SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir20. mars 2018

MEINABÖRN & MARÍUÞANG

Björg Örvar. Meinabörn & Maríuþang. Ævintýri um ástskyldar verur og unaðstak kræðunnar, 100 bóka forlagið 1996

 

Hér er komin skáldsaga sem hlýtur að sæta tíðindum í íslenskum bókmenntum. Þetta er bráðskemmtileg saga sem leiftrar af frásagnargleði, auðugu ímyndunarafli og frumleika og er umfram allt afar vel skrifuð.

Höfundurinn, Björg Örvar, er þekkt myndlistarkona og hefur hún áður gefið út eina Ijóðabók en Meinabörn & Maríuþang er fyrsta skáldsaga hennar. Sagan gerist á mörkum raunveruleika og fantasíu og fléttast saman örlög manna og ýmissa kynjaskepna á einstaklega frumlegan hátt og frjósaman (í margvíslegum skilningi).

Þótt uppspretta skáldskaparins sé fyrst og fremst frjótt ímyndunarafl Bjargar, notfærir hún sér óspart aðra texta svo sem Biblíuna og íslenskar þjóðsögur svo og náttúrufræði fjörunnar - því fjaran er það mikla kynjabeð þar sem hluti söguþráðarins er spunninn og ræktaður á óvæntan hátt.

Í sögumiðju er fjölskylda ein í litlu sjávarplássi úti á landi: hjónin Jón og Bergþóra, dætur þeirra Álfhildur og Marta, að ógleymdri ömmu í Arnarkoti, móður Jóns. Á öðru sviði ráða kynjaverurnar og erkióvinirnir Ljósfjandi og Sukkuba, sem bæði geta brugðið sér í allra kvikinda líki, eða tekið á sig þá mynd sem hentar þeim hverju sinni. Eða kannski er ekki rétt að segja að þau ráði á öðru sviði því vald þeirra og sköpunarkraftur teygir sig inn á það i svið sögunnar sem telst til þess raunveruleika sem við okkur blasir, svona frá degi til dags.

Svo margbrotinn er söguþráðurinn að hér verður ekki reynt að greina frá honum, heldur einungis sagt að meðal þess efnis sem hér er fjallað um eru ástir af ýmsu tagi, vinskapur, hjónaband, einsemd, samband kynjanna, staða kvenna, æskan og ellin, kukl og morð - svo fátt eitt sé nefnt! Vonandi nægir þessi upptalning til að kveikja í væntanlegum lesendum því lestrarnautn mikla er af hafa af þessum texta. Og talandi um lestrarnautn má minna á kenningar franska táknfræðingsins Roland Barthes um bllðan og stríðan lestur, þar sem sá fyrrnefndi á við lestur á texta sem er átakalaus og léttur en hins síðarnefnda stríður og krefjandi, en að sama skapi skapandi og mun meira gefandi en hinn. Texti Bjargar er áreiðanlega af seinna taginu; texti sem býður upp á nautn sem hinn blíði texti getur aldrei veitt þótt hann geti verið ágætis afþreying um stundarsakir.

Persónusköpun er með afbrigðum skemmtileg í þessari bók. Flestar eru persónurnar eftirminnilegar og má nefna t.d. áðurnefndan Ljósfjanda, Mörtu, sem eins og nafnið gefur til kynna á ættir að rekja til hafsins, og ömmu í Arnarkoti, sem framan af sögu er karlæg en í óvæntum söguhvörfum vindur af sér blóðrefill einn mikinn (elli-refillinn) og yngist frá degi til dags.

Mikill húmor býr í textanum og svo og lúmsk íronía. Og síðast en ekki síst er textinn víða þrunginn erótík sem á fáan sinn líka I íslenskum samtímabókmenntum. Óskiljanlegt er hvers vegna bókaforlögin hafa ekki bitist um að fá að gefa út þessa bók, en staðreyndin er sú að Björg Örvar gekk bónleið til búðar hjá nokkrum forlögum þar til hún ákvað að lokum að gefa bókina út sjálf í 100 eintökum. Og kemur hún nú út með lítilli viðhöfn rúmum þremur árum eftir að Björg lauk við hana. Þeir sem hafa verið að bíða eftir nýrri frumlegri skáldsögu, þar sem heillandi söguefni blómstrar í texta sem er ekki einungis frábærlega stílaður heldur leikur sér einnig með ímyndunarafl og tungumál þannig að eftir verðu tekið, ættu að reyna að komast yfir eintak af Meinabörnum & Maríuþangi. Það gæti þó orðið þrautin þyngri því væntanlega eru hin fáu eintök löngu uppurin hjá höfundi.

Ritdómurinn birtist í Veru í desember 1996