fer vel undir ullarteppi, með rjúkandi kaffibolla á kantinum, á nöpru vetrarkvöldi.